Styrkur Kiwanis afhenti Píetasamtökunum tíu milljónir í styrk.
Styrkur Kiwanis afhenti Píetasamtökunum tíu milljónir í styrk. — Ljósmynd/Kiwanis
Píeta-samtökin fengu afhentan tíu milljóna króna styrk frá Kiwanishreyfingunni á umdæmisþingi sem haldið var á Selfossi 9.-11. september. Peningarnir söfnuðust á K-deginum í ár.

Píeta-samtökin fengu afhentan tíu milljóna króna styrk frá Kiwanishreyfingunni á umdæmisþingi sem haldið var á Selfossi 9.-11. september. Peningarnir söfnuðust á K-deginum í ár. Þeir Pétur Jökull Hákonarsson, umdæmisstjóri umdæmisins Ísland – Færeyjar, og Tómas Sveinsson, frá K-dagsnefnd, afhentu Sigríði Björk Þormar, frá Píetasamtökunum, styrkinn. Hún þakkaði Kiwanis fyrir góðvilja í þágu samtakanna. Kiwanis hefur tekið þátt í að koma fótunum undir þessi mikilvægu samtök.

Geðverndarmál hafa verið Kiwanis-fólki hjartfólgin. Hreyfingin hefur haldið landssöfnunina „Lykill að lífi“ á þriggja ára fresti til styrktar geðverndarmálum. Hún fór nú fram í 16. skiptið. Kiwanishreyfingin hefur safnað alls um 300 milljónum króna til geðverndarmála. Einnig hefur hún verið frumkvöðull að því að opna umræðu í þjóðfélaginu um þennan viðkvæma málaflokk. Kiwanis-fólk safnar fé í sjálfboðavinnu, þannig að það sem safnast skilar sér allt til góðra málefna.