Mjög er nú horft til kosninga á Ítalíu, þótt hætta á kollsteypu sé minni en áður var óttast

Kosið verður til þjóðþings Ítalíu nk. sunnudag. Margt þykir benda til að verulegar breytingar verði í framhaldi af þeim. Eitt liggur reyndar þegar fyrir, hvað sem úrslitum kosninga líður. Mario Draghi, forsætisráðherra og fyrrum seðlabankastjóri evrunnar, sem sendur var til Rómar í bögglapósti frá Brussel, eftir síðasta uppnám í ítölskum stjórnmálum, hverfur úr sínu embætti.

Óneitanlega fólst í því nokkur niðurlæging fyrir þetta stolta, fjölmenna og sögufræga ríki, eitt af sex stofnendum ESB. Framtíðardraumurinn hét eitthvað annað þá og skipti oft um heiti á breytingarskeiðinu í átt til þess að fullveldi einstakra ríkja verði mest til málamynda, nema helst hjá tveimur stærstu ríkjum þess. Að auki var þetta í annað sinn á stuttum tíma sem ESB sendi slíkan „pakka“ frá sér til að taka yfir forsætisráðuneytið í Róm. Hinn var Mario Monti, sem þar á undan hafði gegnt embætti kommissars hjá sambandinu. Ekki er svo sem um það deilt að þessir reyndu menn kunnu margt fyrir sér. En það dugði þó ekki til þess að koma efnahag Ítalíu fyrir horn.

Á Ítalíu er óheimilt að birta skoðanakannanir um líkleg kosningaúrslit þegar tvær vikur eða skemmri tími er til kosninga.

Síðustu kannanir sem birtar voru eru því frá 9. september. Alþekkt er frá Ítalíu sem öðrum löndum, að kannanir taka einatt nokkrum breytingum á lokaspretti þeirra. En hitt er jafnrétt að svipi helstu könnunum saman frá ólíkum aðilum hafa þær sennilega nálgast mjög lokatölur kjördags. Þess vegna er réttlætanlegt í senn að horfa þétt til þeirra um leið og óhjákvæmilegir fyrirvarar eru slegnir.

Línurnar, sem lesa má úr 10 daga gömlum ítölskum könnunum og aðeins eldri, benda eindregið til að flokkar hægra megin við miðju séu líklegir sigurvegarar að þessu sinni og þá með meira afgerandi hætti en til að mynda varð í Svíþjóð nýverið. Í annan stað má fullyrða að þrír helstu leiðtogar flokkanna þriggja, sem sennilega leiða eða standa að næstu stjórn verða mun minni aðdáendur ESB en flokkarnir á vinstri kantinum, sem eru að missa fylgi. Forystumenn þeirra eru Georgia Meloni, en frúin sú er formaður flokks „Bræðra Ítalíu“ og virðist ætla að bæta við sig miklu fylgi frá síðustu kosningum. Næstur er Matteo Salvini sem verið hefur leiðtogi (Norður-)Bandalagsins og var lengi talinn helsti spútnik á ítalska hægri kantinum, en hefur tapað þeirri stöðu til Meloni. Sá þriðji er ekki nýr af nálinni, sjálfur Silvio Berlusconi, margreyndur forsætisráðherra og meðal ríkustu manna á Ítalíu. Hann er 85 ára gamall, svo bandarískir demókratar geta sagt „Biden hvað?“

Flokkur Berlusconis, Forza Italia, mun samkvæmt könnunum tapa verulegu fylgi frá síðustu kosningum og fá um 8% atkvæða. En samanlagt verða þessir flokkar með rétt rúmlega 45% fylgi, sem er mun öflugri útkoma en helstu flokkar á vinstri kantinum stefna í. Fréttaskýrendur vekja réttilega athygli á að forystumenn tilvonandi ríkisstjórnarflokka í Róm séu engir aðdáendur ESB. Er þá einkum átt við Meloni og Salvini. Berlusconi hefur hins vegar mildast verulega í afstöðu sinni varðandi hugsanlega útgöngu. Hann hefur þó lengi ýtt undir hugmynd um tveggja mynta kerfi á Ítalíu, annars vegar með gömlu lírunni og hins vegar evrunni. Bent er á að til að mynda í Kína sé tvöfalt myntkerfi í gangi, sem hafi um margt verið handhægt fyrir stjórnvöld þar.

Hvað sem þessu líður þá virðast ábyrgðarlausu ráðamennirnir í Brussel hafa nú minni áhyggjur af því að til valda komist flokkar í Róm sem horfa jákvætt á fordæmi Breta. Þeirri ró veldur einkum sú staða að ESB og Seðlabanki evrunnar halda nú á stærstum hluta erlendra skulda Ítalíu, sem eru veruleg byrði, og það leiði til þess að ný ríkisstjórn þar hljóti því að flýta sér hægt við að ná fram því hugðarefni að höggva á böndin til Brussel!