Heimsókn Helgi Árnason, t.v., hér með Júlíu Ísaksen sendiráðsritara og Geir Oddssyni aðalræðismanni.
Heimsókn Helgi Árnason, t.v., hér með Júlíu Ísaksen sendiráðsritara og Geir Oddssyni aðalræðismanni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Skák er skemmtileg og getur skilað mörgu góðu. Að því leyti áttum við Fjölnisfólk mikilvægt erindi til Grænlands,“ segir Helgi Árnason, formaður skákdeildar íþróttafélagsins Fjölnis í Grafarvogi í Reykjavík. Í sl.

„Skák er skemmtileg og getur skilað mörgu góðu. Að því leyti áttum við Fjölnisfólk mikilvægt erindi til Grænlands,“ segir Helgi Árnason, formaður skákdeildar íþróttafélagsins Fjölnis í Grafarvogi í Reykjavík. Í sl. viku heimsótti hópur félagsins Nuuk á Grænlandi í því skyni að tefla, kynna og kenna skák. Þeir Helgi og Nils Christian, formaður skákfélagsins í Nuuk, áttu m.a. fund með Lone Nukaaraq Möller, fræðslustjóra í Nuuk. Þeir afhentu henni drög að námskrá fyrir skák, sem þeir hvöttu til að tekin yrði inn í námskrá grunnskóla.

Grænlandsfarar Fjölnis, auk Helga, voru Róbert Lagermann, FIDE-meistari í skák, og þrír nemendur úr 9. bekk Rimaskóla. Þau eru Arnar Gauti Helgason, Aron Örn Sveinsson og Sóley Kría Helgadóttir sem hafa öll náð góðum árangri í skákíþróttinni og eru sterkar fyrirmyndir.

Skákin er rökræn og agar

„Ég var lengi skólastjóri í Rimaskóla og lagði þar mikla áherslu á skákina. Ég sá svo oft hvað skákin gaf nemendum mikið, til dæmis þeim sem fundu ekki fjölina sína sem skyldi í hefðbundnu skólastarfi eða íþróttum. Við taflborðið náðu krakkarnir í mörgum tilfellum að blómstra og virkja styrkleika sína. Raunar er skákin alveg frábær skóli eins og varðandi ögun og rökhugsun.

Þetta voru Grænlendingarnir líka alveg að kaupa,“ segir Helgi.

Við komuna til Grænlands tóku þau Geir Oddsson, aðalræðismaður Íslands í Nuuk, og Júlía Ísaksen sendiráðsritari á móti hópnum. ASK-grunnskólinn var heimsóttur og þar lagði Róbert Lagermann skákdæmi fyrir nemendur. Þá tefldu Rimaskólakrakkar við jafnaldra sína. Svo var efnt til skákmóts á torgi verslunarmiðstöðvarinnar Nuuk Center. Aukinheldur var litið inn hjá íslenska verktakafyrirækinu Ísak, en starfsmenn þess vinna nú við að reisa nýjan skóla í borginni. „Þetta var áhugaverð ferð og vonandi leiða þau skilaboð sem þarna voru lögð inn til einhvers,“ segir Helgi Árnason.

Hrókurinn er grunnur

Helgi getur þess að Geir, aðalræðismaður Íslands í Nuuk, og Þorbjörn Jónsson forveri hans hafi reynst Fjölnismönnum ómetanlegir við skipulag ferðarinnar. Fleiri hafi gert hið sama; allt fólk sem þekkir vel til í grænlensku samfélagi og styðji við skákstarfið. Þar hafi raunar verið lagður grunnur með starfi Hróksins – skákfélags þar sem Hrafn heitinn Jökulsson var í aðalhlutverki. sbs@mbl.is