Túlkun Viðhorf kirkjunnar til samkynhneigðar hefur breyst mikið á síðustu áratugum eins og sjá mátti á skreytingu framan við Grafarvogskirkju í tilefni Hinsegin daga fyrir stuttu.
Túlkun Viðhorf kirkjunnar til samkynhneigðar hefur breyst mikið á síðustu áratugum eins og sjá mátti á skreytingu framan við Grafarvogskirkju í tilefni Hinsegin daga fyrir stuttu. — Ljósmynd/Guðrún Karls Helgudóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bókarkafli | Í bókinni Allt sem þú vilt vita um Biblíuna leiðir séra Þórhallur Heimisson lesendur í gegnum hina mörgu og torræðu kafla Biblíunnar, fjallar um ritunarsögu hennar og söguheim, helstu þætti og kafla.

Víða í Biblíunni er talað um samkynhneigð sem synd, sérstaklega í Gamla testamentinu. Þannig er það einfaldlega og ekki hægt að hylma yfir það. En þá er ekki talað um það fyrst og fremst að vera samkynhneigður, heldur er verið að fordæma siði og venjur og trúarbrögð Grikkja og annarra sem litu frjálslega á kynferði manna á þessum öldum. Páll postuli hefur vissulega samkynhneigð á hornum sér en það sama gildir um konur sem hann vill ekki að fái að tala í samkunduhúsinu, svo dæmi sé tekið.

Allt annað gildir um Jesúm. Til dæmis minnist Jesús Kristur aldrei á samkynhneigð eða samkynhneigða. Hann talar reyndar aldrei um kynhneigð manna til eða frá. Honum var slétt sama hvort menn væru samkynhneigðir eða gagnkynhneigðir eða eitthvað allt annað. Í augum Jesú erum við fyrst og fremst Guðs börn, hvort sem við erum hvít eða svört, karlar eða konur, rauðhærð eða dökkhærð, samkynhneigð eða gagnkynhneigð. Það undirstrikar hann oft og iðulega með orðum sínum og gerðum. Við megum ekki gleyma því að samkynhneigð var talin sjálfsögð í austurhluta Rómaveldis á tímum Jesú. Jesús ólst upp og starfaði í Galíleu og Júdeu, sem voru rómversk skatt- lönd, þar sem Gyðingar voru meirihluti íbúa. Allt í kringum Júdeu á dögum Jesú voru margfalt fjölmennari ríki en land Gyðinga. Þar voru til dæmis hinar svokölluðu „Tíu borgir“ þar sem Grikkir réðu ríkjum frá fornu fari. Grikkir höfðu reyndar ráðið yfir Júdeu að mestu frá tímum Alexanders mikla. Hjá Grikkjum og í þeirra menningarheimi var samkynhneigð ekkert tiltökumál.

Jesús stytti sér oft leið í gegnum borgirnar tíu á ferðum sínum en aldrei minnist hann samt á þetta atriði með samkynhneigðina. Hann hefur þó efalaust þekkt vel fordæmingarorð Gamla testamentisins í garð samkynhneigðra. Um þau voru helstu andstæðingar Jesú aftur á móti ekki jafn þögulir og fordæmdu þeir Grikki m.a. vegna frjálslyndis þeirra gagnvart samkynhneigðum. Jesús tók aldrei þátt í slíkum árásum.

Allt snýst þetta síðan um hvernig við lesum Biblíuna. Biblían varð til á 1500 árum. Elstu textar hennar eru frá 1400 f.Kr., þeir yngstu frá um 100 e.Kr., eins og fjallað er um hér í þessari bók. Árásir á samkynhneigða nú, víða um veröldina, eru oft dulbúnar í kristilegan búning, með tilvitnunum í Biblíutexta, bæði úr Gamla testamentinu og hinu nýja. Þannig hefur það verið um langan aldur og er enn, eins og dæmin sanna. Þeir sem slíkt stunda gleyma því aftur á móti að kristnir menn eiga að lesa lögmál hins gamla sáttmála og bréf Nýja testamentisins í ljósi orða og kenningar Jesú. Í ræðum sínum segir Jesús m.a:

„Dæmið ekki svo að þér verðið ekki dæmdir“; „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig“; „Allt sem þér því viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera“.

En þar með er því ekki haldið fram að ekki sé sagt margt ljótt um samkynhneigða í Biblíunni, eins og ég sagði hér á undan. Það sem þar stendur hefur líka verið notað óspart til að ofsækja samkynhneigða gegnum tíðina. Á því getur kirkjan aldrei nógsamlega beðist afsökunar. Hún ber meðal annars og ásamt öðrum trúfélögum þá skömm. Allt snýst þetta, þegar á botninn er hvolft, um val. Ég horfði eitt sinn á ónefndan viðtalsþátt á RÚV. Þetta var ágætur þáttur og oft áhugaverður. Í þessum þætti var gerð hörð hríð að Gamla testamenti Biblíunnar sem viðmælendur stjórnenda fundu allt til foráttu. Þar væri ekkert að finna nema morð og stríð og reiðan Guð. Best væri að reyna að sniðganga þetta rit. Um þetta voru allir á sama máli og hlegið dátt að vitleysunni í þessu forna riti. Reyndar er furðu oft talað þannig um Gamla testamentið og ekki skrýtið því að það var meira að segja lengi vel tíska innan kirkjunnar að lesa helst ekkert úr því í messum og reyna að sniðganga það að mestu. Vissulega eru ýmsir textar í Gamla testamentinu óhugnanlegir, blóðugir og, að því er okkur finnst nú, andstæðir lífsskoðun okkar og almennum mannréttindum. En þá má ekki gleyma því að þessir textar voru skrifaðir fyrir meira en 2500 árum, inn í allt aðrar aðstæður en okkar. Samt geyma margir þeirra fegurstu orð sem hafa verið skrifuð í sögu mannkyns. En um það voru spjallararnir í sjónvarpsþáttinum góða algerlega óvitandi.

Gleymum því ekki heldur að á öllum öldum hafa þessir textar verið túlkaðir inn í líf og aðstæður fólks eins og þær eru hverju sinni. Í þúsundir ára hafa kristnir og gyðinglegir guðfræðingar túlkað Biblíuna. Á vissan hátt tók kristindómurinn í arf þessa túlkunarhefð gyðingdómsins, það er að segja þá hefð að nauðsynlegt sé fyrir hverja kynslóð að túlka textana upp á nýtt. Þannig er ekki hægt að lesa texta hráan án þess að túlka hann og túlkanirnar eru margar og ólíkar.

[...] Við höfum séð hér á undan að Jesús talar aldrei um samkynhneigð þótt hann hafi örugglega oft mætt samkynhneigðum á sinni leið, sérstaklega þegar hann var í grísku borgunum tíu, Dekapólis. Hinu er svo líka nauðsynlegt að átta sig á, að hugarheimur Biblíunnar er algerlega framandi stöðu sambúðar samkynhneigðra jafnt sem gagnkynhneigðra nú. Ást og kynlíf voru bundin í reglur og siði og hefðir ættbálkasamfélagsins, alveg eins og hjónabandið. Biblían vegsamar þó kynlíf og erótíska ást, samanber Ljóðaljóðin, en aðeins milli karls og konu. Hún vegsamar ekki á sama hátt kynlíf samkynhneigðra. Það verðum við að viðurkenna. Það þýðir þó ekki að við getum fordæmt það á grundvelli hennar. Við skulum nefna annað dæmi sem skýrir þetta betur. Er talað um konur sem presta í Biblíunni? Nei, það er hvergi gert. Konur eru ekki prestar í Biblíunni. Þýðir það þá að konur geti ekki og eigi ekki að vera prestar? Þannig túlka sumir Biblíuna. En aðrir túlka hana á þann hátt að öll séu jöfn, karlar og konur, sköpuð í Guðs mynd til þess að þjóna honum. Á sama hátt túlkum við svo að kynhneigð skipti engu máli andspænis Guði. Öll erum við sköpuð í hans mynd, samkynhneigð jafnt sem gagnkynhneigð, karlar jafnt sem konur, óháð lit, kynþætti eða trú. Við erum öll eitt, jafngild og jafnmikils virði. Eins og Páll postuli, sá sem sagði að konan ætti að þegja í samkunduhúsinu, bendir sjálfur á:

Hér er hvorki gyðingur, né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi. (Gal. 3)