[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Már Jónsson bjó til prentunar og skrifaði inngang. Kilja, 377 bls., skýringar, skrár. Sæmundur 2022.

Lúkían frá Samostata fæddist um 120 og dó árið 180 eða litlu síðar, líklega í Egiftalandi, Sýrlendingur að ætt; Rómverjar nýbúnir að hrifsa Sýrland í veldi sitt þegar hann leit dagsljós, Samostata núna í Tyrklandi. Hann var settur til verknáms hjá frænda sínum, myndhöggvara að mennt, en fyrir klaufsku sakir hvarf hann á brott. Með einhverju móti varð hann lærdómsmaður og tileinkaði sér gríska tungu með slíkum ágætum að allir sem hana þurfa að nema til nokkurrar hlítar verða að lesa rit hans. Ekki spillti að þau féllu í kramið hjá lesendum nema þeir væru bundnir á klafa einhverrar kreddu.

Vitneskja um Lúkían er brotakennd og öll sótt í rit hans sjálfs, en þau eru talin rúmlega 80. Ekki er á vísan að róa um sannleiksgildi þeirra um lífshlaup Lúkíans því að hann var skemmtilegur háðfugl, ekkert var honum heilagt. „Fræðimenn sem láta það eftir sér að tengja girnilega textabúta við lífshlaup höfundarins eiga það líka til að seilast of langt til túlkunar“ segir Már réttilega (10); margir fallið í þá gryfju að fornu og nýju og sumir brennt sig. Lúkían nýtti sér samræðuform í verkum sínum en gjarnan er sagt að meistari þess sé Platon. Þessi aðferð skaust inn í íslenskar bókmenntir í t.d. Gylfaginningu og Atla Björns í Sauðlauksdal í fræðsluformi þar sem fávís spyr en vitur svarar. Fræðimaður hefur skilgreint samræður Lúkíans sem blöndu af Platon og Aristofanesi; Platon var góður grískumaður, sennilega fremur alvörugefinn, en Aristofanes eitt þekktasta og besta gamanleikjaskáld fornaldar; hann einn er sagður vekja glaðari hlátur en Lúkían af klassískum höfundum fornum. Samræður Lúkíans og önnur verk hans eru öll mörkuð af efasemdum og háði gagnvart ríkjandi gildum samtímans; hann endurvekur gamlar hefðir með hressilegum brag (17); hafði ríkulegan orðaforða og nokkru fjölbreyttari en t.d. Platon og Plútarkos.

Kannski fannst Lúkían að líf manna væri „einn brandari“ og menn skildu ekki sjálfa sig og hagsmuni sína (13). Staðalmyndir mannlífsins stíga ljóslifandi fram í verkum Lúkíans, harðstjóri, nískupúki, mannhatari, slúðrari, svikahrappur o.fl. (16) en hann hafði legið um aldir í gröf sinni þegar menn fóru að gefa verkum hans gaum að nýju, laust fyrir 1000 í Konstantínópel og að marki á endurreisnartímanum; kirkjunnar menn guldu varhug við Lúkían, töldu hann guðlastara (23). Það bjargaði hins vegar ritum hans frá glötun hvað hann skrifaði góða grísku sem var verðandi embættismönnum o.fl. að fyrirmynd (24). Rit hans voru þýdd á latínu einkum á 15. og 16. öld og höfðu áhrif á þýðendur, t.d. Tomas More og Útópíu hans (25) og Erasmus (Lof til heimskunnar); franski höfundurinn Rabelais var aðdáandi Lúkíans. Jonatan Swift ritaði um ferðir Gúllívers undir áhrifum hans og sumir ganga svo langt að kalla Lúkían upphafsmann vísindaskáldsögunnar. Á 16. og 17. öld voru ritaðar ótal samræður með sama glettna yfirbragði og Lúkían mótaði.

Víða hreinn skemmtilestur

Ýmis rit Lúkíans voru kennd í Bessastaðaskóla sem skráði pilta til náms frá 1805, bæði kaflar úr sýnisbókum grískra bókmennta sem gefnar voru út handa dönskum lærðum skólum og öðrum útgáfum, ekki síst eftir að Sveinbjörn Egilsson byrjaði kennslu 1819; efnamaður í krafti föðurarfs (35). Hann hafði á því orð að sum fræði, líklega ekki síst grísk og latnesk, væru „inngangur og aðdragandi til annara, svo að ekki verður komist til þekkingar á þessum nema hin séu áður numin“. Bessastaðakennarar hafa áreiðanlega þurft að svara sömu spurningum nemenda og kennarar núna: „Til hvers erum við að læra ÞETTA?“ Ekki var Lúkían þó vetur hvern á dagskrá, en „Draumurinn“ og „Tímon“ alloft og raunar fleiri verk. Bókaskortur hamlaði stundum að Lúkían væri tekinn til kostanna (41). Prestar sem bjuggu pilta undir Bessastaðaskóla létu sumir lesa Lúkían (45) eftir ábendingum Sveinbjarnar.

Engin af þýðingum Sveinbjarnar á ritum Lúkíans er til með hendi hans, þær sem varðveist hafa eru runnar frá lærisveinum; þannig eru í þessari bók þrjár mismunandi uppskriftir af „Draumnum“ og jafnmargar af „Tímon“ en ein af „Ragnaræðum“, „Sjógoðaræðum“ og „Promeþeusi“, tvær af „Karon“. Sýnilegur blæbrigða- og orðalagsmunur er á handritum skólapilta sem sýna fremur að Sveinbjörn hefur í tímans rás snurfusað þýðingar sínar fremur en að skólasveinar hafi farið sínar eigin leiðir þegar þeir skrifuðu upp fyrirlestrana. Már segir þýðingar hans „óviðjafnanlegar“ og „hann hlýtur að hafa skemmt sér konunglega sjálfur“ (64). Þessu má samsinna, víða eru verk Lúkíans hreinn skemmtilestur í meðförum Sveinbjarnar en auk þess eru þær heimild um orðafar, málnotkun, veraldarsýn o.fl.; „með bognar fingurnar“ skrifar t.d. einn lærisveinninn (119). Sagði Sveinbjörn svo? Hvernig er „skinnsterkur“ maður (123)? Menn hittust í „hellirnum“ sem stangast á við skólamálfræðina (253). „Örnin“ er hér í kvenkyni (262).

Erindi þýðinganna?

Hvaða erindi eiga þessar þýðingar við samtímann? Í fyrsta lagi eru þær menningarsöguleg heimild. Þetta lásu verðandi embættis-, stjórnmála- og fræðimenn vorir til að búa sig undir lífið. Gríska var akkeri, og Lúkían skrifaði betri grísku en flestir aðrir þótt efnisval og -tök færu fyrir brjóstið á mörgum. Ritin og lestur þeirra voru grundvöllur fyrir málfræðilega greiningu, rétt eins og raunin var um Völuspá í einhverjum skóla síðar. Ekki spillti fyrir að lesturinn var alls ekkert svefnmeðal þótt vafalaust hafi grísk málfræði reynst mörgum dáðadreng seig undir tönn. Í heimildaskrá má sjá að ýmsir hafa spreytt sig við að þýða Lúkían fram á síðustu ár þannig að hann virðist enn eiga hljómgrunn enda er útsmoginn stíll hans og skeytingarleysi um ríkjandi hefðir og gildi í ætt við ýmis ádeiluskrif í samtímanum þótt Lúkían sé þeim mun hvassari en sporgöngumenn hans flestir sem hann var betur lesinn en þeir.

Ekki fæ ég betur séð en Már hafi lagt mikla alúð við verk sitt, fært eitt og annað til nútíðarmáls, birtir skýringar Sveinbjarnar á efnisatriðum, sem eru bráðnauðsynlegar því hér renna fram á færibandi guðir og vættir. Inngangur hans er stuttur en þar er stiklað á stærstu steinum og óspart vísað í viðamiklar heildarútgáfur á verkum Lúkíans. Að öllu samanlögðu: óvænt útgáfa og læsileg bók!

Sölvi Sveinsson