Mark Þórir Jóhann Helgason fagnar marki í leik Íslands gegn Ísrael á Laugardalsvelli í sumar. Hann er á sínum stað í leikmannahópi landsliðsins.
Mark Þórir Jóhann Helgason fagnar marki í leik Íslands gegn Ísrael á Laugardalsvelli í sumar. Hann er á sínum stað í leikmannahópi landsliðsins. — Morgunblaðið/Eggert
Fótboltinn Gunnar Egill Daníelsson gunnaregill@mbl.is Í dag mætir Ísland liði Venesúela í vináttulandsleik í knattspyrnu karla. Leikurinn fer fram í Wiener Neustadt í Austurríki og hefst klukkan 16 að íslenskum tíma. Ísland hefur aldrei áður mætt Venesúela í landsleik og því um fyrstu viðureign liðanna í sögunni að ræða í dag.

Fótboltinn

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Í dag mætir Ísland liði Venesúela í vináttulandsleik í knattspyrnu karla. Leikurinn fer fram í Wiener Neustadt í Austurríki og hefst klukkan 16 að íslenskum tíma. Ísland hefur aldrei áður mætt Venesúela í landsleik og því um fyrstu viðureign liðanna í sögunni að ræða í dag.

Aðeins ein breyting hefur verið gerð á íslenska leikmannahópnum frá því að hann var upphaflega tilkynntur þann 16. september. Hægri bakvörðurinn Alfons Sampsted þurfti skömmu síðar að draga sig úr hópnum vegna meiðsla og kallaði Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari Höskuld Gunnlaugsson, fyrirliða Breiðabliks, inn í hópinn í hans stað.

Eftir vináttulandsleikinn gegn Venesúela ferðast íslenska liðið til Albaníu, þar sem það mætir heimamönnum í lokaleik beggja liða næstkomandi þriðjudag. Sá leikur gæti reynst gífurlega mikilvægur í baráttunni um toppsæti riðils 2 í B-deild Þjóðadeildar UEFA.

Því má vænta þess að Arnar Þór dreifi álaginu í leik dagsins sem best hann getur á þá 23 leikmenn sem eru í hópnum að þessu sinni.

Það liggur þá í augum uppi að Venesúela muni gera slíkt hið sama enda leikur liðið einungis vináttuleiki í þessum landsleikjaglugga. Alls valdi José Pekerman, landsliðsþjálfari Venesúela, 29 leikmenn fyrir leiki liðsins gegn Íslandi og Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Talsverð reynsla í Evrópu

Þekktasti leikmaður Venesúela er án efa sóknarmaðurinn Salomón Rondón, leikmaður enska úrvalsdeildarfélagsins Everton. Hann hefur átt erfitt uppdráttar í Bítlaborginni en hefur áður leikið með og staðið sig vel hjá West Bromwich Albion og Newcastle United í ensku úrvalsdeildinni, Rubin Kazan, Zenit St. Pétursborg og CSKA Moskvu í rússnesku úrvalsdeildinni og Málaga í spænsku 1. deildinni.

Rondón, sem er 33 ára gamall, á að baki 89 landsleiki fyrir Venesúela og hefur skorað í þeim 35 mörk, sem gerir hann að markahæsta leikmanni þjóðarinnar frá upphafi.

Fyrirliði liðsins, miðjumaðurinn Tomás Rincón, á sömuleiðis góðan feril að baki í Evrópuboltanum þar sem hann leikur nú með Sampdoria í ítölsku A-deildinni og hefur áður verið á mála hjá Torino, Juventus og Genoa í sömu deild.

Rincón, sem er 34 ára, hóf feril sinn í Evrópu með Hamburg þar sem hann lék í þýsku 1. deildinni um fimm ára skeið. Hann er næstleikjahæsti leikmaður landsliðs Venesúela frá upphafi með 118 landsleiki. Leikjahæstur er Juan Arango með 129 leiki, en hann hætti knattspyrnuiðkun árið 2017 og því ekki ósennilegt að Rincón slái metið.

Flestir leika í heimalandinu

Hann er annar tveggja leikmanna sem spila á Ítalíu en flestir úr leikmannahópnum leika í efstu deild í heimalandinu, tíu talsins. Fjórir af þeim eru nýliðar, en nýliðarnir hjá Venesúela eru alls fimm.

Næstflestir leika hins vegar í Bandaríkjunum, alls sjö leikmenn. Aðrir leikmenn dreifast víðar um Suður- og Norður-Ameríku og Evrópu. Þrír leika í Brasilíu, tveir í Mexíkó og einn í Kólumbíu, Portúgal, Belgíu og Ísrael.

Aldrei komist á HM

Venesúela er sem stendur í 56. sæti á styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, sjö sætum ofar en Ísland í 63. sæti. Venesúela er eina Suður-Ameríkuþjóðin sem hefur aldrei komist á heimsmeistaramót.

Þrátt fyrir dræman árangur í undankeppni HM í gegnum árin hefur liðið átt það til að standa sig vel í Ameríkubikarnum, Copa América. Árið 2011 hafnaði Venesúela í 4. sæti í keppninni og í 5. sæti árið 1967, þegar liðið tók þátt í fyrsta skipti. Venesúela hefur þrívegis til viðbótar komist í 8-liða úrslit Ameríkubikarsins, árin 2007, 2016 og 2019.