[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Andrés Magnússon andres@mbl.is Þegar horft er til gjaldskrártekna Reykjavíkurborgar á undanförnum árum kemur í ljós að þær hafa hækkað örar en vísitala neysluverðs, algengasti mælikvarði verðbólgu.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Þegar horft er til gjaldskrártekna Reykjavíkurborgar á undanförnum árum kemur í ljós að þær hafa hækkað örar en vísitala neysluverðs, algengasti mælikvarði verðbólgu.

Í fyrri viku var greint frá því að borgarstjórn hefði samþykkt breytingar á gjaldskrám Reykjavíkurborgar, sem sagt var í samræmi verðlagsbreytingar umfram forsendur fjárhagsáætlunar borgarinnar og áhrif þeirra á rekstur. Verðbólga hefur, sem kunnugt er, hækkað mikið undanfarna mánuði. Hækkunin á gjaldskrám nam 4,5% og tók gildi 1. september.

Reykjavíkurborg tekur gjald fyrir margs konar þjónustu, allt frá bókasafnsgjöldum til leikskólagjalda og vega gjöldin þungt í rekstri hennar. Í tilkynningu sagði að Reykjavíkurborg hefði leitast við að hækka ekki þjónustugjaldskrár umfram verðlagshækkanir og þannig mætt kostnaðarhækkunum með því að draga að hluta til úr kostnaðarhlutdeild þeirra sem kaupa þjónustuna.

Þegar litið er til hlutfallslegrar hækkunar gjaldskrártekna miðað við verðbólgu sést að þar hefur borgin jafnan verið feti framar. Það er ekki fyrr en með óvenjumikilli verðbólgu í ár, sem borgin dróst aftur úr, en því var hressilega mætt með fyrrgreindri hækkun. Til stendur að „leiðrétta“ gjaldskrár Reykjavíkurborgar tvisvar á ári framvegis í stað árlegrar hækkunar.

Nokkur umræða hefur að undanförnu verið um áhrif verðbólgu á opinber gjöld og athyglin einkum beinst að verðlagsuppfærslu á krónutölugjöldum- og sköttum ríkisins, líkt og tiltekið verður í bandormi með fjárlögum. Reykjavíkurborg er samkvæmt þessu komin fram úr ríkinu að þessu leyti, en fjárhagur hennar hefur versnað mjög upp á síðkastið.