Stein Ingólf Henriksen (Brói) fæddist á Akureyri 10. janúar 1942. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum 5. september 2022.

Foreldrar hans voru Árdís Guðlaugsdóttir Henriksen, f. 19.3. 1917, d. 27.10. 1985, og Henry Stefán Henriksen, f. 31.7. 1917, d. 19.5. 1982.

Brói var næstelstur 12 systkina sem öll syrgja nú bróður sinn. Þau eru Jenný Margrete Dahl Henriksen, Harald Henriksen, Villy Björn Hjörvar Henriksen, Anita Henriksen, Aðalsteinn Bergdal, Henry Henriksen, Matthías Henriksen, Hákon Henriksen, Arne Júlíus Henriksen, Grétar Henriksen og Hjördís Henriksen.

Hinn 25.12. 1963 giftist Brói sinni heitelskuðu Mary Kristínu Coiner, f. 5.7. 1943, d. 4.6. 2019. Foreldrar hennar voru Steingerður Jóhannsdóttir, f. 27.7. 1919, d. 21.10. 2005, og Earl Gilliam Coiner, f. 25.2. 1922, d. 11.5. 1976.

Synir Mary og Bróa eru: 1) Ágúst Vilhelm, f. 1.10. 1962, kvæntur Örnu Ágústsdóttur, f. 23.1. 1964. Börn Ágústs af fyrra hjónabandi eru a) Sigríður Árdís, f. 7.9. 1983, hún á einn son, b) Jón Kristinn, f. 6.7. 1985, hann á einn son, og c) Tryggvi Stein, f. 30.10. 1989, kvæntur Guðnýju Erlu Guðnadóttur, þau eiga tvö börn. Börn Örnu af fyrra hjónabandi eru a) Emma, f. 31.8. 1989, gift Benoný Þórissyni, þau eiga fjögur börn og b) Logi, f. 17.7. 1992, í sambúð með Jóhönnu Svövu Darradóttur, hann á eina dóttur. 2) Engilbert Ómar, f. 3.12. 1965, kvæntur Arndísi Maríu Kjartansdóttur, f. 3.7. 1971. Börn þeirra eru a) Breki, f. 10.8. 1998, b) Bríet, f. 19.3. 2002, og c) Berta, f. 3.2. 2006. 3) Óðinn, f. 25.10 1973, kvæntur Steinunni Jónatansdóttur, f. 20.9. 1973. Synir þeirra eru a) Rúnar Kristinn, f. 27.8. 1996, kvæntur Bailey Ann Holloway, b) Brynjar Ingi, f. 19.11. 1999, í sambúð með Alexöndru Ósk Gunnarsdóttur Thorarensen og c) Jónatan Árni, f. 20.3. 2005.

Brói lauk prófi í vélstjórn árið 1971 frá Vélskóla Íslands í Vestmannaeyjum. Hann hóf sinn sjómannsferil á Akureyri aðeins 14 ára gamall. Þegar Brói kom í land eftir 53 ára sjómannsferil hafði hann róið á 25 bátum og skipum, þar af á Freyju RE-38 í 23 ár og á Hugin VE-55 í 18 ár.

Útför Bróa fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 15. september 2022, klukkan 14.

Elsku afi minn. Nú ertu farinn frá okkur allt of snemma, eftir sem betur fer stutt en erfið veikindi.

Síðustu dagar hafa verið svo skrítnir, við bjuggumst við meiri tíma saman hér á jörð enn sá sem öllu ræður hafði aðrar hugmyndir og vildi sameina ykkur ömmu fyrr þar sem þið bæði væruð aftur orðin heilbrigð og verkjalaus dansandi um alla eilífð.

Nú á ég ekki eftir að fá fleiri símtöl um hvað sé að frétta eða hvort ég geti aðstoðað afa með hitt og þetta.

Ég get ekki lengur hringt og minnt þig á tímabókanir eða afmæli – þú kannski minnir mig á hlutina héðan í frá.

Takk fyrir ferðalögin norður á Akureyri, sérstaklega fyrir að koma með mér og Gretari í vor þar sem var spjallað mikið alla ferðina um allt og ekkert ásamt því að hlusta á bækurnar hans Mikaels Torfasonar. Ég viðurkenni að ég varð stundum þreytt í eyrunum en það lagaðist fljótt.

Takk fyrir allt elsku afi minn, ég vildi að við hefðum fengið lengri tíma saman en ég veit að núna ertu kominn til ömmu Mary, ömmu Steinu, ömmu Öddu, Bestu og svo margra fleiri sem þér og okkur þótti vænt um.

Við sjáumst síðar elsku afi minn, ég mun sakna þín svo mikið.

Þín hægri hönd,

Sirrý Árdís.

Elsku afi og langafi okkar.

Elsku afi Brói, nú sit ég hér og skrifa þessi orð og trúi því ekki að þú sért búinn að kveðja í síðasta skipti, eftir stutt en erfið veikindi. Það er svo erfitt að lýsa því hversu mikils virði þú varst mér og öllum þeim sem þér þótti vænt um.

Það var alltaf svo gott og gaman að koma í Dverghamarinn og svo Hrauntúnið til ykkar ömmu og svo til þín í Foldahraunið, alltaf var tími fyrir mann, maður var alltaf velkominn og man ég vel þegar ég átti heima hjá ykkur um tíma í Dverghamrinum, hvað það var gott að vera hjá ykkur ömmu, og allar þær stundir sem við tveir vorum að bralla saman í bílum og laga eitthvað. Ekki má nú gleyma jólaskrautsuppsetningunum sem voru alltaf svo miklar pælingar hjá okkur, svo fannst þér nú ekki leiðinlegt þegar við komum með Sigurð Hjálmar og Sædísi Lilju í heimsókn, varst alltaf jafn glaður að fá yndislegu langafabörnin þín og eru þessar stundir ásamt miklu fleirum svo dýrmætar nú.

Það var alltaf svo stutt í hláturinn og gleðina hjá þér, enda talar Sigurður Hjálmar alltaf um þig sem brandarakallinn. Nú komum við til með að muna eftir þér og ömmu dansandi, brosandi út að eyrum og hlæjandi, höfum ekki trú á öðru en þið amma séuð að hlæja og dansa núna.

Þín verður sárt saknað elsku afi Brói.

Þinn nafni,

Tryggvi Stein og fjölskylda.

Stein Ingolf Henriksen, betur þekktur sem Brói, er fallinn frá eftir stutt en snörp veikindi.

Brói kom til Vestmannaeyja frá Akureyri sem ungur maður og ætlaði að stunda sjómennsku einn vetur. Ekki sneri hann aftur norður, því á eyjunni hitti hann Merrý, og þá varð ekki aftur snúið. Þau byggðu sér fallegt heimili, áttu börn og buru. Hinn 4. júní 2019 féll Merrý frá eftir erfið veikindi.

Brói var fagurkeri mikill, allt þurfti að vera rétt, enginn skái eða flái. Þetta minnir mig á að í eitt skipti er Merrý og Brói komu í kaffi til okkar í Hrauntúnið tók Brói eftir því að ein rafmagnsdósin var eilítið skökk, „munar líklega 1-2 millimetrum til eða frá“ sagði hann. Dósin var mæld, rétt skal vera rétt. Svona var Brói.

Kæri vinur, takk fyrir allt. Merrý tekur á móti þér með bros á vör.

Elsku Villý, Ómar, Óðinn og fjölskyldur. Það líður sem leiftur af skýjum, ljósgeisli af minningum hlýjum.

Kær kveðja,

Eygló (Systa) og Smári.

HINSTA KVEÐJA

Elsku langafi Brói.
Takk fyrir að styðja mig í bozia í vor.
Takk fyrir að taka mér eins og ég er.
Takk fyrir að segja mér sögur síðan í gamla daga.
Takk fyrir allt og allt.
Ég elska þig afi minn.
Við sjáumst seinna.
Þinn
Gretar Ingi Helgason.