Erla Bolladóttir
Erla Bolladóttir — Morgunblaðið/Kristinn Magnúss
Til greina kemur að mál Erlu Bolladóttur fari til Mannréttindadómstóls Evrópu, en endurupptökudómur hafnaði í síðustu viku beiðni hennar um endurupptöku á máli Hæstaréttar nr. 214/1978 frá 22.

Til greina kemur að mál Erlu Bolladóttur fari til Mannréttindadómstóls Evrópu, en endurupptökudómur hafnaði í síðustu viku beiðni hennar um endurupptöku á máli Hæstaréttar nr. 214/1978 frá 22. febrúar 1980, að því er varðar rangar sakargiftir á hendur Magnúsi Leópoldssyni, Einari Gunnari Bollasyni, Valdimar Olsen og Sigurbirni Eiríkssyni.

„Ég hef sett mér það að meðan það er leið, þá fer ég hana,“ sagði Erla Bolladóttir á blaðamannafundi sem hún boðaði til í gær vegna niðurstöðu endurupptökudómsins.

Endurupptökunefnd hafnaði máli Erlu árið 2017 en ákveðið var að taka upp mál þeirra sem dæmdir voru fyrir aðild að hvarfi Guðmundar Einarssonar í Hafnarfirði í janúar 1974 og Geirfinns Einarssonar í Keflavík í nóvember árið 1974. Voru þeir sýknaðir í Hæstarétti árið 2018.

Héraðsdómur felldi úrskurð endurupptökunefndar úr gildi í janúar á þessu ári og í kjölfarið fór mál Erlu fyrir endurupptökudómstólinn.

Erla greindi frá því á fundinum að hún hefði greinst með ólæknandi krabbamein og sagðist hún eiga þá ósk heitasta að fá lyktir í málið.

„Ég á enga ósk heitari hvað mig persónulega varðar en að þetta mál fái sín endalok og að það fari fram formleg jarðarför á öllu saman. Það gerist ekki nema réttlætið komi fram.“

Enginn vissi neitt um Geirfinn

Erla lýsti því í samtali við mbl.is í gær að hún hefði flúið Ísland og leitað í fíkniefni, eftir að hafa verið úthúðað hér á landi þegar hún var látin laus. Henni var ekki stætt að búa hér á landi og fór til systur sinnar sem bjó á Havaí. Þær fóru saman, hún og dóttir hennar. „Þar vissi enginn neitt um Geirfinn,“ segir Erla.

Lífið á Havaí var aftur á móti ekki auðvelt, þó hún væri laus undan fyrirlitningunni og aðkastinu sem hún varð fyrir heima á Íslandi. Erla var uppfull af reiði og leitaði í fíkniefni til að deyfa sig. Nánar er rætt við Erlu á mbl.is.