Sumarið 2022 Hitinn hefur ekki náð sér á strik en sólin hefur skinið glatt marga daga sumarsins.
Sumarið 2022 Hitinn hefur ekki náð sér á strik en sólin hefur skinið glatt marga daga sumarsins. — Morgunblaðið/Hákon
Hitinn á þessu sumri hefur ekki enn náð að kljúfa 20 stiga múrinn í Reykjavík og ólíklegt er að það gerist úr þessu, að mati Trausta Jónssonar veðurfræðings, enda október á næsta leiti. Hæsti lofthiti sem mælst hefur í Reykjavík í sumar er 17,9 stig.

Hitinn á þessu sumri hefur ekki enn náð að kljúfa 20 stiga múrinn í Reykjavík og ólíklegt er að það gerist úr þessu, að mati Trausta Jónssonar veðurfræðings, enda október á næsta leiti.

Hæsti lofthiti sem mælst hefur í Reykjavík í sumar er 17,9 stig. Það gerðist 10. júní. Hitinn hefur aðeins einu sinni mælst hærri en það eftir 20. september. Árið 2019 fór hann í 18,5 stig þann 26. september. Óvenjuhlýtt var á landinu þá vikuna.

Trausti rifjar upp að hiti fari ekki í 20 stig á hverju ári í Reykjavík. Fræg séu samfelld 15 ár án tuttugu stiga árin 1961-1975.

Samfelldar hámarksmælingar hita hófust í Reykjavík 1920. Síðan þá hefur hámarkshiti ársins 37 sinnum verið lægri en þau 17,9 stig sem enn sitja að hámarkinu í ár, meira en þriðja hvert ár, upplýsir Trausti. Lægsta hámark ársins á þessu tímabili var 1921, aðeins 14,7 stig.

Árshámarkið var síðast undir 18 stigum árið 2001, þegar það var 17,2 stig. Sumarið (júní til ágúst) í Reykjavík reyndist það næstkaldasta á þessari öld. Kaldara var sumarið 2018.

Víða á landinu var 20 stiga múrinn rofinn í sumar. Heitasti dagur ársins var 30. ágúst, en þá mældist 25 stiga hiti á Mánárbakka á Tjörnesi. Hiti hefur farið yfir 20 stig í vikunni fyrir norðan og austan og er það ekki óvenjulegt, að sögn Trausta.

sisi@mbl.is