Jerome Powell
Jerome Powell
Bandaríski seðlabankinn hækkaði vexti í gær um 0,75%. Með því eru vextirnir komnir í 3,25% og hafa þeir ekki verið jafnháir síðan vorið 2008.

Bandaríski seðlabankinn hækkaði vexti í gær um 0,75%. Með því eru vextirnir komnir í 3,25% og hafa þeir ekki verið jafnháir síðan vorið 2008. Vextirnir voru lækkaðir sumarið 2008 og svo enn frekar eftir alþjóðlegu fjármálakreppuna þá um haustið og voru komnir niður í 0,25% í janúar 2009.

Powell gaf til kynna í ræðu, meðal seðlabankastjóra í Jackson Hole í Wyoming í ágúst, að frekari vaxtahækkanir væru fram undan. Hærri vextir, minni hagvöxtur og minni spurn eftir vinnuafli myndu slá á verðbólgu. Það væri fórnarkostnaður en hins vegar yrði það dýrara verði keypt, ef ekki tækist að koma á verðstöðugleika í hagkerfinu.

Þriðja 0,75% vaxtahækkunin í röð

Vaxtahækkunin í gær var þriðja 75 punkta hækkunin í röð en vextirnir voru 1% í júní þegar hækkunarhrinan hófst.

Samkvæmt greiningu Jeffs Ostrowskis, á fjármálavefnum Bankrate, eru vextir íbúðalána orðnir jafnháir og í nóvember 2008. Þetta bendi til að tímabili lágra vaxta af húsnæðislánum, í kjölfar samdráttarskeiðsins mikla, sé að ljúka.

Samkvæmt greiningu hans eru nú að meðaltali 6,12% vextir af 30 ára íbúðalánum í Bandaríkjunum.