[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Guðni Einarsson gudni@mbl.is Hagstofa Íslands áætlar að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna hafi dregist saman um tæplega 1,5% á öðrum ársfjórðungi 2022 borið saman við sama tímabil árið áður. Kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna jókst um 5,4% á árinu 2021 samanborið við árið 2020.

Baksvið

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Hagstofa Íslands áætlar að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna hafi dregist saman um tæplega 1,5% á öðrum ársfjórðungi 2022 borið saman við sama tímabil árið áður. Kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna jókst um 5,4% á árinu 2021 samanborið við árið 2020.

Minni kaupmáttur ráðstöfunartekna á öðrum ársfjórðungi þessa árs skýrist af aukinni verðbólgu, að sögn Hagstofunnar.

„Áætlað er að ráðstöfunartekjur heimilageirans hafi aukist um 9,1% á öðrum ársfjórðungi 2022, borið saman við sama ársfjórðung í fyrra. Áætlað er að ráðstöfunartekjur á mann hafi numið rúmlega 1,25 milljónum króna á ársfjórðungnum og hafi aukist um 6,3% frá sama tímabili í fyrra. Að teknu tilliti til verðlagsþróunar dróst kaupmáttur ráðstöfunartekna heimila hins vegar saman um tæplega 1,5% á tímabilinu en vísitala neysluverðs hækkaði um 7,9% á sama tímabili,“ segir í frétt Hagstofunnar.

Launatekjur jukust um 16,8%

Þar kemur einnig fram að heildartekjur heimilanna hafi aukist um tæplega 9,5% á öðrum ársfjórðungi 2022 samanborið við sama ársfjórðung 2021. „Sá liður sem vegur hvað þyngst í auknum heildartekjum eru launatekjur en þær jukust um 16,8%,“ segir Hagstofan.

Hún áætlar að eignatekjur hafi aukist um 17,3% frá sama ársfjórðungi í fyrra. Það skýrist að hluta af auknum innlánum. Áætlað er að vaxtatekjur hafi aukist um 45% á tímabilinu. Lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur drógust aftur á móti saman um 2,9%. Þær jukust töluvert á sama tímabili 2021 vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins, aukins atvinnuleysis og aðgerða sem stjórnvöld beittu til að draga úr efnahagslegum áhrifum hans.

Þá jukust heildargjöld heimilanna um tæplega 10% á öðrum ársfjórðungi 2022 samanborið við sama ársfjórðung 2021. „Skattgreiðslur jukust um 1,7% og er áætlað að tryggingagjöld hafi aukist um 16,4% á tímabilinu. Eignagjöld drógust saman um 11,9% á öðrum ársfjórðungi 2022 samanborið við sama ársfjórðung 2021 en vaxtagjöld um 12,3% sem einkum skýrist af færri útlánum lánastofnana til heimila vegna fasteignakaupa.“

Kaupmáttur heimila jókst '21

„Hagstofan birti bráðabirgðaniðurstöður vegna ársins 2021 í mars á þessu ári og birtir nú endurskoðaðar niðurstöður. Samkvæmt þeim jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilageirans um 5,4% á árinu 2021. Ráðstöfunartekjur á mann jukust um 10,1% og ráðstöfunartekjur heimilageirans í heild um 11,9%. Heildartekjur heimilageirans jukust um 9,4% en heildargjöld jukust um 6,3% á milli áranna 2020 og 2021,“ segir í frétt Hagstofu Íslands.

Launatekjur heimilanna jukust um 9,4% árið 2021 frá fyrra ári en skattar á laun jukust hins vegar um 4,4% á sama tímabili. Lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur jukust um 6,5% á milli áranna 2020 og 2021. Það var m.a. vegna umtalsverðrar aukningar í greiðslu almennra atvinnuleysisbóta, hlutaatvinnuleysisbóta, sérstaks barnabótaauka og tímabundinnar heimildar til að taka út séreignarlífeyrissparnað.