[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dagmál Gísli Freyr Valdórsson gislifreyr@mbl.

Dagmál

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

Þau takast harkalega á um sumt en eru sammála um annað, þau Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, sem í nýjum þætti Dagmála ræða um komandi þingvetur og helstu áskoranir á vettvangi stjórnmála. Þátturinn er sýndur á mbl.is í dag.

Þar er meðal annars fjallað um þingsályktunartillögu Viðreisnar og annarra flokka um að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort hefja skuli á ný aðildarviðræður við Evrópusambandið (ESB). Í þættinum bendir Sigmar á að Alþingi hafi ákveðið árið 2009 að hefja viðræður en þeim viðræðum hafi aftur á móti aldrei verið slitið af hálfu Alþingis. Nú sé ástæða til að endurmeta hlutina, til dæmis í ljósi átakanna í Úkraínu, þar sem önnur ríki hafi endurmetið þátttöku sína í alþjóðlegu samstarfi ríkja.

Spurð um það hvort að Sjálfstæðisflokkurinn, sem er andsnúinn inngöngu Íslands í ESB, sé feiminn við að ræða málefnið sagði Diljá Mist svo ekki vera – heldur fagnaði hún því að stuðningsmenn inngöngu Íslands í ESB vilji ræða þau mál efnislega, skortur hafi verið á því á liðnum árum.

Þau Diljá Mist og Sigmar ræða einnig um það hvort að ríkisstjórnin sé búin að missa tökin á ríkisfjármálum og hvort að kostnaðurinn við ríkisstjórnarsamstarfið sé of mikill. Þá er rætt um þær áskoranir sem felast í komandi kjaraviðræðum og hvort ríkisvaldið þurfi að höggva á hnútinn til að leysa viðræður milli aðila vinnumarkaðarins. Auk þess er rætt um aukna verðbólgu og hvaða áhrif hún hefur, bæði á efnahag fyrirtækja og heimila en einnig á íslensk stjórnmál og hvort að ríkið geti brugðist við henni.

Hvað tekjuöflun ríkisins varðar álítur Sigmar að ríkið eigi að klára söluna á Íslandsbanka en auk þess sé rétt að selja Landsbankann einnig, enda eigi ríkið ekki að reka banka. Diljá Mist segist vera sammála því, enda sé hún þeirrar skoðunar að ríkið eigi ekki að standa í bankarekstri.