Forleggjari Bjarni Harðarson rekur tvær bókabúðir með gamlar bækur og nýjar og segir að bókin muni ekki deyja.
Forleggjari Bjarni Harðarson rekur tvær bókabúðir með gamlar bækur og nýjar og segir að bókin muni ekki deyja. — Morgnblaðið/Hallur Már
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dagmál Árni Matthíasson arnim@mbl.

Dagmál Árni Matthíasson

arnim@mbl.is

Bjarni Harðarson er rithöfundur og forleggjari, rekur í dag bókaútgáfuna Sæmund, og hefur lengi sýslað með orð – byrjaði ferilinn sem ritstjóri Stúdentablaðsins og var síðar blaðamaður á Tímanum og Helgarpóstinum og víðar þar til hann stofnaði Bændablaðið með félögum sínum og síðan Sunnlenska fréttablaðið á Selfossi. Ekki er bara að hann hafi starfað sem blaðamaður, heldur hefur hann líka skrifað bækur, fræðirit og skáldskap, og gefið út bækur sínar og annarra. Rithöfundarferillinn hófst, að hans sögn, þegar hann hélt með konu sinni til Hollands þar sem hún stundaði nám í tónlistarfræðum. „Ég var þar sem húsmóðir og dundaði mér við að búa til bók um þjóðsögur á Suðurlandi, þjóðfræðilegt rit sem ég var kominn með útgefanda að. Svo guggnuðu þeir sem ætluðu að gefa bókina út og ég ákvað þá að gefa hana út sjálfur.“

Þessi fyrsta bók Bjarna kom út 2001 og ber heitið Landið, fólkið og þjóðtrúin . Hann segir að títt sé kvartað yfir því að bækur séu dýrar en sér verði títt hugsað til þess að þegar hann var að undirbúa útgáfuna var hann ekki viss um hvernig ætti að verðleggja bókina.

„Bókin var í venjulegu broti, litprentuð. Sá sem hafði ætlað að gefa hana út hætti við og taldi að þetta myndi alls ekki seljast. Ég hugsaði með mér að ég þyrfti alla vega að selja fyrir prentkostnaði og setti verðið eins hátt og ég gat en samt í samræmi við það sem menn voru að gera svo það væri ekki út úr kortinu. Ég seldi bókina á 6.000 kr., en einstaka maður fékk hana á 5.000 kr., svona fyrir náð og miskunn. Þetta samsvarar því að ég hefði komið með venjulega bók á markað í dag sem kostaði 16.000 kr., sem væri fjarstæðukennt – bækur eru miklu ódýrari en þær voru.“

Síðar stofnaði Bjarni bókaútgáfuna Sæmund, sem gefið hefur út á þriðja hundrað bóka og allmargar bætast við fyrir þessi jól. Sæmundur gefur gefið út ýmsar bækur, talsvert af þjóðlegum fróðleik og ævisögum, en einnig þýdd skáldverk, sem Bjarni segir að sé þó æ erfiðara að gefa út vegna kostnaðar, íslenskar barnabækur, ljóðabækur og skáldsögur.

Ekki er þó bara að Bjarni sé bókaútgefandi, hann er líka bóksali, annars vegar í Bókakaffinu á Selfossi, og hins vegar í Bókakaffinu í Ármúla, þar sem hann rekur bókaverslun með gamlar og nýjar bækur. Bjarni segir að sala á gömlum bókum hafi dregist saman, ekki síður en sala á nýjum bókum, en telur þó að þar sé viðspyrna. „Bókin deyr ekki, það þarf ekki að velta því fyrir sér. Hennar líf er breytt og hún er ekki á sama stað og þegar öll heimili söfnuðu bókum, en það kemur alltaf nýtt bókafólk, nýir bókasafnarar. Manni hefur stundum dottið það í hug að þeir myndu bara fara allir upp í Gufunes og svo kæmum við, Árni, tveir síðastir og gætum þá bara slökkt ljósin í Bókakaffinu og öðrum fornbókabúðum, en það verður ekki svo. Það koma ný áhugasvið með hverri kynslóð. Ég fletti mikið upp í Jóhannesi Ágústssyni, sem sér um búðina hér í bænum og er naskur á að skilja þessa sprota, það eru nýir sprotar í þessu eins og í öllu.“