Arnbjörg Sigurðardóttir fæddist í Hafnarfirði 25. nóvember 1952. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 10. september 2022 eftir stutt veikindi.

Arnbjörg var dóttir Sigurðar Lárusar Árnasonar, f. 23.10. 1921, d. 5.3. 1969 og Jólínar Ingvarsdóttur, f. 1.11. 1924, d. 10.12. 2004. Bræður Arnbjargar voru Árni Vilberg, f. 8.10. 1945, d. 13.1. 2019, og Ingvar Jóhann, f. 23.12. 1949, d. 2.4. 1963.

Eftirlifandi eiginmaður Arnbjargar er Ástgeir Þorsteinsson, f. 6.9. 1950.

Arnbjörg og Ástgeir eignuðust þrjú börn: 1) Sigurveig, f. 25.1. 1976, búsett í Kaupmannahöfn. Eiginmaður hennar er Erlingur Örn Bartels Jónsson og synir þeirra eru Karl Matthías Bartels, f. 2013 og Jóhann Ágúst Bartels, f. 2018. 2) Lína Dögg, f. 20.5. 1980, búsett í Reykjavík. Eiginmaður hennar er Barry Lennon og synir þeirra eru Thomas Lennon, f. 2013 og Nói Lennon, f. 2018. 3) Sigurður, f. 30.3. 1982, búsettur á Selfossi. Eiginkona hans er Harpa Kristín Hlöðversdóttir og börn þeirra eru Arnbjörg Ýr, f. 2007, Ingvar Hrafn, f. 2010 og Álfheiður Edda, f. 2014.

Arnbjörg ólst upp á Hólabraut í Hafnarfirði og gekk í Lækjarskóla og síðar Flensborg. Að skólagöngu lokinni bjó hún um tíma í París og á Mallorca á Spáni. Fljótlega eftir heimkomu kynntist hún eiginmanni sínum, Ástgeiri Þorsteinssyni, og gengu þau í hjónaband á tvítugsafmælisdegi Arnbjargar í nóvember 1972. Fyrstu hjúskaparárin bjuggu þau á Öldugötunni í Reykjavík og árið 1977 fluttu þau á Selfoss, þar sem þau bjuggu til ársins 1989. Þaðan lá leiðin í Bakkahverfið í Breiðholtinu og í byrjun árs 1996 fluttu þau að Suðurgötu 96 í Hafnarfirði þar sem þau hafa búið alla tíð síðan.

Arnbjörg starfaði við hin ýmsu verslunar- og þjónustustörf, meðal annars á Hótel Sögu og Tösku- og hanskabúðinni. Hún rak verslunina Skógluggann í Hafnarfirði um tíma. Fyrir u.þ.b. 20 árum hóf hún störf í Sundlaug Suðurbæjar í Hafnarfirði og síðustu árin þar til hún veiktist starfaði hún í Rokku í Fjarðarkaupum.

Líkt og móðir hennar var Arnbjörg var mikil hannyrðakona. Arnbjörg synti flesta daga og fór í langa göngutúra með hundinn Garúnu, sem þau hjónin tóku að sér síðasta haust. Arnbjörg var mikill tónlistarunnandi og síðustu ár fór hún reglulega á tónleika. Undanfarin ár eyddu þau hjónin drjúgum hluta sumarfrísins keyrandi um landið með hjólhýsið sitt. Útför Arnbjargar fer fram í dag, 22. september 2022, kl. 13 frá Hafnarfjarðarkirkju.

Elsku hjartans mamma mín. Ég á svo erfitt með að skilja það að nú sitji ég hér og skrifi um þig minningargrein.

Veikindi þín komu okkur öllum í opna skjöldu. Mér finnst samt gott að hugsa til þess að þú hafir fengið að kveðja fljótlega eftir að heilsan var algjörlega farin enda var það ekki þinn stíll að liggja fyrir og vera upp á aðra komin.

Þú varst kletturinn minn en líka besta vinkona mín. Við hringdum hvor í aðra á hverjum degi og stundum oft á dag. Símtölin okkar voru auðvitað ekki um neitt oftast nær en það var bara svo gott að heyrast og hlæja aðeins.

Þó að ég væri orðin fullorðin og móðir sjálf þá hættir þú aldrei að vera mamma mín. Þegar ég hafði til dæmis fengið ítrekaðar ælupestir endaði það þannig að þú hreinlega mættir heim til mín og heimtaðir að ég færi á bráðamóttökuna. Mér fannst það algjörlega út í hött enda var ég bara með „ælupest“! Þú hélst nú ekki og að þetta þyrfti að skoða nánar. Þú gafst þig ekki og fórst með mig á bráðamóttökuna þar sem í ljós kom að gallblaðran mín var handónýt og sýkt. Næstsíðustu nóttina sem þú lifðir sat ég yfir þér á spítalanum. Nóttin var erfið og þú fórst ítrekað í andnauð seinni hluta nætur. Þú hættir samt aldrei að vera mamma mín. Alla nóttina varstu að huga að mér. Athuga hvort mér væri kalt, hvort ég þyrfti sæng eða hvort ég hefði náð að sofna eitthvað. Á meðan þú varst að berjast við að ná andanum gafstu þér tíma til þess að huga að mér. Elsku mamma.

Þú og Barry minn áttuð líka einstaklega gott og hlýtt samband. Þú tókst honum opnum örmum frá fyrsta degi og hlúðir að honum eins og hann væri þinn eigin sonur. Þið gátuð endalaust grínast saman. Mér þótti alltaf vænt um sambandið ykkar Barrys og hann á eftir að sakna þín sárt, það veit ég.

Þú elskaðir og dýrkaðir drengina okkar Barrys. Thomas og Nói vissu fátt skemmtilegra en að koma á Suðurgötuna til ömmu og afa enda voru þeir þá í allra fyrsta sæti og dekrað við þá út í eitt. Við Barry munum halda minningu þinni á lofti með því að tala um þig og segja frá þér. Þannig munu þeir ekki gleyma elsku dýrmætu ömmu.

Elsku mamma, nú þarf ég víst að kveðja þig þó mig langi ekki til þess. Bara eitt símtal í viðbót eða einn kaffibolli með þér. Lífið með þér var bara svo skemmtilegt og ég kann ekki á lífið án þín. Þú hættir aldrei að hlæja eða grínast undir lokin sama hvað. Ég ætla að taka það með mér út í lífið því eitt er víst að hlátur er bæði nærandi og læknandi.

Sofðu rótt, elsku mamma, og vertu dugleg að halda áfram að njóta hvar sem þú ert. Við hittumst svo aftur þegar að því kemur. Það er ég viss um.

Meira á mbl.is/andlat

Þín dóttir,

Lína.

Elsku mamma.

1. janúar skrifaðir þú: „Trúi að þetta verði gott ár hjá okkur öllum elsku Pollý mín“ á Facebook-vegginn minn. Rétt u.þ.b. viku áður hafði komið í ljós að pabbi væri alvarlega veikur og orðin skrifuð með það í huga. Því miður hafðir þú ekki rétt fyrir þér, því þetta ár hefur verið langt frá því að vera gott.

Þrátt fyrir að vera komin á aldur varstu ekki tilbúin til að hætta að vinna, það var einfaldlega of gaman í vinnunni. Þegar vorið nálgaðist ákvaðstu þó að taka þér langt sumarfrí og jafnvel huga að því að hætta að vinna með haustinu. En öll þessi plön breyttust eins og hendi væri veifað aðeins tveimur dögum áður en þú áttir að fara í frí í maí og skyndilega varstu orðin rúmliggjandi og framtíðarhorfur miður góðar. Þú varst ekki tilbúin í að gefast upp og þrjóskaðist við með jákvæðnina að vopni, en það var því miður ekki nóg. Ég átti góða daga með þér í júlí og ég náði að koma til Íslands og kveðja þig áður en þú kvaddir þennan heim, fyrir það mun ég ætíð vera þakklát.

Mamma, þú varst einstök kona. Alltaf til staðar, hjálpsöm og góð. Þú reddaðir einhvern veginn öllu, hvort sem það snerist um að staga í föt eða aðstoða við heimalærdóm, alltaf varstu reiðubúin. Meira að segja þegar þú lást fárveik inni á sjúkrahúsi komstu með góð ráð þegar veikindi komu upp á heimilinu í ágúst, ráð sem skiptu sköpum hvað bata varðaði.

Það var svo margt sem við áttum eftir að upplifa saman. Þú áttir eftir að koma í margar ferðir til okkar og sjá drengina stækka og dafna. Við áttum eftir að fagna sjötugsafmælinu þínu og gullbrúðkaupinu ykkar í nóvember – myndum þó aldrei ná að gera það jafn vel og fyrir tíu árum þegar við fögnuðum sextugsafmælinu þínu og 40 ára brúðkaupsafmælinu ykkar pabba í Dublin. Við áttum eftir að ræða heimsmálin, veðrið, prjónauppskriftir og stjórnmál, listinn er langur. Um páskana völdum við saman garn í kjól, sem þú vildir prjóna á mig, og prjónaskapurinn hófst í maí. Veikindin settu stórt strik í reikninginn en þú þrjóskaðist við, því þú vildir klára kjólinn. Því miður tókst ætlunarverkið ekki og ég lofaði þér að ég muni klára kjólinn sjálf og það loforð mun ég að sjálfsögðu standa við.

Þó að heilt haf væri á milli okkar síðustu 25 árin þá var sambandið alltaf náið og þökk sé Facetime þekkja strákarnir mínir ömmu sína vel. Karl elskaði að vera hjá ömmu og afa og Jóhann var alltaf til í gott ömmuspjall. Drengirnir mínir hafa nú misst báðar ömmur sínar, en við Erlingur sjáum til þess að minningin lifir áfram í hjörtum þeirra og okkar með því að segja skemmtilegar ömmusögur.

Elsku mamma, takk fyrir ALLT!

Þín

Sigurveig (Pollý).

Ég átti satt að segja ekki von á því þegar sumarið kom að fljótlega ætti ég eftir að fá fréttir af alvarlegum veikindum. Hvað þá veikindum sem myndu marka líf okkar allra að eilífu á svo skömmum tíma.

Minningin sem ég mun halda á lofti er minning um hressa, ástríka og yndislega mömmu. Mömmu sem var umhugað um hvernig mér liði og hvernig mér vegnaði. Allt fram að síðustu dögum varstu meira upptekin af því hvernig færi um mig í stólnum sem ég svaf í uppi á spítala heldur en hvernig færi um þig.

Undanfarna daga hef ég tekið þátt í að rifja upp söguna þína áður en ég fæddist. Minningar þeirra sem þekktu þig lengur. Minningar um þig sem ungling, unga konu og eiginkonu. Eitthvað sem við ræddum aldrei enda í mínum huga varstu mamma mín og engin önnur. Jú og seinna amma barnanna minna. Þessar sögur eru yndislegar og hjálpa þær manni mikið í sorginni.

Alveg sama hvað var í gangi eða hvað var framundan, alltaf varstu með hlutverk og alltaf tókstu til hendinni. Þarf að baka? Á ég að koma með eitthvað? Get ég hjálpað?

Af þessu öllu kunni ég alltaf best við nærveruna, hafa þig í kringum okkur og strjúka á mér bakið þegar ég var barn. Fá að kúra með þér uppi í rúmi þegar pabbi var að vinna eða aðstoða í eldhúsinu. Allt kjarnaminningar úr æsku.

Þú varst amma barnanna minna og nafna dóttur minnar. Það var mér svo kært að geta gefið þér nöfnu, litla stelpu sem var þitt fyrsta barnabarn. Síðar hann Ingvar sem ber nafn bróður þíns og loks Álfheiði sem dýrkaði þig og dáði. Þú last fyrir þau, spilaðir Pílu Pínu og gladdir með endalausum ís í frystinum.

Þú vildir engin leiðindi, þú vildir að öllum liði vel enda leið þér best þegar við vorum að hlæja og grínast.

Ég smitaðist af húmornum þínum ungur og mun halda í hann svo lengi sem ég lifi.

Missirinn er mikill og skarðið stórt. Ég, Harpa og börnin okkar munum minnast þín með fallegum sögum og fylgja gildunum þínum með allri þeirri gleði og húmor sem þeim fylgdu.

Þinn einkasonur,

Sigurður.

Við erum bræðradætur ég og Adda frænka og heitum sama nafni. Ég er fædd 1950 og heiti Arnbjörg. Þú fæddist 1952 og varst að sjálfsögðu látin heita Arnbjörg Sigurðardóttir, alnafna föðurömmu okkar. Ég ólst upp á Akranesi til 11 ára aldurs en þú ólst upp í Hafnarfirði. Það var ekki fyrr en ég og fjölskylda mín fluttum í Kópavog 1961 að ég man eftir að við hittumst en það er samt líklegt að það hafi skeð fyrr. Ég og Ingvar bróðir þinn vorum hjá ömmu og afa á sumrin, ég frá 1961 til 1964 en Ingvar eitt sumar 1962. Ingvar dó af slysförum 1963 á vinnustað. Pabbi þinn, mamma þín og Árni bróðir þinn dóu á tímabilinu 1969 til 2018. Mamma sagði: Þá er þá Adda ein eftir. En þú átt mjög efnileg börn og barnabörn og góðan mann. Ég fór með mömmu í heimsókn til ykkar á Hólabraut í Hafnarfirði 1964. Kópavogsbúar fóru oftast í sundlaug Hafnarfjarðar. Ég hitti þig þar og sýndir þú mér mikla hlýju og fallegt bros eins og alltaf þegar við hittumst. Í biðröð fyrir utan Glaumbæ, líklega 1968, baðst þú mig að lána þér nafnskírteinið mitt. Ég fór þá inn og henti nafnskírteininu á eftir út um gluggann og þú komst inn með það. Elsku hjartans Adda, mér þykir sorglegt að ég muni ekki hitta þig framar. Ég votta börnum og barnabörnum Arnbjargar Sigurðardóttur innilega samúð.

Arnbjörg Andrésdóttir.

Elsku Adda, vinkona mín og frænka.

Lífið okkar hefur verið samofið nánast frá því að við fæddumst, það voru aðeins 5 vikur á milli okkar.

Það var mikil vinátta á milli foreldra okkar og var alltaf gaman að koma í heimsókn á æskuheimilið þitt á Hólabrautina, þar var gjarnan mikill gestagangur og oft glatt á hjalla. Ég man eftir mér fara með pabba á föstudagskvöldum, hann að horfa á boxið í kanasjónvarpinu og við að leika okkur. Þú fórst alltaf í sveitina á sumrin til Kiddu frænku þinnar og undir þú þér vel þar.

Það var mikil sorg þegar þú misstir Ingvar bróður þinn sem fórst af slysförum og nokkrum árum seinna sótti sorgin þig aftur þegar pabbi þinn dó. Þá varst þú aðeins 16 ára unglingur og varð í kjölfarið mikil breyting í þínu lífi. Ég missti þá af þér í nokkur ár, þú varst að ferðast, fórst til Spánar og Parísar. Síðan hittir þú hann Geira þinn og þið eignuðust hana Sigurveigu.

Þarna kynnast eiginmenn okkar og það myndast góð vinátta þeirra á milli, svo mikil að við ákveðum að flytja á Selfoss og kaupum hvor sína íbúðina. Það var gott að búa á Selfossi, þar fæðast Lína og Siggi ykkar.

Það var alltaf gott að leita til þín, elsku vinkona, alltaf tilbúin að hjálpa og þú varst svo myndarleg, það lék allt í höndunum á þér. Það voru forréttindi að eiga góða vini eins og ykkur.

Við ferðuðumst með hjólhýsin okkar um landið og dvöldum oft á lóðinni á Geysi og áttum þar góðar stundir saman. Það er sárt að kveðja þig, kæra vinkona.

Elsku Geiri, Sigurveig, Lína og Siggi, síðustu þrír mánuðir hafa verið erfiðir hjá ykkur.

Við Bragi vottum ykkur djúpa samúð og þökkum fyrir fallega samleið í gegnum lífið.

Þín verður sárt saknað. Hvíldu í friði og guð geymi þig.

Hildur og Bragi.

Hún Adda frænka er dáin. Sorgin er mikil þó sérstaklega hjá Ástgeiri og börnunum. Barnabörnin missa líka mikið því hún naut þess svo að vera með þeim og var mikil amma. Adda sýndi mikinn styrk í sjúkdómsferlinu. En eins og hún sagði við mig þá á þetta allt sinn tíma.

Við Adda vorum bræðradætur, ólumst upp í Hafnarfirði ásamt bræðrum hennar sem ein fjölskylda í húsi sem feður okkar byggðu saman. Hún var mikill fjörkálfur, ákveðin og skemmtileg stelpa. Við lékum okkur mikið saman með þeim bræðrum úti ásamt öðrum börnum á Holtinu. Inni vorum við meira í dúkkulísuleik og tjúttuðum mikið og dönsuðum svo með Línu þegar hún skellti plötu á fóninn. Í lífinu skiptast á skin og skúrir og sorgin bankaði upp á hjá okkur. Arna systir deyr 1960 og svo Ingvar bróðir hennar 1963 í slysi rétt fyrir ferminguna okkar. Þetta reyndi mikið á fjölskylduna. Við eltumst svo og þróuðumst hvor í sína áttina. Sorgin knúði aftur dyra þegar Siggi pabbi hennar féll frá 1969, þá er Árni, bróðir hennar, giftur og farinn að búa. Þær mæðgur búa saman og takast á við lífið saman. Þarna er ég líka komin með fjölskyldu og við hittumst töluvert. Hún finnur svo ástina hjá Geira og eignast þar líka góða tengdafjölskyldu. Við flytjum vestur, Sigurveig fæðist og þau flytja á Selfoss, það fjölgar. Lína Dögg og Sigurður bætast við. Það varð aftur meira samband þegar frá leið og hittumst við þá oft kringum afmæli og á Þorláksmessu, sem var afmælisdagur Ingvars. Það varð ekki langt á milli eftirlifandi systkinanna. Árni dó 2019 og svo Sólrún kona hans núna í mars. Þetta er stórt skarð í frændgarðinn en mest fyrir Geira við andlát Öddu og börnin sem missa svo mikið. Við ræddum um hver tæki á móti okkur í sumarlandinu og hvort okkar hugskeyti héldu áfram. Adda er vonandi komin á góðan stað og við höldum áfram í hennar anda.

Góður Guð veri með Geira og fjölskyldu á erfiðum stundum.

Helga frænka.

Í dag kveðjum við með miklum söknuði okkar yndislegu Öddu. Adda, þessi orkumikla og hressa kona, var með hjarta úr gulli og yndislega nærveru. Allar skemmtilegu stundirnar með Öddu og Geira, kaffiboðin, út að borða saman, fara á rúntinn, hittast í útilegum, hlátur og sprell. Allt í einu er allt svo óraunverulegt og óréttlátt, veikindin komu eins og þruma úr heiðskíru lofti, svo óvægin og skyndilega er hún farin. Elsku Adda okkar, hjartans þakkir fyrir samfylgdina, vináttuna, knúsin og allt. Hvíl í friði, elsku besta Adda.

Elsku Geiri, Guð gefi þér, börnunum og fjölskyldunni allri styrk til að takast á við sorgina og söknuðinn. Minning um góða konu lifir áfram.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir.)

Katrín og Guðmundur.

Í dag kveðjum við góða vinkonu sem lést langt um aldur fram.

Adda var góður vinur sem gott var að tala við og alltaf var stutt í glensið.

Það er stórt skarð hoggið í vinahópinn þegar hún verður ekki lengur með í ferð.

Elsku Adda, við þökkum þér fyrir allar samverustundirnar er við ferðuðumst um landið á hjólhýsunum okkar. Oft var þá tekið í spil og tókst þú þá fram „svörtu bókina“ þína og allt skráð samviskusamlega. Einnig fórum við mikið í „kubb“ og hafðir þú alveg sérstakan stíl sem þér fór svo vel.

Við kveðjum þig með söknuði og mun minningin um þig fylgja okkur.

Elsku Geiri, Sigurveig, Lína, Siggi og fjölskyldur. Við sendum ykkur öllum innilegar samúðarkveðjur.

Fyrir hönd félaganna í Litla ferðafélaginu,

Gunnlaugur Óskarsson.

Þá er elsku Adda mágkona horfin til annarra heima, þó ég trúi því vart ennþá. Geiri bróðir kynntist henni þegar ég var um 12 ára gömul og hafa því vegir okkar legið saman stærstan hluta lífsins og skrítið til þess að hugsa að hún sé farin. Þau hjón hefðu átt gullbrúðkaup í haust, hefði heilsa Öddu ekki brostið með þessum afleiðingum. En margs er að þakka og ógrynni minninga leita á hugann. Ég minnist þess tíma á unglingsárunum þegar Adda bjó heima hjá okkur á Kvisthaganum. Það var svo gaman og spennandi að kynnast henni. Mér fannst hún svo smart og skemmtileg, en einnig framandi að vissu leyti því hún hafði búið í Frakklandi og ferðast á Spáni, sem var ekki algengt á þessum árum. Ég minnist góðra stunda við eldhúsborðið á bernskuheimilinu þar sem spjallað var um allt milli himins og jarðar, hlegið og spaugað, oft langt fram á nótt. Ég fann fljótt sem unglingur að hægt væri að treysta henni. Hún sýndi mér væntumþykju og skilning og ég leitaði gjarnan til hennar með eitt og annað á þessum árum og síðar á lífsleiðinni sem ég þakka fyrir. Sterk bönd mynduðust einnig milli mömmu og Öddu og reyndist hún henni og okkur öllum sérlega vel þegar mamma veiktist af sínu banameini. Adda fylgdi börnum sínum þremur vel eftir og var stolt af þeim og barnabörnunum sem hún sinnti af alúð. Adda sýndi Sigurveigu minni einnig væntumþykju og voru ófáar ferðir farnar í Fjarðarkaup að hitta Öddu í prjónadeildinni. Ég votta elsku Geira, Sigurveigu, Línu Dögg, Sigga og fjölskyldum þeirra mína dýpstu samúð. Megi ykkur veitast styrkur til að takast á við söknuð og missi. Látum góðar minningar lifa og veita ljósi og birtu inn í framtíðina.

Arndís Þorsteinsdóttir.