Mark Reynismenn fagna marki gegn KA á Akureyri í sumar.
Mark Reynismenn fagna marki gegn KA á Akureyri í sumar. — Ljósmynd/Þórir Tryggvason
Knattspyrnumaðurinn Ivan Jelic, markvörður Reynis úr Sandgerði, var á þriðjudaginn úrskurðaður í fimm leikja bann þegar aga- og úrskurðarnefnd KSÍ kom saman á fundi.

Knattspyrnumaðurinn Ivan Jelic, markvörður Reynis úr Sandgerði, var á þriðjudaginn úrskurðaður í fimm leikja bann þegar aga- og úrskurðarnefnd KSÍ kom saman á fundi. Var Jelic úrskurðaður í bannið vegna rasískra ummæla sem hann viðhafði í garð Júlios Fernandes, leikmanns KF, í leik liðanna í 2. deild karla á dögunum.

Dómari varð var við ummælin og gaf Króatanum Jelic beint rautt spjald vegna þeirra. Hann lét ummælin falla eftir að Brasilíumaðurinn Fernandes, sem er dökkur á hörund, hafði skorað framhjá honum skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks. Í síðari hálfleik bætti Fernandes við þremur mörkum og skoraði því fjögur mörk í 8:3-sigri KF.

„Leikmaður nr. 7 hjá KF skorar. Leikmaður nr. 32 hjá Reyni bregst illa við því. Dómari fer til leikmanns 32. og spyr hann hvert sé vandamálið. Leikmaðurinn svarar því ekki, en þess í stað hrópar hann rasísk ummæli um leikmann nr. 7. („Fucking litle monkey“),“ segir meðal annars í skýrslu dómara leiksins um atvikið.

„Það er mat aga- og úrskurðarnefndar KSÍ, m.t.t. þeirra gagna sem aflað hefur verið í málinu, að með hinum umdeildu ummælum hafi Ivan Jelic gerst brotlegur við ákvæði 15.1. í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál. Hafi ummæli leikmannsins, „Fucking litle monkey“, falið í sér fyrirlitningu og niðurlægingu í orði með vísan til þjóðernisuppruna leikmanns andstæðinga,“ segir meðal annars í úrskurði aga- og úrskurðarnefndar KSÍ.