Gullfallegur Pontiac Trans Am-bíll Guðfinns sómir sér heldur betur vel inni í bragga þar sem öll umgjörðin hefur verið sköpuð í kringum hann.
Gullfallegur Pontiac Trans Am-bíll Guðfinns sómir sér heldur betur vel inni í bragga þar sem öll umgjörðin hefur verið sköpuð í kringum hann. — Ljósmyndir/Agnes Geirdal
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristín Heiða Kristinsdóttir khk@mbl.is

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Þetta snýst ekki um hvað hann kemst hratt eða kraftinn í vélinni, heldur fyrst og fremst um stemninguna sem fylgir því að keyra hann og félagsskapinn með öðrum sem eiga gamla bíla,“ segir Guðfinnur Eiríksson, eigandi gullfallegs Pontiac Trans Am, árgerð 1977. Guðfinnur býr í Borgarholti í Biskupstungum, en í gömlum herbragga þar geymir hann gullvagn sinn. Þegar komið er inn í braggann opnast heill heimur og augljóst að nostrað hefur verið við að skapa stemningu frá þeim tíma sem þessi 45 ára bíll var framleiddur. Þar eru alls konar gamlir hlutir sem tengjast bílum, hjólkoppar, skilti, hljómplötur, plötuspilari, ljósmyndir, myndavélar, bílamódel, gamaldags lampar og húsgögn.

„Þetta er strákaheimur með strákaskrauti og vissulega snýst þetta um nostalgíu, því þegar ég var unglingur þá horfði ég með aðdáun á átta strokka kagga á götunum og lét mig dreyma um að eignast einn slíkan. Fyrir tólf árum varð það loksins að veruleika, þegar ég keypti þennan bíl, en hann var fluttur inn 2007 og málaður hér heima af fyrri eiganda. Bíllinn er vissulega antikmunur, og sómir sér vel hér í bragganum, en ég keypti hann til að keyra hann. Ég hef keyrt hann alveg helling með Krúserklúbbnum öll sumur frá því ég fékk hann í hendurnar. Ég mæti líka á hverju ári á honum á hátíðarhöldin hér í sveitinni á 17. júní.“

Guðfinnur segist hafa verið með bílinn í skúr í Reykjavík árum saman því hann hafi vantað aðstöðu fyrir hann heima í sveitinni.

„Þegar Covid skall á þá gafst tími til að flikka upp á þennan ónýta herbragga og breyta honum í gamaldags umgjörð og skýli sem hæfði Trans Aminum. Hér var moldargólf og bragginn illa farinn. Við biðum nánast eftir því að hann fyki í næsta roki. Hann var fullur af drasli og hér inni var partabíll frá syni mínum sem er bifvélavirki. Við hreinsuðum út úr honum allt ruslið, steyptum gólfið, klæddum hann að innan og styrktum hann en þetta er fyrst og fremst vélageymsla og verður það áfram. Hér ekkert rennandi vatn eða upphitun. Við viljum líka halda bragganum upprunalegum og grófgerðum að utan. Við viljum ekki klæða hann því þá missir hann sjarmann, en ég málaði hann.“ Guðfinnur fær glampa í augun þegar hann lýsir þeirri góðu tilfinningu sem hann segir fylgja því að keyra Trans Aminn.

„Hávaðinn úr átta strokka vélinni hljómar eins og mal í mínum eyrum en mesta ánægjan er félagsstarfið í Krúserklúbbnum þar sem allir eiga þetta sameiginlega áhugamál. Ég fer reglulega til Reykjavíkur til að fara á rúntinn með þeim. Við hittumst á fimmtudögum og keyrum gamla rúntinn, niður Laugaveginn eins langt og hægt er, niður í Kvosina og á Hallærisplanið en endum á planinu utan við Hörpu. Þar breiðum við úr okkur og höfum bílasýningu í nokkrar mínútur. Svo heldur hver til síns heima. Á þessum rúnti erum við allt frá því að vera á tveimur bílum upp í að vera á 150 bílum. Þetta eru allt sparibílar, gamlir kaggar, kádiljákar og alls konar eðalvagnar af öllum árgerðum. Þetta er mjög skemmtilegt og tilfinningin einstök sem fylgir því að keyra saman á gömlu bílunum okkar í góðu veðri,“ segir Guðfinnur sem er í stjórn Krúserklúbbsins og tekur bílaljósmyndir fyrir félagana, sem hann segir stóran hluta af ánægjunni við félagsstarfið.

„Ég mynda á hverju fimmtudagskvöldi. Bílaeigendurnir bíða spenntir eftir að sjá myndirnar af sínum bílum og njóta þess líka að skoða þær yfir veturinn,“ segir Guðfinnur sem játar fúslega að vera með bíladellu. „Ég hef verið með hana frá því ég man eftir mér.“

Smokey and the Bandit

Svokallaður Té-toppur er á bílnum, sem hægt er að opna og Guðfinnur segir geggjað að keyra með opið upp til himins, láta vindinn leika um hárið og hlusta á Creedence Clearwater í græjunum.

„Ég legg mikla áherslu á að spila réttu gömlu tónlistina þegar ég keyri um á honum, og það þarf að vera hátt stillt,“ segir Guðfinnur. Hann bætir við að fyrir öllum smáatriðum hafi verið hugsað. Til dæmis sé gamla bílnúmerið aftan á bílnum, E 98, komið frá afa eiginkonunnar, Agnesar Geirdal, en hann bjó á Akranesi. „Númeraplatan er líka í fullkominni stærð. Hún er stutt og smellpassar fyrir bensínlokið sem er undir númerinu.“

Guðfinnur segir að auðvitað þurfi að halda 45 ára gömlum bíl vel við, smyrja hann og hlúa að honum á alla lund.

„Sem betur fer er ekkert mál að fá varahlut í gamlan bíl sem er svo vinsæll sem raun ber vitni með þessa tegund, sérstaklega í Bandaríkjunum en líka í Svíþjóð. Pontiac Trans Am varð rosalega vinsæll eftir að kvikmyndin Smokey and the Bandit var frumsýnd 1977, með Burt Reynolds í aðalhlutverki. Hún var í öðru sæti á vinsældalista árið á eftir Star Wars og salan á þessum bílum rauk upp. Á hverju ári er haldin einhvers konar afmælishátíð kvíkmyndarinnar og þá safnast saman fjöldi fólks með svona bíla,“ segir Guðfinnur sem leggur sig fram um að kynna afastelpunum sínum heillandi heim Trans Am. „Þær hafa allar fengið við eins árs afmæli stuttermaboli með mynd af Trans Am og þær fá líka bíl, alveg eins og afi á, og leika sér að bílum hér inni í bragganum.“