[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Hlíðarenda Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Íslandsmeistarar Vals eru með bakið upp við vegg í Meistaradeild kvenna í knattspyrnu eftir tap gegn Slavia Prag frá Tékklandi í fyrri leik liðanna í 2. umferð keppninnar á Origo-vellinum á Hlíðarenda í gær.

Á Hlíðarenda

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Íslandsmeistarar Vals eru með bakið upp við vegg í Meistaradeild kvenna í knattspyrnu eftir tap gegn Slavia Prag frá Tékklandi í fyrri leik liðanna í 2. umferð keppninnar á Origo-vellinum á Hlíðarenda í gær.

Leiknum lauk með 1:0-sigri Slavia Prag þar sem Tereza Kozárová skoraði sigurmark leiksins á 26. mínútu.

Kozárová fékk þá boltann djúpt á vallarhelmingi Vals og hún var fljót að snúa sér í átt að marki. Kozárová reyndi að senda boltann fyrir markið frá vítateigshorninu og Martina Surnovská þóttist ætla að taka boltann með sér.

Surnovská hljóp hins vegar yfir boltann í miðjum vítateig Valskvenna og truflaði þannig varnarmenn og markvörð Valsliðsins með þeim afleiðingum að fyrirgjöf Kozárovu lak í netið.

Valskonur byrjuðu leikinn illa og þær virkuðu einfaldlega stressaðar og hræddar við að pressa tékkneska liðið framarlega á vellinum.

Tékkneska liðið gekk á lagið og Valskonur geta þakkað Söndru Sigurðardóttur fyrir það að staðan var ekki 3:0 eftir hálftíma leik.

Slavia Prag er lið sem vill spila með varnarlínuna sína framarlega á vellinum og mesta syndin er eflaust sú að Valsliðið, með allan sinn hraða fram á við, hafi ekki haft meira hugrekki til þess að nýta sér það á Hlíðarenda.

Það var hins vegar allt annað Valslið sem mætti til leiks í síðari hálfleik og strax á fyrstu fimmtán mínútum fyrri hálfleiks fékk íslenska liðið þrjú góð færi til þess að skora. Liðið hélt svo áfram að sækja allan síðari hálfleikinn en það vantaði aðeins upp á gæðin fram á við.

Svekkt með úrslitin

Leikurinn breyttist líka mikið með innkomu þeirra Elínar Mettu Jensen og Þórdísar Elvu Ágústsdóttur á 61. mínútu. Það má leiða að því líkur að Tékkarnir verði mun varnarsinnaðri þegar liðin mætast í síðari viðureigninni og þær Elín Metta og Þórdís Elva hljóta báðar að fá tækifæri í byrjunarliðinu í seinni leiknum í Prag.

Eins slakur og fyrri hálfleikurinn var hjá Íslandsmeisturunum þá var allt annað upp á teningnum í síðari hálfleik og frammistaða liðsins í seinni hálfleik gefur liðinu klárlega sjálfstraust fyrir seinni viðureignina sem fram fer í Prag í Tékklandi 28. september.

Valur verður að vinna seinni leikinn með að minnsta kosti tveggja marka mun til þess að tryggja sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar en vinni liðið með eins marks mun verður gripið til framlengingar og loks vítakeppni til þess að skera úr um sigurvegara.

„Ég er virkilega svekkt með þessi úrslit,“ sagði Elísa Viðarsdóttir, fyrirliði Vals í samtali við Morgunblaðið eftir tapið á Hlíðarenda í gær.

„Við vorum ekki nægilega ákveðnar í fyrri hálfleik en um leið og við byrjuðum að pressa þær þá settum við þær í vandræði. Þær áttu fullt í fangi með okkur í seinni hálfleik en því miður tókst okkur ekki að skora mark.

Við vitum hins vegar hvernig við eigum að mæta þeim núna og vonandi náum við að setja á þær nokkur mörk í seinni leiknum,“ sagði Elísa meðal annars í samtali við Morgunblaðið.

Skoraði í Íslendingaslag

Þá var Svava Rós Guðmundsdóttir á skotskónum fyrir Brann þegar liðið gerði jafntefli gegn Svíþjóðarmeisturum Rosengård í Íslendingaslag á Brann-vellinum í Bergen í Noregi.

Svava Rós, sem lék allan leikinn með Brann, kom norska liðinu yfir á 20. mínútu en Olivia Holdt jafnaði metin fyrir Rosengård á 78. mínútu og þar við sat. Guðrún Arnardóttir lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá sænska liðinu.

Selma Sól Magnúsdóttir og liðsfélagar hennar í norska liðinu Rosenborg eiga litla möguleika á því að komast áfram í riðlakeppnina eftir 0:3-tap gegn Real Madrid á Lerkendal-vellinum í Þrándheimi í Noregi.

Caroline Weir skoraði tvívegis fyrir Real Madrid í leiknum og þá var Athenea Del Castillo einnig á skotskónum fyrir spænska liðið. Selma Sól Magnúsdóttir var í byrjunarliði norska liðsins en var skipt af velli á 75. mínútu.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir sat svo allan tímann á varamannabekk París SG þegar liðið vann 2:1-sigur gegn Häcken á Jean Bouin-vellinum í París í Frakklandi.

Síðari viðureignir liðanna fara allar fram miðvikudaginn 28. september þar sem sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar er í húfi.