[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Davíð Sigurðsson fæddist 22. september 1982 á Akranesi og ólst upp fyrstu árin í Þorlákshöfn og á Þórustöðum í Ölfusi. Fjölskyldan flutti að Hellubæ í Hálsasveit þegar hann var þriggja ára og bjó hann þar út grunnskólagönguna.

Davíð Sigurðsson fæddist 22. september 1982 á Akranesi og ólst upp fyrstu árin í Þorlákshöfn og á Þórustöðum í Ölfusi. Fjölskyldan flutti að Hellubæ í Hálsasveit þegar hann var þriggja ára og bjó hann þar út grunnskólagönguna.

„Ég var síðan með annan fótinn í Skagafirði eftir grunnskóla og var í tvö ár bæði í fjölbrautaskóla og í vinnu á bílaverkstæði en hafði verið vinnumaður á Skefilsstöðum á Skaga í fjögur sumur eftir fermingu hjá yndislegum hjónum, þeim Búa Vilhjálmssyni og Margréti Viggósdóttur. Ég fór því næst aftur heim í Borgarfjörðinn og vann við byggingarvinnu, vélavinnu og tók eitt ár í Bændaskólanum á Hvanneyri.

Ég nældi svo í eiginkonu mína hana Sigríði 2001 og saman fórum við í Fjölbrautaskóla Vesturlands haustið 2005 að klára okkar nám. Vorið 2007 útskrifuðumst við bæði sem stúdentar en ég einnig sem vélvirki.“

Síðan þá hefur Davíð starfað sem vélvirki við járnblendið á Grundartanga, keypti ásamt föður sínum 2013 dekkjaverkstæði og smurstöð í Borgarnesi sem hann starfaði á og rak þar til í fyrra ásamt því að vera landbúnaðarverktaki síðustu árin með eigin bústörfum.

„Ég sá um ásamt góðum hópi manna að viðhalda varnargirðingu sauðfjárveikivarna milli Borgarfjarðar og Húnavatnssýslna frá 2006-2020 en við kölluðum okkur Gaddavírsbandalagið.“

Davíð hefur verið mikið viðloðandi félagsstörf síðasta áratuginn eða svo. Hann var formaður Félags sauðfjárbænda í Borgarfirði í fjögur ár og formaður Búnaðarfélags og Ræktunarsambands Þverárþings í fjögur ár. Hann var kosinn í sveitarstjórn Borgarbyggðar 2018 og svo aftur í vor og situr nú sem formaður byggðarráðs.

„Við höfum búið í Miðgarði meira og minna síðan 2005 og höfum þar ásamt fjölskyldu Sigríðar ræktað sauðfé og hross. Við erum samheldin fjölskylda í Miðgarði og oft erum við mörg saman og fyrirferðarmikil, gerum nánast allt saman, allt frá því að ferðast innan- og utanlands, halda jól og setja upp girðingar. Við förum með vinum og fjölskyldu í hestaferðir helst árlega, t.d. í sumar riðum við úr Borgarfirðinum norður á Strandir; frábær ferð með góðum vinum.

Ég hef líka mjög gaman af smalamennskum en nú er einmitt sá tími þar sem göngur eru í hávegum hafðar. Nú er ég búinn að fara í leitir tvær helgar í röð og næstu helgi verður svo farið í þriðju leitina.“

Fjölskylda

Eiginkona Davíðs er Sigríður Arnardóttir, f. 4.10. 1983, grunnskólakennari og gáfnaljós. Þau eru búsett í Miðgarði í Stafholtstungum. Foreldrar Sigríðar voru Örn Einarsson bóndi, f. 31.12. 1947, d. 20.10. 2005, og Sigríður Númadóttir starfsmaður í eldhúsi, f. 30.1. 1948, d. 23.11. 2018, bændur í Miðgarði.

Synir Davíðs og Sigríðar eru Kristófer Daði, f. 6.4. 2004, nemi í Menntaskólanum á Akureyri; Sigurður Örn, f. 31.8. 2007, nemi í Grunnskóla Borgarfjarðar, og Skarphéðinn Karl, f. 14.6. 2018, nemi í leikskólanum Uglukletti.

Systkini Davíðs eru Jens Sigurðsson, f. 10.8. 1984, sjómaður; María Sigurðardóttir, f. 13.8. 1990, íþróttafræðingur, og Sveinbjörn Sigurðsson, f. 22.5. 1999, háskólanemi.

Foreldrar Davíðs: Hjónin Sigurður Einarsson, f. 12.4. 1961, d. 29.9. 2018, vélstjóri og bóndi á Hellubæ í Hálsasveit, og Gíslína Jensdóttir, f. 4.10. 1962, bókasafnsfræðingur í Snorrastofu, Reykholti og bóndi á Hellubæ.