St. Pétursborg Auglýsingaskilti í St. Pétursborg þar sem auglýst er eftir hermönnum með slagorðinu: „Að þjóna Rússlandi er raunverulegt starf“, en mikið átak hefur verið í gangi hjá stjórnvöldum til að ná í fleiri hermenn.
St. Pétursborg Auglýsingaskilti í St. Pétursborg þar sem auglýst er eftir hermönnum með slagorðinu: „Að þjóna Rússlandi er raunverulegt starf“, en mikið átak hefur verið í gangi hjá stjórnvöldum til að ná í fleiri hermenn. — AFP/Olga Maltseva
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í þjóðarávarpi sínu í gærmorgun tilkynnti Vladimír Pútín Rússlandsforseti um herkvaðningu 300 þúsunda manna, en ávarpið kemur í kjölfar tilkynninga aðskilnaðarsinna um fyrirhugaðar kosningar um innlimun í Rússland á þriðjudag í Donetsk og Lúhansk í...

Í þjóðarávarpi sínu í gærmorgun tilkynnti Vladimír Pútín Rússlandsforseti um herkvaðningu 300 þúsunda manna, en ávarpið kemur í kjölfar tilkynninga aðskilnaðarsinna um fyrirhugaðar kosningar um innlimun í Rússland á þriðjudag í Donetsk og Lúhansk í austri og Kerson og Saporisjía í suðri.

„Þegar landhelgi lands okkar er ógnað, notum við án efa öll tiltæk ráð sem við höfum til að vernda Rússland og rússnesku þjóðina. Það er ekki innantóm ógnun,“ sagði Pútín í ávarpinu. Hann sagði Vesturlönd samstíga í því að reyna að eyðileggja Rússland og því yrðu Rússar að bregðast við.

Ávarp forsetans vakti hörð viðbrögð, bæði heimsbyggðarinnar, sem las í orð hans lítt dulda ógn um notkun kjarnorkuvopna, og ekki síður heima fyrir, þar sem mikil stríðsþreyta og álag hrjáir þjóðina. Yfir 1300 mótmælendur í fleiri en 38 rússneskum borgum voru handteknir í gær þar sem þeir kölluðu „Enga herkvaðningu“ og sýndu óánægju sína með stjórnvöld og stríðið í Úkraínu.

Gæti orðið annað Tjernóbyl

Á sama tíma og Pútín flutti þjóðarávarp sitt tíndu íbúar í borginni Karkív í Austur-Úkraínu upp glerbrot eftir loftárásir næturinnar. Hin 63 ára Svetlana hvatti rússneska nágranna sína til þess að „vakna nú“ og hlusta ekki á herkvaðningu Pútíns. Nágranni hennar, Galina, sagði við AFP-fréttaveituna að Rússar væru ekki að frelsa neinn. „Þeir vilja frelsa okkur, frá hverju? Frá heimilum okkar, frá ættingjum, frá vinum okkar? Þeir vilja frelsa okkur frá lífinu,“ sagði hún.

Í suðurhluta Úkraínu er uggur í mönnum vegna hugsanlegrar kjarnorkuógnar. Energoatom-kjarnorkustofnunin sakaði Rússa um að hafa sent loftskeyti nálægt kjarnorkuverinu í Saporisjía í gær. Síðasta mánudag voru Rússar sakaðir um loftárás rétt hjá Pivdennoukrainsk-kjarnorkuverinu í Mykolaiv-héraði. Þar sögðu íbúar við AFP-fréttaveituna í gær að þeir óttuðust stórslys ef fleiri árásir yrðu gerðar á svæðið og þá yrði heimurinn vitni að sambærilegum hryllingi og 1986 í Tsjernóbyl-slysinu.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sagði yfirlýsingar Pútíns bæði hættulegar og ábyrgðarlausar. Josef Borrell, utanríkisráðherra Evrópusambandsins, sagði að Pútín ógnaði heimsfriðinum með tali sínu. Hann skrifaði á Twitter: „Tilkynning Pútíns og leppkosningar, herkvaðningu og kjarnorkuógn er háalvarleg stigmögnun í stríðinu. Að hóta notkun kjarnorkuvopna er algjörlega óásættanlegt og raunveruleg ógn við heimsbyggðina.“

Allt flug uppselt frá Rússlandi

Allt flug frá Rússlandi seldist upp í gær eftir tilkynningu Pútíns í gærmorgun um að 300 þúsund Rússar til viðbótar yrðu kvaddir í herinn. Strax eftir tilkynninguna rauk verðið upp og á Google-leitarvélinni margfaldaðist fjöldi fyrirspurna um flug frá Rússlandi á vefsíðunni Aviasales. Verð á miðum aðra leið frá Moskvu til Ístanbúl í Tyrklandi þrefaldaðist sem og á öðrum flugleiðum. Ekki leið langur tími eftir tilkynninguna þar til uppselt var í allt flug til ríkja sem krefjast ekki vegabréfsáritunar, eins og Georgíu, Tyrklands og Armeníu.

Ávarp Pútíns í gærmorgun vakti ugg meðal margra um að hömlur yrðu lagðar á ferðalög karlmanna á herskyldualdri, sem reyndist vera rétt. Stuttu eftir ávarpið hættu rússnesk flugfélög að selja flugmiða til rússneskra karlmanna á aldrinum 18 til 65 ára nema þeir gætu lagt fram leyfi frá varnarmálaráðuneytinu til að ferðast.