Fram undan er afar mikilvæg vika fyrir landslið karla í knattspyrnu, A-landsliðið og U21-árs landsliðið.
Fram undan er afar mikilvæg vika fyrir landslið karla í knattspyrnu, A-landsliðið og U21-árs landsliðið. A-landsliðið stendur frammi fyrir þeim möguleika að geta unnið riðil 2 í B-deild Þjóðadeildar UEFA, sem tryggir liðinu sæti í umspili um laust sæti á EM 2024.

Lið sem komast ekki á EM með hefðbundnum hætti, þ.e. í gegnum undankeppni, fá annan möguleika með góðum árangri í Þjóðadeildinni. Ungverjaland, Slóvakía, Skotland og Norður-Makedónía tryggðu sér til að mynda öll sæti á EM 2020 á síðasta ári með því að vinna umspil A-, B-, C- og D-deilda Þjóðadeildarinnar.

Að tryggja sér toppsætið í riðli 2 í B-deild er því miður ekki í höndum Íslands þar sem Ísrael og Albanía mætast fyrst um helgina. Vinni Ísrael þann leik getur hvorki Ísland né Albanía hrifsað toppsætið af liðinu.

Takist Ísraelsmönnum hins vegar ekki að vinna er allt opið og gæfist þá Íslandi og hugsanlega Albaníu færi á að tryggja sér sigur í riðlinum þegar síðarnefndu tvö liðin mætast í Tírana í Albaníu á þriðjudag.

Verkefni U21-árs landsliðsins er ekki síður stórt þar sem liðið tekur þátt í umspili um sæti á EM 2023 í aldursflokknum. Liðið mætir Tékklandi heima og að heiman; á Víkingsvelli á morgun og í Ceské Budejovice ytra á þriðjudag.

Hafi það betur í viðureigninni fer íslenska U21-árs liðið á EM í annað skiptið í röð og í þriðja sinn í sögunni. Ef EM 2011 í aldursflokknum kenndi okkur eitthvað þá er það að fyrir upprennandi knattspyrnumenn Íslands er dýrmætt að taka þátt í stórmóti.