Margrét Jakobína Ólafsdóttir fæddist 26. febrúar 1948 í Reykjavík. Hún lést á krabbameinsdeild Landspítalans 26. ágúst 2022.

Foreldrar hennar voru Fjóla Einarsdóttir, f. 1928, d. 2021, og Ólafur Helgi Árnason, f. 1928, d. 1999.

Margrét var elst fimm systkina. Hin eru Rósamunda, f. 1949, Einar, f. 1951, Ingibjörg, f. 1954, og Árni, f. 1966.

Hinn 6. desember 1966 giftist hún Júlíusi Þorbergs, f. 1944. Börn þeirra eru:

1) Ólafur Einar, f. 1967, giftur Ástu Ellen Eiríksdóttur, f. 1963, eiga þau fjögur börn: Heiðmund Einar, f. 1992, Margréti Eydísi, f. 1995, sem á barnið Elínheiði, f. 2021, Ragnar Eirík, f. 1996, og Charlottu Elínu, f. 2001.

2) Ingibjörg, f. 1969, í sambúð með Alberti Guðmundssyni, f. 1965, eiga þau fjögur börn: Arnar Inga, f. 2005, Axel Þór, f. 2005, Sóleyju Líf, f. 2006, og Hjört Atla, f. 2009, einnig á hún tvö stjúpbörn, Maríu Sif, f. 1988, og Kristján Daníel, f. 1994.

3) Ragnar Heiðar, f. 1974, hann á fjögur börn: Helenu Perlu, f. 1997, Kristin Frey, f. 2005, Ragnheiði Lenu, f. 2007, og Matthías Kára, f. 2012, einnig á hann eitt stjúpbarn, Emil Baur, f. 1993.

4) Margrét Júlía, f. 1976, í sambúð með Eðvarði Sigurði Halldórssyni, f. 1986, á hún eitt barn, Tinnu, f. 2007.

5) Tryggvi Þór, f. 1981, í sambúð með Tinnu Jónsdóttur. Þau eiga tvö börn, Hrafneyju Ölbu, f. 2020, og eitt ónefnt, f. 2022.

Margrét og Júlíus slitu samvistum árið 1988.

Hinn 23. nóvember 1996 giftist Margrét Hinriki Tom Pálmasyni, f. 1959. Varð þeim ekki barna auðið, en áttu hundinn Baltó.

Margrét byrjaði ung að vinna hjá afa sínum í Silla og Valda og síðan tóku við margvísleg störf í gegnum ævina við gott orð. Lengst var hún að vinna á Hlaðhömrum í Mosfellsbæ sem eru íbúðir fyrir aldraða, þar vann hún út starfsævina. Margrét sinnti líka ýmsum félagsstörfum og var í alls konar nefndum á efri árum.

Útförin fer fram í dag, 22. september 2022, klukkan 15.

Streymi á útför:

https://www.netkynning.is/margret-jakobina-olafsdottir

Virkur hlekkur á www.mbl.is/andlat og á:

http://mbl.is/go/pmeeg

Mig setti hljóða þegar ég fékk þær fréttir að elskuleg vinkona mín og fyrrverandi samstarfsmaður til margra ára væri látin eftir skammvinn veikindi. Margrét hafði greinst með krabbamein fyrir fáum árum sem hún hafði fengið fulla lækningu á og var svo glöð og ánægð þegar hún tjáði mér að hún væri laus við þann vágest. Eftir að hafa farið í lyfjameðferð, sem heppnaðist fullkomlega að hún hélt, var hún mjög glöð og ánægð og lífið blasti við henni, þau hjón að fara til Danmerkur að heimsækja Ólaf Einar son hennar og fjölskyldu hans. Ég hitti hana stuttu fyrir ferðina til Danmerkur og leit hún mjög vel út og var alsæl með lífið. En Adam var ekki lengi í Paradís, Margrét veiktist hastarlega úti í Danmörku og kom fárveik heim og lést á sjúkrahúsi eftir stutt veikindi.

Margrét var einstök kona, hún var mér mjög hjálpsöm og studdi mig vel í öllu okkar samstarfi, hún var mjög bóngóð og taldi ekki eftir sér að hjálpa ef til hennar var leitað. Hún reyndist íbúum Hlaðhamra/Eirhamra góður vinur og var afskaplega hjálpfús við þau. Hennar verður sárt saknað af mörgum, missir fjölskyldu hennar er mikill, hún var forsprakkinn í öllum boðum og samveru fjölskyldu sinnar. Hún var gjaldkeri í félagi eldri borgara í Mosfellsbæ og var einmitt nýbúin að ganga frá ferð með félögunum til Tenerife sem fara átti nú í haust og þau hjón ætluðu með. Hún passaði upp á allt og alla og hafði mjög gaman af að aðstoða aðra. Hún var glaðlynd og mjög hjálpsöm. Það verður mikil eftirsjá í henni hjá mörgum sem sakna hennar nú, einkum fjölskyldu hennar, sem hún reyndist mikil hjálparhella, svo og félögum hennar í félagi eldri borgara. Um leið og ég kveð elsku Margréti votta ég Rikka eiginmanni hennar svo og börnum hennar, tengdabörnum og barnabörnum mína dýpstu samúð.

Guð veri með ykkur á erfiðri stundu.

Blessuð sé minning hennar.

Kveðja,

Valgerður (Vallý).

Það var mikið áfall fyrir okkur í félagsstarfi aldraðra í Mosfellsbæ (FaMos) þegar Margrét Jakobína féll frá eftir stutt veikindi. Hún hafði verið hugmyndasmiðurinn og framkvæmdaaðilinn í ferðanefnd félagsins og einnig gjaldkeri stjórnar FaMos til margra ára. Hún var einstaklega félagslynd, hjálpsöm og viljug til starfa. Við minnumst hennar með þakklæti og virðingu og sendum fjölskyldu hennar hlýjar kveðjur.

Fyrir hönd FaMos,

Ingólfur Hrólfsson

Jóhanna B. Magnúsdóttir

Snjólaug Sigurðardóttir.