[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðrún Guðmunda Eggertsdóttir fæddist 15. september 1947 í Laxárdal í Þistilfirði. „Foreldrar mínir voru sauðfjárbændur, við vorum átta systkinin en auk þess voru aukabörn send í sveitina á sumrin og mjög gestkvæmt var á heimilinu.

Guðrún Guðmunda Eggertsdóttir fæddist 15. september 1947 í Laxárdal í Þistilfirði. „Foreldrar mínir voru sauðfjárbændur, við vorum átta systkinin en auk þess voru aukabörn send í sveitina á sumrin og mjög gestkvæmt var á heimilinu. Ég lærði snemma að hafa mikið að gera, verkefnin voru næg og við systkinin vorum alin upp við að ekki væri gott að gera ekki neitt svo við ærsluðumst í frjálsum íþróttum á heimagerðum velli flest kvöld. Æskan var yndisleg og áhyggjulaus í sveitinni. Bróðir minn er bóndi í Laxárdal og ég fer stundum í sauðburð þangað á vorin til að halda í ræturnar. Ég er búin að fara tvö ár í röð og fór oft í gamla daga.“

Guðrún fór í Laugaskóla í Reykjadal, var þar í þrjá vetur á heimavist og var síðan á Ísafirði í húsmæðraskóla einn vetur. Svo lá leiðin til Reykjavíkur í Ljósmæðraskólann og seinna meir bætti Guðrún hjúkrunarnámi við og auk þess uppeldis- og kennslufræði.

Guðrún hefur starfað víða við ljósmóður- og hjúkrunarstörf, þó lengst af á Landspítalanum. Eftir útskrift úr Ljósmæðraskólanum árið 1969 vann hún á Þórshöfn eitt ár og á Landspítalanum, hjartadeild og fæðingardeild, í nokkur ár. Hún var síðan yfirljósmóðir á Akureyri, fór þaðan á Kópasker í fimm ár og fór svo aftur að vinna á Landspítalanum og var þar 15 ár yfirljósmóðir á fæðingardeildinni 1997-2012. Eftir að hún hætti fullu starfi var hún í afleysingum á nokkrum heilsugæslustöðvum í Reykjavík þar til hún var orðin 71 árs. „Ljósmóðurstarfið er fjölbreytt og mjög gefandi að fá tækifæri til að vinna með fólki á stærstu stundunum í lífi þess.“

Guðrún hefur tekið þátt í ýmsum félagsstörfum alls staðar þar sem hún hefur búið. „Ég hef haft mikla ánægju af því, ég man t.d. að á Kópaskeri var ég í flestum félögum sem voru þar á þeim tíma. Ég hef stundað félagsstörf enn þá meira eftir starfslok mín og þá gegnt oftar formennsku.“ Guðrún er núna formaður í Soroptimistaklúbbi, er í stjórn Kvenfélags Garðabæjar og stjórn félags eldri ljósmæðra.

„Áhugamál mín hafa alltaf verið tengd einhvers konar íþróttum og hreyfingu, hef þó aldrei unnið til neinna verðlauna enda það ekki verið markmiðið heldur til að halda mér í formi og hafa lífið skemmtilegt.“ Guðrún spilaði blak með Snerti á Kópaskeri og Lansanum, sem var íþróttafélag á Landspítalanum.

„Ég ólst upp við að fara í smalanir og göngur á hestbaki og hef farið í um 30 hestaferðir um landið okkar í góðum hópum sem skapa ómetanlegar minningar og vináttu. Ég hef lengi átt hest og riðið út á veturna.

Við Kristján erum í gönguhóp með góðum vinum, ár hvert er farið í göngu í nokkra daga innanlands eða erlendis, og þá á Ítalíu, í Grikklandi og á Tenerife. Ég hef stundum verið að príla á há fjöll og er Herðubreiðin toppurinn á þeirri vegferð. Ég er búin að horfa á þetta fjall frá því að ég var barn.“

Fjölskylda

Guðrún er í sambúð með Kristjáni E. Yngvasyni, f. 8.2. 1947, smiði og verkefnastjóra. Þau eru búsett í Kópavogi.

Guðrún á tvö börn með fyrrverandi eiginmanni sínum, Ásvaldi J. Maríssyni, f. 5.1. 1948. Þau eru Kristján Eggert, f. 10.8. 1969, kerfisfræðingur, býr í Hafnarfirði. Börn hans eru Kládía, f. 29.8. 2002, og Valdimar, f. 1.1. 2004, og Elín, f. 31.8. 1972, líffræðingur og listakona, býr í St. Louis í Bandaríkjunum. Hún er gift Dale Ficken, f. 11.8. 1973, líffræðingi og tölvunarfræðingi. Synir þeirra eru Alexander, f. 20.2. 2003, og Erik, f. 28.2. 2005.

Systkini Guðrúnar: Bragi, f. 1931, d. 2019, húsgagnasmíðameistari; Petra, f. 1941, húsmóðir á Vopnafirði; Ólafur, f. 1943, kennari og ferðamálabóndi í Berunesi í Berufirði; Stefán, f. 1945, bóndi í Laxárdal; Marinó, f. 1946, smiður á Kópaskeri; Þórarinn, f. 1948, smiður og kennari í Iðnskólanum, búsettur í Reykjavík, og Garðar, f. 1954, smiður og verkefnastjóri í Kópavogi.

Foreldrar Guðrúnar voru hjónin Eggert Ólafsson, f. 28.10. 1909, d. 3.2. 1998, sauðfjárbóndi í Laxárdal í Þistilfirði, og Elín Margrét Pétursdóttir, f. 28.11. 1909, d. 28.11. 2000, húsmóðir í Laxárdal.