Sigrún Þorsteinsdóttir fæddist 22. september 1922 að Hörðubóli í Miðdölum, Dalasýslu. Foreldrar hennar voru Þorsteinn Jónsson, f. 1874, d. 1966, og Jóna Elín Snorradóttir, f. 1896, d. 1971.

Sigrún Þorsteinsdóttir fæddist 22. september 1922 að Hörðubóli í Miðdölum, Dalasýslu. Foreldrar hennar voru Þorsteinn Jónsson, f. 1874, d. 1966, og Jóna Elín Snorradóttir, f. 1896, d. 1971.

Sigrún giftist fyrri eiginmanni sínum, Vilhjálmi Friðrikssyni, 1942 og slitu þau samvistum. Hann lést árið 1996. Börn þeirra eru Dagný Heiða, f. 1942, Friðjón Ágúst, f. 1944, Jón Steinar, f. 1945, og Una, f. 1949. Seinni eiginmaður Sigrúnar var Ársæll Hannesson, f. 1929, d. 2020. Börn þeirra eru Ásdís Lilja, f. 1955, Dóra Bryndís, f. 1957, Hannes Grétar, f. 1958, og Guðgeir Eiður, f. 1960.

Fyrstu ár ævinnar flutti Sigrún með fjölskyldu sinni á milli nokkurra staða. „Efst í minningunni er jörðin Glæsivellir í Miðdölum, vorum við þar í nokkur ár. Að síðustu var flutt að Svalbarða í sömu sveit (1936-1956). Þar bjuggu þau meðan þau höfðu heilsu og getu til að vera með skepnur sem var þeirra lifibrauð. Þar voru tvær kýr og kindur sem ég man ekki hvað voru margar.

Það fór nú ekki mikið fyrir skólagöngu, ég lærði að lesa, reikna og skrifa heima og það bóklega var ekki upp á marga fiska. Farkennsla var nokkra mánuði á vetri hverjum sem var á heimilum þar sem börn voru 10-12 ára.

Eftir unglingsaldur vann ég á símstöðinni í Búðardal og líkaði það vel. Svo tók alvara lífsins við með eiginmanni og börnum, en við bjuggum t.d. um tvö ár á Svínhóli í Miðdölum. Eftir smá flakk í u.þ.b tvö ár þá slítum við Vilhjálmur samvistum. Basl er búskapur stendur einhvers staðar og þá var enga aðstoð að fá frá því opinbera. Þurftum við að koma börnum fyrir hjá góðu fólki, en það yngsta var hjá mér. Það tók á en harður er lífsins skóli.“

Sigrún réðist í vinnu austur í Grafningi með ársgamla dóttur sína og þar kynntist hún seinni eiginmanni sínum, Ársæli Hannessyni. Fluttist hún til hans þegar þau fóru að búa á Stóra-Hálsi í Grafningi, þaðan sem hann var ættaður. „Þar var blandaður búskapur kýr, kindur, hænsni og tún ræktuð. Börnin fæddust, íbúðarhús byggt og einnig útihús og nóg að gera á báða bóga. Árin liðu, börnin flugu úr hreiðri við eltumst og heilsu okkar hrakaði. Á endanum fluttum við á hjúkrunarheimilið Ás í Hveragerði þar sem eiginmaður minn féll frá árið 2020. Og hér er ég að ná 100 ára aldrinum.

Það sem angrar mig mest er að bæði sjón og heyrn eru að fjara frá mér. En þegar upp er staðið er ég þakklát fyrir mig og mína.“ Afkomendur Sigrúnar eru í dag 68 talsins.