Einar Már „Jörundur er holdgervingur einstaklingshyggjunnar og brennur fyrir að gera eitthvað merkilegt.“
Einar Már „Jörundur er holdgervingur einstaklingshyggjunnar og brennur fyrir að gera eitthvað merkilegt.“ — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Kristín Heiða Kristinsdóttir khk@mbl.is „Sannarlega er frá nógu að segja þegar kemur að Jörundi. Til dæmis konunum í lífi hans, en þær voru þrjár og ein þeirra er Guðrún hundadagadrottning hér á Íslandi. Hún á sér ævintýralega sögu sem ég mun meðal annars koma inn á í mínu prógrammi,“ segir Einar Már Guðmundsson rithöfundur, sem ætlar að segja sögur af Jörundi hundadagakonungi á Söguloftinu í Landsnámssetrinu í Borgarnesi nk. laugardag, 24. september. Sýninguna kallar hann 1809 – en það ár gerði Jörundur byltingu á Íslandi.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Sannarlega er frá nógu að segja þegar kemur að Jörundi. Til dæmis konunum í lífi hans, en þær voru þrjár og ein þeirra er Guðrún hundadagadrottning hér á Íslandi. Hún á sér ævintýralega sögu sem ég mun meðal annars koma inn á í mínu prógrammi,“ segir Einar Már Guðmundsson rithöfundur, sem ætlar að segja sögur af Jörundi hundadagakonungi á Söguloftinu í Landsnámssetrinu í Borgarnesi nk. laugardag, 24. september. Sýninguna kallar hann 1809 – en það ár gerði Jörundur byltingu á Íslandi.

„Svo skemmtilega vill til að ég er fæddur 18.09 sem án punkts er ártal byltingar Jörundar,“ segir Einar og hlær og bætir við að hann hafi verið unglingur þegar hann kynntist Jörundi í gegnum leikrit Jónasar Árnasonar, Þið munið hann Jörund .

„Þar var hann tengdur írskum sjóaravísum og birtist sem grallari sem hrekkti Dani. Seinna, þegar ég var að skrifa mínar sögur, þá datt ég inn í þetta tímabil, upphaf nútímans, frá 1800 til 1830. Þá voru Skaftáreldar hér, franska byltingin úti í heimi og upplýsingatíminn fylgdi í kjölfarið. Stundum er talað um þetta sem tíma afbrotanna en þegar ég fór að kynna mér afbrotamennina þá kom í ljós að þeir voru menn sem við aðrar kringumstæður hefðu orðið borgarar. Þetta voru oft menn sem voru djarfari en flestir og ekki fátækustu mennirnir.“

Nokkur ár í óreglu og spilafíkn

Jörundur fæddist 1780 í Kaupmannahöfn sem talinn er frekar blómlegur tími þar. Uppgangur var í samfélaginu og borgarastéttin að fæðast.

„Jörundur kemur úr ágætis aðstæðum heima fyrir. Þetta var menningarheimili og H.C. Andersen leitaði til dæmis til móður Jörundar þegar hann var ungur maður, sagði hana einu manneskjuna í heiminum sem skildi sig. Jörundar var í fínum skóla, en ef hann væri uppi í dag hefði hann eflaust verið kallaður ofvirkur. Hann var ágætur að læra en undi sér ekki, vildi frekar vera við höfnina en sitja á skólabekk. Jörundur er holdgervingur einstaklingshyggjunnar og brennur fyrir að gera eitthvað merkilegt. Aðeins 14 ára er hann kominn á sjóinn og fer til Englands þar sem hann dvelur í fimm ár og 19 ára er hann kominn í Suðurhöfin. Hann vill koma til baka ríkur og frægur og hann er með alls konar viðskiptahugmyndir, sem kenna má við England, sem hann vill kynna heima í Danmörku.“

Ein af spurningunum, sem Einar ætlar að spyrja á sýningunni, er hver Jörundur hafi verið, þessi manngerð sem veður í verkin og veður af stað.

„Þetta er alltaf spurning með manneskjur, hvort þær eru eins og þær eru fæddar, eða verði eitthvað út frá því sem þær lenda í. Jörundur lendir í þessum málum hér á Íslandi, þegar hann gerir byltingu 1809 og lýsir Ísland sjálfstætt. Við það verða ákveðin tímamót í lífi hans og næsti kafli er í skugga byltingarinnar. Honum er refsað. Trampe greifi vill fá hann framseldan og hengja hann í Danmörku fyrir landráð. Hann á ekki afturkvæmt heim til sín í Danmörku og þess vegna er hann á þessu flandri um heiminn. Hann eyðir nokkrum árum í óreglu og þróar með sér spilafíkn. Meðan hann er í fangelsum kemst ró á líf hans og þar skrifar hann bæði bréf og bækur. Hann skrifast á við yfirvöld, vill fá dóma mildaða og láta hleypa sér út, en í kerfinu sjá menn að þarna er maður sem veit allt um löndin fyrir sunnan, til dæmis Tasmaníu, þar sem hann dvaldi. Jörundur uppgötvaði að Tasmanía er ekki skagi út úr Ástralíu heldur eyja, sem skipti miklu máli þá, því það stytti siglingaleiðir um marga daga. Jörundur er heillandi persóna og hann gerði margt stórmerkilegt. Til dæmis gerði hann drög að orðabók um tungumál frumbyggja í Tasmaníu, sem eru einu gögnin sem til eru um þeirra tungumál, því þeim var útrýmt.“

Lítil samúð með Nóru

Meðal þeirra spurninga sem Einar ætlar að velta upp á sýningunni er hvort við Íslendingar værum Englendingar ef bylting Jörundar 1809 hefði heppnast.

„Ég vona að fólk sé forvitið um þessar spurningar, því á þessum tíma var ekkert annað í stöðunni en að við Íslendingar yrðum undir einhverju stórveldi. Mér finnst áhugavert að velta því upp hvað hefði gerst ef við hefðum endað undir Englendingum.“

Einar segir margt áhugavert koma upp þegar líf Jörundar sé skoðað.

„Til dæmis þriðja og síðasta konan hans, hún Nóra, sem var frá Írlandi. Hún var miklu yngri en Jörundur og hann kynntist henni í fanganýlendunni þegar hann handtók hana, en hann komst þar í lögregluna. Mér finnst merkilegt að Nóra tilheyri afbrotaflokki á sama tíma og talað var um bófaflokka og óöld í Árnessýslu og Kampsránið var framið á Íslandi. Þegar Nóru er lýst í heimildum þá er mjög lítil samúð með henni. Hún var drykkfelld og fór mikið fyrir henni og var ekki við eina fjölina felld. Þegar baksaga hennar er skoðuð kemur í ljós að hún er mjög ung þegar hún verður ófrísk og ekki ólíklegt að henni hafi verið nauðgað. Barnið var tekið af henni og hún jafnaði sig aldrei á því. Hún er ráðin í vist á bóndabæ á Englandi þar sem hún stal nokkrum skildingum, og fyrir það fékk hún lífstíðardóm í Tasmaníu. Allir sjá hversu mikið ranglæti það er,“ segir Einar og bætir við að Jörundur hafi eytt miklum tíma í að skrifa ótal bréf og spyrjast fyrir um barnið hennar.

„Alltaf er eitthvað nýtt að koma fram tengt Jörundi og nýlega var sett fram kenning um að hann hafi verið samkynhneigður. Þetta er ekki alveg úr lausu lofti gripið, því Jörundur og grasafræðingurinn ungi, Sir William Hooker, sem kom með byltingamönnunum til Íslands, þeir voru nánir vinir. Þessir tímar buðu ekki upp á að menn gætu opinberlega verið samkynhneigðir, en Jörundur lýsir William vel og segir hann alltaf hafa verið að bjarga sér. Vináttan á milli þeirra var falleg, hvort sem þeir voru samkynhneigðir eða ekki, og William var þolinmóður við vin sinn. Hann er sá síðasti sem gefst upp á honum, en Jörundur varð mjög erfiður, eins og títt er um óreglusama menn.“