JL-húsið Langt og bogadregið og eitt þekktasta kennileiti Vesturbæjarins.
JL-húsið Langt og bogadregið og eitt þekktasta kennileiti Vesturbæjarins. — Morgunblaðið/sisi
Þorpið vistfélag hefur keypt JL-húsið við Hringbraut 121 af Myndlistaskólanum í Reykjavík og Íslandsbanka. Kaupin eru gerð með fyrirvara um fjármögnun og áreiðanleikakönnun.

Þorpið vistfélag hefur keypt JL-húsið við Hringbraut 121 af Myndlistaskólanum í Reykjavík og Íslandsbanka. Kaupin eru gerð með fyrirvara um fjármögnun og áreiðanleikakönnun.

Í tilkynningu frá Þorpinu kemur fram að til standi að breyta efri hæðum hússins í íbúðir. Fyrr á þessu ári sendu þáverandi eigendur hússins fyrirspurn til borgarinnar um hvort breyta mætti því úr atvinnuhúsnæði í fjölbýlishús og setja á húsið svalir. Tók skipulagsfulltrúi Reykjavíkur jákvætt í það. Fram kemur í tilkynningu Þorpsins að nú liggi fyrir drög að uppbyggingarsamningi milli félagsins og Reykjavíkurborgar um verkefnið.

Yrki arkitektar hafa gert frumtillögur að íbúðum í húsinu þar sem það er fært nær upprunalegu útliti. Þær tillögur gera ráð fyrir íbúðum sem eru frá 50 til rúmlega 100 m² að stærð. Einnig er gert ráð fyrir að breyta bílastæðum sunnan við húsið í skjólgott grænt svæði sem mun nýtast bæði íbúum og Vesturbænum í heild. Húsið að garðinum mun stallast upp þannig að allar íbúðir hafa lítinn garð eða pall í suður. Norðan megin hússins, gegnt Eiðsgranda, er gert ráð fyrir svölum með útsýni yfir hafið.

Hringbraut 121 er fjórlyft hús með risi, byggt úr vikursteini, steinsteypu og stáli. Það var reist fyrir Vikurfélagið, síðar Jón Loftsson hf., á árunum 1945-1957. Á efri hæðum hefur verið ýmis starfsemi í gegnum árin. sisi@mbl.is