Settlegur Emmsjé Gauti segist hafa verið orðinn settlegur fjölskyldufaðir löngu fyrir brúðkaup sitt í sumar. Hann sé nú farinn að upplifa það að krakkar elti hann út eftir gigg og hneykslist á fjölskyldubílnum.
Settlegur Emmsjé Gauti segist hafa verið orðinn settlegur fjölskyldufaðir löngu fyrir brúðkaup sitt í sumar. Hann sé nú farinn að upplifa það að krakkar elti hann út eftir gigg og hneykslist á fjölskyldubílnum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Settlegi fjölskyldufaðirinn og rapparinn Emmsjé Gauti spjallaði við Ísland vaknar á K100 um líf, starf og komandi jólavertíð.

Rósa Margrét Tryggvadóttir

rosa@mbl.is

Rapparinn Gauti Þeyr Másson, betur þekktur sem Emmsjé Gauti, var fulltrúi ríka og fræga fólksins í Ísland vaknar með þeim Kristínu Sif og Ásgeiri Páli í gærmorgun. Hann vísaði reyndar fyrri lýsingunni á bug sjálfur í viðtalinu þar sem hann sló á létta strengi og ræddi um komandi jólavertíð en hann heldur sína árlegu jólatónleikasýningu , Jülevenner Emmsjé Gauta , í Háskólabíói 22. og 23. desember.

I'm ok with this en þetta er ekki satt. Ég held að þetta sé aðeins öfugt. Alla vega síðast þegar ég tékkaði á bankabókinni. Ég lendi dálítið í því að krakkar séu að hlaupa út eftir gigg og spyrja: Ertu á þessum bíl!? Eru svona móðguð yfir því að ég sé á fjölskyldu-stationbíl,“ sagði Gauti og uppskar hlátur í stúdíóinu.

„Geðveikt“ brúðkaup

Aðspurður segir Gauti að brúðkaup hans og eiginkonunnar Jovönu Schully hafi verið „geðveikt“ en þau létu pússa sig saman 6. ágúst síðastliðinn.

„Alveg bara fullkomið stöff, mæli með,“ sagði Gauti sem segist svo sannarlega vera orðinn settlegur fjölskyldufaðir.

„Ég er náttúrlega búinn að vera það í smá tíma. Maður giftir sig og þá fær maður partí og hring,“ sagði Gauti sem segist hafa fengið um það bil þúsund diska í brúðkaupsgjöf.

„Bara Royal Copenhagen, dót sem ég var ekki að biðja um,“ sagði hann kíminn.

Innblástur frá Frikka Dór

Miðar á Jülevenner eru þegar byrjaðir í sölu á tix.is en Gauti sagðist hafa ákveðið að nýta sér tækni Friðriks Dórs til að selja fleiri miða á tónleikana.

„Við notum Frikka Dórs-tæknina. Við erum að segja alls staðar á netinu að við séum að halda síðustu tónleikana og síðan fari sýningin í heild sinni í nám til Ítalíu. En í grunninn er þetta bara lygi svo að við seljum fleiri miða,“ sagði Gauti og vísaði í tónleika Friðriks Dórs árið 2018 sem áttu að vera hans síðustu í einhvern tíma. Gauti bendir þó á að vissulega sé um grín að ræða en hann hefur ekki í hyggju að hætta með Jülevenner í bráð.

„Þetta verður með sama stíl og hefur verið. 50/50 leiksýning á móti tónlist og bara ógeðslega gaman. Ég myndi segja að fyrst og fremst væru þetta við að hafa gaman og hlæja og í leiðinni rukka mikið inn á það,“ sagði Gauti léttur í lundu og samþykkti að eftir tónleikana gæti hann jafnvel keypt sér nýjan kagga svo að krakkar hætti að stríða honum á farartækinu ftir gigg.

Ásamt Gauta koma fram á tónleikunum Ragga Gísla, Club Dub, Saga Garðars og Úlfur Úlfur og Jesú Kristur. Aðstoðarmaður Gauta, „inn-á-leiðarinn“ Emil Alfreð, verður á sínum, stað aðdáendum til mikillar gleði.