Útgerð Stefnt er að því að Guðmundur i Nesi verði knúinn metanóli.
Útgerð Stefnt er að því að Guðmundur i Nesi verði knúinn metanóli. — Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gísli Freyr Valdórsson gislifreyr@mbl.is Frystiskipið Guðmundur í Nesi, í eigu Útgerðarfélags Reykjavíkur (ÚR), undirgengst nú töluverðar breytingar í slippnum á Akureyri. Til stendur að gera tilraun til að knýja skipið með metanóli í stað díselolíu. Gangi breytingarnar eftir mun það draga úr útblæstri koltvísýrings vegna reksturs skipsins um 92%.

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

Frystiskipið Guðmundur í Nesi, í eigu Útgerðarfélags Reykjavíkur (ÚR), undirgengst nú töluverðar breytingar í slippnum á Akureyri. Til stendur að gera tilraun til að knýja skipið með metanóli í stað díselolíu. Gangi breytingarnar eftir mun það draga úr útblæstri koltvísýrings vegna reksturs skipsins um 92%.

Runólfur V. Guðmundsson, framkvæmdastjóri ÚR, segir í samtali við Morgunblaðið að félagið hafi á liðnum árum lagt aukna áherslu á sjálfbærnimál og að þau séu orðin hluti af daglegum rekstri. Hann heldur erindi um tækifæri og áskoranir í sjávarútvegi á sjálfbærnidegi Landsbankans í dag.

Útgerðin auki gegnsæi

„Við erum öll sammála um mikilvægi þess að ganga vel um auðlindina sem hafið er, en þá skiptir máli að þau fyrirtæki sem við hana starfa, til dæmis sjávarútvegsfyrirtæki, sýni bæði frumkvæði og forystu í sjálfbærnimálum,“ segir Runólfur.

„Íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu er ætlað að tryggja viðgang og vöxt nýtingarstofna og því þarf að huga vel að umgengni um hafið. Við, sem fiskveiðiþjóð, tjöldum ekki til einnar nætur heldur gerum við ráð fyrir að nýta auðlindina um ófyrirséða framtíð.“

ÚR opnaði fyrir tveimur árum sérstaka fjárfestasíðu á vef fyrirtækisins, þar sem ársreikningar félagsins eru birtir opinberlega. Samhliða því birti félagið sjálfbærniskýrslu þar sem stefna og aðgerðir í umhverfismálum, stjórnarháttum og fleira eru raktar ítarlega.

„Við viljum sýna og segja frá því sem við erum að gera, þess vegna er mikilvægt að tryggja gagnsæi,“ segir Runólfur og vísar þar til útgerðarinnar almennt.

Hann segir að áður en þessi vinna hófst hafi félagið gert könnun meðal tæplega 90 hagaðila sem tengjast félaginu með einum eða öðrum hætti. Sú könnun hafi komið vel út en að sama skapi hafi hluti af henni nýst til að gera enn betur í þeim þáttum sem heyra undir sjálfbærni.

Viðskiptahagsmunir undir

„Við lítum þannig á að rekstur og arðsemi félagsins byggist á sjálfbærni,“ segir Runólfur. Það felur meðal annars í sér atriði eins og að flokka sorp, lágmarka umhverfisáhrif af flutningum, minnka sóun, uppræta brottkast og fleira.

„Við höfum einnig lagt áherslu á að mæla kolefnisfótspor og leita leiða til að minnka það. Kolefnisfótspor íslensks fisks er með því lægsta sem gerist og í raun sambærilegt við grænmeti en við teljum að hægt sé að gera enn betur,“ segir hann.

Aðspurður hvort og þá hversu mikið viðskiptalegir hagsmunir vegi í þessu samhengi segir Runólfur að þeir vegi þungt.

„Neytendur eru, með réttu, kröfuharðir. Þeir vilja vita hvaðan afurðirnar koma, við hvernig aðstæður fiskurinn er veiddur, hvort veiðarnar eru sjálfbærar og svo framvegis,“ segir hann.

„Þess vegna þurfum við líka að vera skrefi á undan, eins og við höfum til dæmis gert með rekjanleika afurða. Nú er hægt að rekja afurðina frá upphafi til enda, sem skiptir miklu máli.“

Einn angi af aðgerðum fyrirtækja í sjálfbærnimálum eru þau fjárfestingaverkefni sem þau ráðast í. Spurður nánar um það nefnir Runólfur meðal annar fjárfestingu ÚR í fæðubótarvörunni Unbroken, sem framleidd er hér á landi, og fjárfestingu í bátaframleiðandanum Rafnari.

Fjölbreytt erindi

Sem fyrr segir verður sjálfbærnidagur Landsbankans haldinn í dag.

Aðalfyrirlesari viðburðarins er Tjeerd Krumpelman frá ABN Amro-bankanum í Hollandi, sem hefur yfir 20 ára reynslu í fjármálageiranum og annast meðal annars sjálfbærniráðgjöf hjá ABN Amro. Á fundinum mun Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, einnig halda erindi um fjárfestingar og fyrirtækjarekstur, Sigrún Melax, gæðastjóri Jáverk, fjallar um vistvæna mannvirkjagerð og Stefán H. Stefánsson, framkvæmdastjóri Cargow, fjallar um bætta orkunýtingu í skipaflutningum. Streymt verður frá viðburðinum á mbl.is en dagskráin hefst kl. 09.00.