Reykjanesbær Vera hersins á svæðinu hafði minni áhrif en óttast var.
Reykjanesbær Vera hersins á svæðinu hafði minni áhrif en óttast var. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Veronika Steinunn Magnúsdóttir veronika@mbl.is Aukið nýgengi krabbameina á Suðurnesjum má að mestu rekja til lifnaðarhátta, fremur en mengunar frá herstöðinni sem þar var staðsett.

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

Aukið nýgengi krabbameina á Suðurnesjum má að mestu rekja til lifnaðarhátta, fremur en mengunar frá herstöðinni sem þar var staðsett.

Fjögur tilfelli nýrnakrabbameins í Reykjanesbæ tengdust þó mengun af völdum tríklóróetens (TCE) í drykkjarvatni, á 56 ára tímabili, á árunum 1955 til 2010. Staðfest samband er milli TCE-mengunar og nýrnakrabbameins.

Þetta kemur fram í rannsókn Krabbameinsfélagsins á krabbameinum í Reykjanesbæ.

Eitt af sex vatnsbólum í Keflavík og Njarðvíkum hafði TCE-styrk yfir viðmiðunarmörkum við mælingar árið 1988. Mikið magn TCE var í vökva sem notaður var til þvotta á herflugvélum varnarliðsins á flugvellinum og rann það niður í grunnvatnið.

Íbúar á Suðurnesjum hafa í áratugi óttast að efnamengun frá herstöðinni, hvar Bandaríkjaher hafði viðveru á árunum 1951 til 2006, geti hafa valdið aukinni tíðni krabbameina á svæðinu. Þeir hafa ítrekað vakið athygli á málefninu og nýlega var lögð fram þingsályktunartillaga þar sem hvatt var til að málið yrði rannsakað.

Áætlað er að allt að 198 tilfelli krabbameina, sem greindust í Reykjanesbæ á tímabilinu 2011 til 2020, tengist lifnaðarháttum. Þar af má rekja 140 tilfelli til daglegra reykinga, 11 tilfelli til áfengisneyslu og 47 tilfelli til offitu eða ofþyngdar.

Rýndi Krabbameinsfélagið í viðamikla skýrslu Verkís frá árinu 1988, þar sem skráðar eru niðurstöður mælinga á rokgjörnum leysiefnum, sem leitað var að í vatnsbólum í nágrenni herstöðvarinnar, meðal annars í Keflavík, Ytri-Njarðvík og Innri-Njarðvík.