Skálað Íslendingar tóku því vel þegar barir hófu að bjóða upp á gleðistundir. Nú fækkar þeim stundum.
Skálað Íslendingar tóku því vel þegar barir hófu að bjóða upp á gleðistundir. Nú fækkar þeim stundum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Það er alltaf verið að bæta á opinberum gjöldum og nú er búið að brennimerkja áfengi sem óvin númer eitt.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Það er alltaf verið að bæta á opinberum gjöldum og nú er búið að brennimerkja áfengi sem óvin númer eitt. Með stanslausum hækkunum á gjöld er þrengt verulega í snörunni hjá veitingahúsum og börum og það takmarkar frelsi veitingamanna til að geta boðið ásættanlegt verð og góða þjónustu,“ segir Aðalgeir Ásvaldsson, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði.

Fyrir um áratug reið yfir mikil bylgja gleðistundar, eða Happy hour, á börum og veitingahúsum á höfuðborgarsvæðinu og víða á landsbyggðinni í kjölfarið. Veitingamenn kepptust við að bjóða hagstætt verð á drykkjum síðdegis, á tíma sem gjarnan var rólegur. Þannig var ekki óalgengt að fólk fengi tvo drykki á verði eins, oftast bjór og léttvín en á sumum stöðum átti þetta líka við um kokteila og sterka drykki. Nær allir staðir stukku á vagninn og buðu upp á gleðistund. Í dag er öldin önnur og nú bjóða ekki nærri því allir staðir upp á gleðistund. Þeir sem það gera bjóða gjarnan aðeins afslátt af bjór og léttvíni. Algengt verð á bjór á gleðistund er á bilinu 800-1.000 krónur. Það er þó nokkru lægra en alla jafna en ansi langt frá því sem var þegar best lét fyrir fólk sem vildi lyfta sér upp.

Veitingamenn sem Morgunblaðið hefur rætt við segja að ekki þurfi nema stutta yfirferð yfir excel-skjölin í rekstrinum til að sjá að ekkert svigrúm sé fyrir tilboð og slíkar æfingar í dag. Reksturinn sé þungur um þessar mundir. Aðalgeir segir að álögur á áfengi og ýmsar hækkanir á síðustu árum hafi gert það nær útilokað að bjóða upp á gleðistund eins og áður var. Og nýjustu vendingar, boðaðar hækkanir á áfengisgjaldi um 7,7% um áramót, hjálpi síður en svo til. „Við myndum glöð vilja geta boðið fólk velkomið á gleðistund á hverjum degi og við erum góð í því. Þessi hækkun ofan á hækkun aðfanga upp á 30% að undanförnu og launahækkanir síðustu ára gera það hins vegar ómögulegt.“