Bláfjöll Hafnfirðingar þurfa nú að aka 35 kílómetra til að komast á skíði.
Bláfjöll Hafnfirðingar þurfa nú að aka 35 kílómetra til að komast á skíði. — Morgunblaðið/Eggert
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Áhugi er á því í Hafnarfirði að Bláfjallavegur verði opnaður að nýju. Það myndi stytta mjög leiðina fyrir Hafnfirðinga í Bláfjöll og einnig er það talið öryggisatriði að hafa þessa flóttaleið opna.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Áhugi er á því í Hafnarfirði að Bláfjallavegur verði opnaður að nýju. Það myndi stytta mjög leiðina fyrir Hafnfirðinga í Bláfjöll og einnig er það talið öryggisatriði að hafa þessa flóttaleið opna. Hafnarfjarðarbær hefur óskað eftir því að lokun vegarins verði endurmetin og vinna Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að því að undirbúa það.

Vegagerðin lét loka Bláfjallavegi frá Bláfjallaleið að hellinum Leiðaranda í febrúar 2020 vegna vatnsverndarsjónarmiða. Fram kom í tilkynningu Vegagerðarinnar á sínum tíma að lítil umferð hafi verið um veginn og hann ekki þjónustaður yfir vetrarmánuðina. Þar séu víða brattir vegfláar og því hætta á að bílar velti með tilheyrandi hættu á olíumengun. Því hafi verið talið rétt að grípa inn í áður en óhöpp yrðu.

Meðal mótvægisaðgerða

Málið á sér dýpri rætur. Þegar verið var að undirbúa framkvæmdir við endurnýjun skíðasvæðisins í Bláfjöllum var rætt um áhrif aukinnar umferðar á vatnsverndarsvæði og hvort framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Niðurstaðan varð sú að svo væri ekki en Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, segir að gripið hafi verið til vissra mótvægisaðgerða. Ákveðið hafi verið að lækka hámarkshraða á Bláfjallaleið, loka þessum kafla á Bláfjallavegi, beina umferðinni um Suðurlandsveg og Bláfjallaleið og laga veginn á þeirri leið. Þá hafi verið ákveðið að bora rannsóknarholur og setja þar upp mæla til að kortleggja betur vatnsstrauma á svæðinu. Það verk standi enn yfir.

Spurður, hvort Bláfjallavegur verði hugsanlega opnaður á ný, segir Páll að sjálfsagt sé að endurmeta stöðuna á hverjum tíma og það verði gert nú, að ósk Hafnarfjarðarbæjar.

Hellirinn Leiðarendi er nú við enda vegarins. Hann er aðgengilegur og nokkuð fjölsóttur, um 750 metrar að lengd.