Anna Guðný Guðmundsdóttir fæddist í Reykjavík 6. september 1958. Hún lést í faðmi ástvina á líknardeild Landspítalans 11. september 2022.

Foreldrar Önnu eru Guðmundur Halldórsson, f. á Borgarfirði eystra 10.8. 1932, og Aagot Árnadóttir, f. á Vopnafirði 7.4. 1935.

Systkini Önnu eru Hjördís, f. 2.12. 1956; Þórdís, f. 24.4. 1960; Sverrir, f. 24.3. 1962, og Kristján, f. 8.11. 1966.

Anna Guðný giftist Sigurði Ingva Snorrasyni, f. 22.4. 1950, hinn 7.12. 1985.

Börn þeirra eru: 1) Ásta, f. 6.10. 1989, maki Kristján R. Hjörleifsson. Börn þeirra: Baldur Páll, f. 21.9. 2018, og Sóldís Sumarrós, f. 23.9. 2020. 2) Guðmundur Snorri, f. 10.5. 1992, unnusta Anna Katrín Þórkelsdóttir. Barn þeirra Hafdís Anna, f. 7.5. 2021.

Sigurður á tvo syni frá fyrra hjónabandi: Marian, f. 21.6. 1975, maki Guðrún Dís Kristjánsdóttir. Börn þeirra eru Bjarki Freyr, f. 29.8. 2006, og Sandra Dís, f. 21.6. 2014. Fyrir átti Marian soninn Bergvin Mána, f. 12.7. 1995, móðir hans Kolbrún Gunnarsdóttir. Daníel, f. 23.6. 1976, sambýliskona Eva Hillerz, sonur þeirra Eiður Logi, f. 30.12. 2017.

Anna Guðný lagði stund á píanónám í Barnamúsíkskólanum hjá Stefáni Edelstein. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1977 og burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1979. Þá lauk hún framhaldsnámi frá Guildhall School of Music and Drama í London árið 1982 þar sem hún lagði áherslu á meðleik og kammertónlist.

Anna var um árabil fastráðinn píanóleikari hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands og hjá Kammersveit Reykjavíkur, lék með Karlakór Reykjavíkur í hartnær 30 ár og spilaði með öllu helsta tónlistarfólki landsins, bæði söngvurum og hljóðfæraleikurum. Hún kom reglulega fram á Listahátíð og fjölmörgum tónlistarhátíðum, s.s. Reykjavik Midsummer Music og Reykholtshátíð. Þá lék Anna inn á um 30 geisladiska með mörgu fremsta tónlistarfólki landsins en auk þess gaf hún út rómaðar einleiksplötur.

Anna Guðný hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2008 fyrir flutning sinn á verki Oliviers Messiaens Tuttugu tillit til Jesúbarnsins. Áður hafði hún hlotið orðu Hvítu rósarinnar frá finnska ríkinu (1997) og verið útnefnd bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2002. Síðastliðið vor hlaut hún heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna og hinn 17. júní í ár var hún sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt á sviði tónlistar.

Útför hennar fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 22. september 2022, klukkan 15. Hlekk á streymi má nálgast á:

www.mbl.is/andlat

„Hvað er langlífi?“ spurði skáldið Jónas og svaraði sjálfur: „Lífsnautnin frjóa, alefling andans og athöfn þörf.“ Hann dró í kvæðinu fram þá þverstæðu að það má tóra langa ævi án þess að hafa lifað til fulls. Þegar við nú tregum þau örlög að Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur hlotnist ekki lengra líf er það huggun að hún lifði sannarlega til fulls, hennar var lífsnautnin frjóa, andagiftin og verkgleðin.

Við Anna vorum systradætur en í verunni meira eins og systur. Við göntuðumst stundum með ætta okkar kynlega bland, þar sem saman kom hinn strangi agi og ráðdeild af Langanesinu og svo léttleiki ömmu Johansen með ást á sykri og rjóma og öðrum lífsins lystisemdum. Í Önnu fléttuðust þessir þættir óviðjafnanlega saman. Hún var agaður listamaður sem undirbjó hvert verkefni af kostgæfni, samviskusöm og nákvæm, en það hefði þó hrokkið skammt ef ekki hefði fylgt músíkgáfa af bestu sort, innlifunin og ástin á viðfangsefninu hverju sinni. Hún var óhemju fjölhæfur píanóleikari eins og starfsferill hennar og afrekaskrá ber vott um. Sjálf talaði hún um að rætur sínar lægju í Vínarklassíkinni – hún var til að mynda afburða Beethoven-túlkandi og lagði sig sérstaklega eftir að ná góðum tökum á hans verkum. En hún sprengdi líka ítrekað af sér slíka ramma, einna eftirminnilegast þegar hún stóð á fimmtugu og frumflutti hérlendis stórvirki Oliviers Messiaens, Tuttugu tillit til Jesúbarnsins.

Það var gaman að vera með Önnu á vinafundum – Johansen-genið sá til þess og dásamleg samstilling þeirra Sigga sem spannaði léttilega bæði listflutning og veisluhöld. Löngunin til að sameina ferðalög, gastrónómíu og tónlistarupplifun leiddi okkur nokkur, með Sigga og Önnu í broddi fylkingar, í ógleymanlegar ferðir á meginlandið, þar sem ópera var gjarnan í miðpunkti en utan á var hlaðið grasagörðum, dómkirkjum, kaffihúsum, listasöfnum, restauröntum – og kannski einu vöruhúsi þar sem finna mátti litríka sokka eða eins og einn silkikjól. Hér heima áttum við frænkur ótalmargar gleðistundir, og líka aðrar, ekki síður dýrmætar, þar sem meiri alvara ríkti og talað var í trúnaði. Anna var orðvör og að ýmsu leyti dul. Hún hallaði yfirleitt aldrei orði á nokkurn mann og henni var það eðlislægt að draga athygli að afrekum annarra fremur en að halda fram eigin framlagi. Auðvitað var hún samt, á sinn hógværa hátt, stolt af verkum sínum. Hún unni vinnunni sinni og vildi veg Sinfóníuhljómsveitarinnar og samstarfsfólksins þar sem mestan. Sama gilti um nemendurna í MÍT og LHÍ sem hún fylgdi í lokapróf; hún var stolt af þeim og fylgdist vel með ferli þeirra eftir útskrift. Og hún var stolt af börnunum þeirra Sigga og naut tilkomu barnabarnanna af djúpri og einlægri gleði. Hún átti ríkulegt líf og lifði því vel.

Við Anna kvöddumst á afmælisdaginn hennar við glitrandi voginn þar sem hún var umvafin sólargeislum og tónum úr klarinettunni hans Sigga. Fáeinum dögum síðar var hún öll. Farðu vel, frænka og vinkona. Ég mun hugsa um þig í miklu sólskini.

Svanhildur Óskarsdóttir.

Haust. Ég horfi á spegilslétt vatnið, morgunroðinn litar austurhlið fjallsins fjólubláa og bleika. Skógurinn skartar fegurstu haustlitum. Fuglarnir eru byrjaðir að bústanga en þeir eru margir á förum, hafa lokið verkefni sínu þetta árið. Ég hugsa um upphaf og endi og þessa undarlegu vegferð sem er líf okkar mannanna. Um hjallana sem við klöngrumst yfir, fjöllin sem við klífum, en einnig um fegurðina sem við kynnumst á leiðinni og hamingjuna sem felst ekki síst í samneytinu við ferðafélagana. Fólkið sem fetar veginn með okkur og sem réttir út höndina þegar gangan verður erfið og gleðst með okkur þegar torfærurnar eru að baki. Fólkið sem ég kalla föruneytið. Anna Guðný Guðmundsdóttir var í mínu föruneyti. Við vorum systradætur og vinkonur frá því ég man fyrst eftir mér. Við vorum samstiga í svo mörgu á lífsleiðinni allt frá því að við gengum saman í Barnamúsíkskólann þar sem okkur opnaðist töfraheimur tónlistarinnar. Og við uxum úr grasi, vorum ungar konur á tímum umbreytinga, kvennabaráttan var komin á skrið og okkur var mikilvægt að efla eigið sjálfstæði og finna eigin rödd. Þetta var ekki síst mikilvægt ungri listakonu og Anna tókst á við það af því hugrekki og einurð sem einkenndi hana alla tíð.

Við tókum til við starfsferilinn, urðum eiginkonur og mæður og svo ömmur. Alltaf héldum við tryggð hvor við aðra og gættum þess að skapa okkur pláss í annríki hversdagsins til að hittast, í áratugi höfum við hist reglulega yfir hádegisverði með Svanhildi systur og svo Þórdísi systur Önnu. Þessi hópur hefur verið minn áttaviti og fundirnir vettvangur fyrir hvaðeina sem manni bjó í brjósti, gefandi samræður og jafnframt sprúðlandi kátínu. Alltaf var hægt að gleðjast með Önnu. Og margar dásamlegar samverustundir höfum við átt í litla tónlistarfélaginu okkar, bæði erlendis og hér heima.

Anna elskaði vinnuna sína og var ávallt sami eldhuginn í tónlistinni. Verkefnin voru svo spennandi og henni fannst alltaf svo gaman. Alla ævi lagði hún áherslu á að þroska sig sem listakonu, bæði með því að takast á hendur ný og krefjandi verkefni og einnig með því að fylgjast vel með því sem var að gerast í menningu og listum. Það var stórkostlegt að fylgja henni þegar hún tókst á við stórvirki Oliviers Messiaens, Tuttugu tillit til Jesúbarnsins, sem hún flutti á tónleikum á 50 ára afmælisdaginn sinn. Það er ógleymanleg stund.

Þegar reiðarslagið dundi yfir með sjúkdómsgreiningunni fyrir hálfu öðru ári kom styrkur Önnu, einurð og bjartsýni enn og aftur í ljós. Þau Siggi voru einstaklega samhent í því að njóta þeirra gæðastunda sem hver dagur gaf. Af örlæti sínu gáfu þau okkur öllum sem kringum þau stóðum ríkulega af gleðistundum. Nú er komið að leiðarlokum og í hjarta mér er fyrst og fremst þakklæti fyrir samfylgdina og vináttuna sem aldrei bar skugga á. Söknuðurinn er sár en hugsunin um Önnu mun minna okkur á að halda áfram að njóta fegurðarinnar og lífsins. Því það kemur alltaf nýr dagur og nýtt vor.

Aagot Vigdís

Óskarsdóttir.

Ég veit eiginlega ekki hvenær við Anna ákváðum að verða vinir. Við höfðum lengi þekkst og þar á undan vissi ég auðvitað um hana. Hún lagði ósjaldan leið sína heim til Ísafjarðar til tónleikahalds og í minningunni fór þar glæsileg kona, svo fáguð, svo glöð, svo klár. Á sumarsólstöðum 2006 komu Anna Guðný og Diddú vestur og héldu masterclass og tónleika á tónlistarhátíðinni Við Djúpið. Þá má segja að við Anna höfum fyrst unnið saman. Þar byrjaði hún að kalla mig frænda en við erum nokkuð skyld úr Þistilfirði í Norður-Þingeyjarsýslu.

Mér þykir alla tíð síðan sérstaklega vænt um kveðjuna „frændi“, er Anna Guðný notaði þegar við hittumst, sem varð æ oftar eftir því sem árin liðu. Anna var gestur Við Djúpið á ný 2008 og lék þá valin tillit til Jesúbarnsins í fyrsta sinn, ógleymanlegir tónleikar. Rúmu ári síðar hófum við að vinna saman hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þar var Anna Guðný sannarlega haukur í horni fyrir mig, rennblautan á bak við eyrun. Til hennar gat ég leitað til að fá innsýn í sjónarmið hljóðfæraleikaranna og var hún óspör á ráðin handa frænda.

Ég þykist líka vita að nærvera Önnu í hljómsveitinni hafi haft mikil áhrif á starfsumhverfið innan sviðs sem utan. Jafnaðargeð, fagmennska, góðvild og gæska hennar smitaði út frá sér svo um munaði.

Þær fjölmörgu lýsingar samferðafólks er lýsa tónlistarkonunni og píanóleikaranum Önnu Guðnýju gætu allt eins átt við um frænkuna og vinkonuna. Tónleikarýnirinn hefði getað skrifað silkimjúkt, tígulegt fas, engin læti en alltaf ástæða og inneign. Sá sem sagði í útvarpið að hún styddi við nemendurna skilyrðislaust hefði allt eins getað átt við vinina, vinnufélagana, fjölskylduna. Sjálf sagðist hún eiga erfitt með að neita spennandi verkefnum þótt það þýddi enn eina vinnuhelgina. Þar hefði Anna líka getað átt við bón frændans um stund yfir glasi, „mér þykir vænt um fólk“, sagði hún.

Þegar við Anna Guðný hættum að vinna á sama vinnustað fundum við að okkur langaði að halda áfram að hittast og sköpuðum til þess afar huggulegan og „formlegan“ vettvang. Fundir okkar voru mikið tilhlökkunarefni því huggulegri félagsskap er erfitt að hugsa sér. Anna Guðný sýndi verkefnum frænda, högum og skoðunum mikinn áhuga og gat af innsæi og næmi fyrir málefnum líðandi stundar bætt sjónarhorni sínu við. Sömuleiðis voru frásagnir Önnu Guðnýjar af störfum hennar og umhyggju fyrir vinum, góðum mat og drykk, föstudagssaltfiski Sigga, fjölskyldu og ferðalögum nærandi umræðuefni.

Ég á eftir að sakna Önnu Guðnýjar og vinafunda, smáskilaboða þegar við hvort í sínum sófanum horfðum á línulega dagskrá og glottum rafrænt hvort til annars, stundanna yfir freyðandi víni eða við kaffivélina í Hörpu. Sérstaklega minnist ég dýrðardaganna við Ísafjarðardjúp í sumar sem leið. Nú er gott til þess að hugsa að fágaður píanóleikur hennar er til á ótal upptökum og brosið hennar og hlýjan lifir í tónlistinni. Minnumst orða Önnu Guðnýjar frá í mars: „Eins og veröldin snýst þessa dagana skulum við muna að tónlistin getur bæði sefað og sameinað.“

Greipur frændi.

Elskuleg frænka okkar, Anna Guðný, er látin. Hún hefur tilheyrt lífi okkar frá upphafi enda við náskyld í báðar ættir sem þýðir eiginlega að hún var næsti bær við að vera systir okkar. Yfir frænku hefur alltaf svifið andi listfengi, hógværðar, gjafmildi, elskulegheita og áhuga á högum annarra. Tónlistarhæfileikar hennar sem hún ræktaði svo fallega og af mikilli elju hafa alla tíð vakið aðdáun og svo ótal oft hefur verið tilefni til að samgleðjast henni með þær verðskulduðu viðurkenningar og fallegu umsagnir sem hún hefur hlotið í gegnum starfsferilinn og vera hreykinn af því að vera skyldur henni.

Við höfum átt því láni að fagna að eiga samleið með Önnu ýmist á vettvangi tónlistarinnar eða í samveru í frænkuklúbbnum okkar góða, innanlands og utanlands. Þær minningar ylja okkur núna þegar við kveðjum hana svo allt of fljótt. Það var mikið áfall fyrir alla þegar Anna greindist skyndilega með sinn sjúkdóm fyrir aðeins 20 mánuðum en það hefur líka verið lærdómsríkt að fá að standa nærri henni þann tíma og fylgjast með því hvernig manneskjan getur tekist á við örlög sín. Eins og í lífinu gerði hún það af einstakri yfirvegun og hugrekki, full vonar um að meðferð bæri árangur, opin fyrir að nota bæði hefðbundna meðferð og viðbótarmeðferð ýmiss konar en jafnframt raunsæ varðandi horfur sínar. Hún greip hvert tækifæri sem gafst til að skapa sér og öðrum gleðistundir á þessum tíma eins og heilsan leyfði, dyggilega studd af Sigga sínum, Þórdísi systur, börnum og öðrum ástvinum.

Við þökkum fyrir samfylgdina í lífinu og allar góðu minningarnar um einstaka manneskju sem alltaf munu lifa. Innilegar samúðarkveðjur sendum við ykkur, kæra fjölskylda.

Hvíl í friði elsku frænka.

Anna Guðný, Brynja og Brjánn Ingabörn og fjölskyldur.

„Jú, ég slæ til, viking“ sagði Anna við mig í júní 2016. Það voru aðeins tvær vikur í tónleika með Music for a Summer Evening eftir George Crumb, óhemju krefjandi verki sem ég hugðist leika á sumartónlistarhátíðinni minni en réð ekki við að læra í tæka tíð. Ég hafði færst of mikið í fang og það var bara eitt til ráða í stöðunni: að hringja í Önnu. Og hvort hún sló til – útkoman var einn af hápunktunum í sögu hátíðarinnar. Anna gat sigrast á hvaða verkefni sem var í tónlistinni. Það þurfti bara að stinga upp á því við hana og þá kom þetta blik í augun: áskorun tekið! Hún var töffari með stáltaugar en hún var líka með hjarta úr gulli. Oft var talað um hana sem afburða meðleikara, sem var auðvitað rétt, en að mínum dómi var hún einfaldlega einhver albesti hljóðfæraleikari sem við höfum átt, í einleik jafnt sem kammermúsík. Það sannaði hún oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. En hún var jafn hógvær og hún var svöl og skemmtileg, virtist varla vita af tónlistargáfum sínum og heimsklassa píanisma.

Mínar fyrstu minningar um Önnu eru úr Tónlistarskólanum í Reykjavík þar sem hún var píanókennari og meðleikari um árabil. Ég fylgdist með henni úr fjarlægð, hún spilaði betur en aðrir á píanó upp að því marki að 12 ára ég var örlítið smeykur við hana. Hvernig var hægt að slá aldrei feilnótu? Það skipti engu máli hvort hún var að leika með nemendum í 6. stigi eða á tónleikum með Diddú: trúnaður hennar við tónlistina var einstakur og órofinn.

Í seinni tíð varð Anna mér dýrmætur bandamaður. Við spiluðum saman á tvo flygla og á milli okkar myndaðist sterkur strengur. Mitt í veikindunum bauð hún mér heim og hlustaði á mig spila í gegnum nýja efnisskrá á Bösann sinn, opnaði svo kampavín og bauð upp á bragðbestu köku Íslands. Hjá þeim Sigga var hversdagurinn víðsfjarri og veröldin svo opin og skemmtileg.

Fráfall Önnu Guðnýjar er mikill og ótímabær missir fyrir íslenskt tónlistarlíf en mestur er þó missir fjölskyldu og ástvina. Þeim votta ég mína dýpstu samúð.

Víkingur Heiðar Ólafsson.

Við kveðjum í dag yndislega samstarfskonu og framúrskarandi listamann. Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari lék með Sinfóníuhljómsveit Íslands frá árinu 1985 og var fastráðin við hljómsveitina frá 2005. Hún var einstakur starfsmaður sem tók öllum verkefnum fagnandi, fóstraði þau og vann af natni. Anna Guðný sinnti ekki aðeins píanóleik í hljómsveitinni, hún var einnig meðleikari í prufuspilum sem skipta hundruðum og studdi þar við hljóðfæraleikara sem sóttust eftir starfi hjá hljómsveitinni. Anna Guðný lék einnig á fjölda kammertónleika á vegum Sinfóníunnar og kom margoft fram sem einleikari með hljómsveitinni, fyrst árið 1988 þegar hún lék píanókonsert Mozarts nr. 24. Hún hafði einstakan tón, framúrskarandi tækni og hver einasta nóta hafði sinn sérstaka blæ.

Við erum Önnu Guðnýju einnig afar þakklát fyrir starf hennar í þágu Vinafélags hljómsveitarinnar sem hún ásamt Sigurði eiginmanni sínum sinnti árum saman.

Alúð, traust og fagmennska einkenndu Önnu Guðnýju. Hún var styðjandi og hvetjandi. Við erum þakklát fyrir dýrmætt samstarf, ómælt framlag til íslensks tónlistarlífs og fyrir hlýjuna, jákvæðnina og seigluna.

Við vottum Sigurði Ingva, fjölskyldu og vinum okkar dýpstu samúð.

Hvíl í friði, elsku Anna Guðný.

Fyrir hönd Sinfóníuhljómsveitar Íslands,

Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri.

Mig langar að minnast minnar kæru vinkonu og samstarfskonu, elsku Önnu Guðnýjar.

Það er svo sárt að sjá á bak henni, svo falleg og björt sem hún var. Við lékum saman í mörgum tónlistarhópum í gegnum árin og með okkur þróaðist innileg vinátta sem einkenndist af gleði, umhyggjusemi og trausti og varð innilegri eftir því sem árin liðu. Hún bauð af sér einstaklega góðan þokka og átti mjög auðvelt með að vinna með mismunandi tónlistarmönnum. Hún hafði sínar skoðanir og gat einnig verið viðkvæm en umfram allt var það blíða hennar sem gerði hana svo sjarmerandi. Aldrei heyrði ég hana hækka róminn við aðra, hún var einstaklega hvetjandi og hallmælti aldrei öðrum píanistum og var örlát á hrós. Hún var dugnaðarforkur og þótti alltaf gott að setjast að flyglinum á morgnana, hún sagði mér það oft. Hún brann fyrir tónlistinni, fyrir Sinfó og vildi sjá veg allra sem mestan og bestan. Ógleymanlegar eru tónlistar- og samverustundir okkar með Fífilbrekkuhópnum sem Siggi stofnaði og stuð- og skemmtibandinu Salon Íslandus. Það var óskaplega gaman að fá hana til að hlæja og hún var mikil stemningsmanneskja og kenndi okkur vinkonunum að njóta stundarinnar, helst með vel kældu freyði- eða kampavíni. Við nutum þess að vera í dömuklúbbi með henni en hún var aðaldaman. Með harm í hjarta kveð ég hana en þakka um leið fyrir minningarnar. Ég votta elsku Sigga, sem bar hana á höndum sér, og fjölskyldu hennar og börnum mína innilegustu samúð og bið Guð og englana að styrkja þau og vernda.

Sigrún Eðvaldsdóttir.

Það er með sárum söknuði og mikilli virðingu sem ég kveð mína elskulegu nöfnu Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur. Þýðing hennar í íslensku tónlistarlífi undanfarna áratugi á sér fáar hliðstæður. Hún var píanóleikarinn sem gat allt. Hún var frumkvöðull á sínu sviði og gerði þeim ljóst, sem ekki vissu fyrir, að meðleikur á píanó er ákaflega krefjandi og gefandi starf. Orðið meðleikur er nú orðið fast í sessi og komið í stað „undirleikur“, sem þótti ekki sérlega áhugavert starf á árum áður. Jafnvel má sjá á ekki svo ýkja gömlum efnisskrám að á eftir nafni píanóleikarans stóð orðið „aðstoðar“. Það er ekki lítil aðstoð sem felst í því að leika t.d. Kreutzer-sónötu Beethovens með fiðluleikara.

Anna Guðný var meðal þeirra allra fyrstu sem sérhæfðu sig í meðleik í námi sínu erlendis. Hún upphóf meðleikinn í æðra veldi og var stórkostleg fyrirmynd annarra píanóleikara. Þótt á engan sé hallað, þá var hún fremst meðal jafninga allan sinn feril. Hún sýndi og sannaði að til þess að skara fram úr í þessu starfi þurfti líka að vera frábær einleikari. Hún var það. Hún var jafnvíg á meðleik með hvaða hljóðfæri sem var, söng og ekki síst kammertónlist. Auk þess var hún fastráðinn píanóleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands um árabil eða þar til veikindin bundu enda á ferilinn. Það starf eitt og sér krefst mikillar sérhæfingar.

Söknuðurinn er sár, skarðið er stórt, en þakklætið er mikið fyrir að hafa átt slíka samferðakonu í áratugi og fengið að njóta þess að vinna með henni við ótal tækifæri.

Ég sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur til Sigurðar Ingva, barna og barnabarna og annarra fjölskyldumeðlima og vina.

Guðný Guðmundsdóttir.

Anna Guðný, samstarfssystir til rúmlega 40 ára, akkeri mitt og klettur í tónlistinni, er horfin í ljósið til að kanna guðdómlegan fuglasöng í paradís. Leiðir okkar lágu fyrst saman innan veggja Guildhall School of Music and Drama. Í örvandi og hvetjandi andrúmsloftinu þar sugum við í okkur áhrifin. Þar upphófst líka djúp vinátta og slógu hjörtu okkar í takt músíklega. Við æfðum og ófum marglita strengi, féllum kylliflatar fyrir litaskölum og andagiftinni í tónmáli Messiaens. Margt annað var prófað daginn út og inn. Þetta voru ár blóðs, svita og tára. Engin miskunn, við vissum að æfingin meitlar meistarann. Af næmi og fagmennsku kafaði Anna djúpt í leit að fullkomnun þegar hún réðst til atlögu við áskorun lífs síns, verkið „Tuttugu tillit til Jesúbarnsins“. Hvernig höndum hún fór um það verkefni er lýsandi fyrir vinnusemi og skilning Önnu á listinni. Hæfileikar hennar voru ótvíræðir og spilamennskan óaðfinnanleg. Eins ólíkar og við vorum bar aldrei skugga á okkar gifturíka samband. Alltaf sat hún hnakkakerrt við hljóðfærið eins og upplýst stuðlaberg. Ekkert hreyfðist nema liprir fingurnir sem hlupu upp og niður hljómborðið, á meðan ég galopnaði hjartað og jós úr skálum sönggleðinnar. Stundum gat augnablikið orðið „háspenna/lífshætta“, sérlega þar sem söngkonan er hálfheyrnarlaus! Þannig mótuðum við og lærðum hvor á aðra og tókum oft flugið upp í hæstu hæðir. Eitt sinn áttum við að mæta í flug til Ísafjarðar, Anna mætti á undan út á völl. Ég hafði sofið yfir mig, endasentist í náttfötunum á flugvöllinn, en sá vélina takast á loft með Önnu innanborðs. Hún varð veðurteppt í fimm daga, án mín! Þar kenndi hún mér að stundvísi borgar sig. Allt sem við höfum upplifað saman í tónlistinni og lífinu er ég óendanlega þakklát fyrir. Alla tónleikana og uppákomurnar um víða veröld, í sölum heimsins eða þegar við fórum í flesta grunnskóla landsins með tónlist fyrir alla, þá snarbreyttust krakkarnir í litlar Næturdrottningar í morgunsárið, hvílík var upplifun þeirra. Eitt sinn í byrjun ferilsins héldum við með áætlunarrútu í söngferð norður í land, þótti okkur frekar dræm mæting, en komumst að því að þetta var í miðjum hestaréttum! Okkur leið svolítið eins og við værum „Tvær úr Tungunum“! Samstarf okkar spannar allt litróf tónbókmenntanna. Hvílíkt ferðalag; gleði og gjöf lífsins að hafa haft Önnu samferða við að koma skilaboðum tónlistargyðjunnar til umheimsins.

Ástarþakkir himinhæða elsku Siggi og fjölskyldan öll fyrir Önnu.

Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú).

Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari er látin. Stórt skarð er nú höggvið í fremstu raðir íslenskra tónlistarmanna. Anna Guðný var píanóleikari í hæsta gæðaflokki og kom mjög víða við í íslensku tónlistarlífi, bæði sem einleikari, meðleikari og píanóleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands um árabil. Ég var svo heppinn að njóta hjálpar hennar við kennslustörf mín, bæði við Tónlistarskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands. Þeir nemendur sem báru gæfu til að vinna með henni munu aldrei gleyma þeirri alúð, samviskusemi og innblæstri sem hún lagði í hvern einasta nemanda. Svona var allur hennar ferill. Hann einkenndist af ótrúlegri kunnáttu, natni og góðvild. Hún hafði stórkostlegt vald á hljóðfærinu, syngjandi tón, skýrleika og fallega mótun á hendingum. En öll þessi gæði flytjandans, Önnu Guðnýjar, komu ekki fyrirhafnarlaust. Að baki lá gífurleg vinna og eljusemi. Þegar ég lít yfir feril hennar síðustu fjörutíu ár er erfitt fyrir mig að skilja afköst hennar. Það er ekki ofmælt að segja að hún hafi afkastað tveggja manna framlagi í þágu tónlistar og menningar á Íslandi. Í erfiðum veikindum hennar var Sigurður Ingvi sá klettur sem aldrei haggast.

Það er með sorg og söknuði í hjarta að ég kveð þessa einstöku konu, sem gaf svo mikið.

Sigurði Ingva og fjölskyldum þeirra beggja sendi ég mína innilegustu samúðarkveðju.

Gunnar Kvaran.

Það var eins og birti til þegar Anna Guðný settist við hljóðfærið. Útgeislun, fágun og virðing fyrir viðfangsefninu gerðu stundina eftirminnilega.

Það var mikið gæfuspor fyrir Karlakór Reykjavíkur þegar hún gerðist meðleikari kórsins og tók við af sæmdarkonunni Guðrúnu A. Kristinsdóttur. Samstarf Önnu Guðnýjar og Friðriks S. Kristinssonar, stjórnanda kórsins, var einstaklega farsælt í þrjá áratugi. Eldri félagar í Karlakór Reykjavíkur nutu einnig samstarfs við þau Friðrik og Önnu Guðnýju og ógleymanleg varð afmælisferð kórsins til Vestfjarða, þar sem Sigurður Ingvi, eiginmaður hennar, var einnig með.

Ég var svo lánsamur að kynnast foreldrum Önnu Guðnýjar, Aagot Árnadóttur og Guðmundi Halldórssyni, mætum heiðurshjónum og mannkostir þeirra höfðu sannarlega skilað sér til dótturinnar. Harmur þeirra á háum aldri er mikill.

Kæri Sigurður Ingvi Snorrason. Enn man ég úr Karfavogi 21, þegar þið bræður og foreldrar tókuð lagið á aðfangadagskvöldi svo hljómaði milli hæða. Svona geymast minningar.

Innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra.

F.h. eldri félaga í Karlakór Reykjavíkur,

Reynir Ingibjartsson.

Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur kynntist ég í Tónlistarskólanum í Reykjavík á áttunda áratugnum þar sem hún, ung menntaskólastúlka, var í píanónámi, en ég nýkomin til starfa sem fiðlukennari. Strax þá birtust þeir eiginleikar sem síðar urðu aðalsmerki Önnu Guðnýjar bæði sem píanóleikara og samstarfskonu, einlæg gleði og áhugi á verkefnunum, næmi, vandvirkni, nákvæmni og úthald.

Eftir framhaldsnám við Guildhall School of Music í London sneri Anna Guðný heim og varð mjög fljótt virkur píanóleikari og kennari. Sem formaður Kammersveitar Reykjavíkur hafði ég samband við Önnu sumarið 1983 og bauð henni að spila með okkur Þorkeli Jóelssyni hornleikara Tríó í Es-dúr op. 40 fyrir horn, fiðlu og píanó eftir Johannes Brahms. Þar hófst áratuga langt og gefandi samstarf okkar Önnu Guðnýjar. Óteljandi eru tónleikarnir þar sem við tókum þátt saman á vegum Kammersveitarinnar, í Reykjavík, víða um land og víða um heim. Fyrir okkur báðar var samstarfið við Paul Zukofsky sérstaklega gefandi, en hann hvatti alltaf alla til dáða. Anna Guðný tók þátt í frumflutningi Kammersveitarinnar á Íslandi á verki Oliviers Messiaens Frá gljúfrunum til stjarnanna árið 1989 undir stjórn Zukofskys. Þar var grunnurinn lagður að áhuga Önnu Guðnýjar á verkum Messiaens. Hún átti síðar eftir að tileinka sér þau og flytja á eftirminnilegan og glæsilegan hátt. Af óteljandi tónleikaferðum okkar saman um heiminn er ferðin til Kína haustið 1999 ógleymanleg fyrir margra hluta sakir, m.a. þegar Anna Guðný fékk að æfa sig í hljóðfærabúð í Nanking þar sem við höfðum ekki aðgang að sal fyrr en rétt fyrir tónleikana.

Ég kveð Önnu Guðnýju með miklu þakklæti fyrir langt og farsælt samstarf og vináttu og bið henni og fjölskyldu hennar Guðs blessunar.

Rut Ingólfsdóttir.

Í dag kveðjum við í Karlakór Reykjavíkur með miklum söknuði og allt of snemma okkar yndislegu Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur, píanóleikara kórsins til 30 ára. Fyrstu tónleikar Önnu með kórnum voru árið 1984 um vorið, en píanóleikari kórsins í 20 ár, Guðrún A. Kristinsdóttir, hafði handleggsbrotnað og var úr leik. Þetta var rétt fyrir tónleikana og mjög stuttur fyrirvari. Páll Pampichler Pálsson söngstjóri kórsins fékk þá ungan og efnilegan píanóleikara, Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur, til að hlaupa í skarðið. Þá var Anna aðeins 25 ára. Sex árum síðar árið 1990 urðum við í kórnum þeirrar gæfu aðnjótandi að fá Önnu til liðs við okkur aftur og upp frá því var hún píanóleikari á árlegum vortónleikum kórsins í hartnær 30 ár og í fjölmörgum kórferðalögum bæði hér heima og erlendis. Anna var sæmd heiðursmerki Karlakórs Reykjavíkur árið 2012. Það sem einkenndi spilamennsku Önnu og var svo hrífandi var þessi mikla reisn þegar hún settist við flygilinn og töfraði fram tónana af þvílíku listfengi að maður gat auðveldlega gleymt stund og stað. Og hver man ekki eftir meistaraverkinu „Tuttugu tillit til Jesúbarnsins“ eftir franska tónskáldið Olivier Messiaen sem Anna flutti í Langholtskirkju í tilefni af fimmtugsafmæli sínu árið 2008. Það var stór stund og ógleymanleg.

Nú er söngurinn hljóður og horfinn,

aðeins hljómar frá bjöllunnar klið.

Allt er hljótt yfir langferða leiðum

þess er leitar að óminni og frið.

(Freysteinn Gunnarsson)

Nú er komið að leiðarlokum og við félagarnir í kórnum þökkum Önnu Guðnýju fyrir samstarfið og fyrir að vera ein af okkur í leik og starfi. Hennar verður ávallt minnst með mikilli virðingu.

Elsku Siggi, börn og fjölskylda, megi góður guð styrkja ykkur öll.

Fyrir hönd Karlakórs Reykjavíkur,

Friðrik S. Kristinsson, söngstjóri.

Fallin er frá í blóma lífsins listakonan góða Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari.

Við fráfall hennar er stórt skarð höggvið í forystusveit íslenskra tónlistarmanna. Hún kom víða fram, gerði alla hluti vel, var góður listamaður sem vandaði til verka í hvívetna í öllu því sem fyrir hana var lagt. Hennar er sárt saknað.

Eiginmanni hennar, Sigurði Ingva Snorrasyni, ættingjum hennar og vandamönnum öllum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðju.

Ágústa og Jónas Ingimundarson.