Ingólfur Ómar Ármannsson orti á Boðnarmiði á mánudag ljóðið „Haustkyrrð“: Sólargeislum fækka fer fölnar jarðarbráin. Ilm af lyngi blærinn ber blikna hagastráin. Sveipar fjöllin rökkrið rótt ríkir kyrrð á haustin.

Ingólfur Ómar Ármannsson orti á Boðnarmiði á mánudag ljóðið „Haustkyrrð“:

Sólargeislum fækka fer

fölnar jarðarbráin.

Ilm af lyngi blærinn ber

blikna hagastráin.

Sveipar fjöllin rökkrið rótt

ríkir kyrrð á haustin.

Lækjarsytra hjalar hljótt

hljóðnar fuglaraustin.

Og enn yrkir hann:

Þegar neyðin ógnar önd

auðnu deyðir treginn.

Þá er leiðin löngum vönd

lífs um breiða veginn.

Og enn:

Kulið andar, hvolfin blá

klæðast rökkurhjúpi.

Mánasilfrið sindrar á

sævar myrku djúpi.

Hallmundur Guðmundsson skrapp í gleðskap fyrir sunnan um helgina, en er nú kominn heim:

Þrautum píndur, þunnur mjög

ég þurfti að keyra norður.

Liggjandi nú legg ég drög

að líf mitt fall' í skorður.

Sigtryggur Jónsson kveður og kallar Haust:

Farinn er runninn að roðna

og rökkva um miðaftans bil.

Smáblóm í sverðinum koðna,

sólin þó enn veitir yl.

„Sumar og haust í september“ eftir Þórunni Hafstein:

Er sumarið komið að sunnan?

Því sólin hún blikar um runnann.

Haustlitir nú heilsa oss fríðir

og himinninn blár loftið prýðir.

Jón Atli Játvarðarson skrifaði á miðvikudag: „Í tilefni þess að íslenskar prjónakonur vilja halda hitanum á úkraínskum hermönnum, með því að prjóna á þá sokka, þá fór ég að hugsa um sokkaplögg fyrir Putin á hinstu göngu hans á vit forfeðra sinna. Hvað hann óskaði sér og hvað væri við hæfi“:

Bölvaldsins mikla mál þarf að flokka,

moldum þann dauðans fýr.

Til göngunnar síðustu gefins fær sokka

úr görnum og sprengivír.

Pétur Stefánsson yrkir og kallar „Júlí 1929“:

Um Skagafjörð skrafhreifinn rabba vil,

skrautlegrar sögu ég labba til;

er amma sig lagði

með afa, að bragði

bjuggu þau blessaðan pabba til.

„Í vondu skapi“ eftir Davíð Hjálmar Haraldsson:

Tóta sig töluvert æsti,

hún tuldraði, rumdi og dæsti

og komst í slíkt skap

að hún karlinn sinn drap

og kallaði kolbrjáluð: „Næsti!“:

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is