Kristín Heimisdóttir
Kristín Heimisdóttir
Kristín Heimisdóttir: "Þar sem styrkur til tannréttinga hefur setið eftir á meðan kostnaður hefur hækkað hefur SÍ í raun sparað sér mikil útgjöld síðastliðin 20 ár."

Það var fyrir 20 árum að ég var stödd við framhaldsnám í Sviss og fékk fréttir að heiman. Ekki á facebook því það var ekki til, heldur með nýlegri tækni sem var tölvupóstur. Hafði gert faxtækið óþarft. Góður félagi tjáði mér að loksins hefði styrkur til tannréttinga hækkað úr 100 þúsundum í 150 þúsund og það væri nú aldeilis gott fyrir þá sem þyrftu á slíkri meðferð að halda. Þetta væri jú endurgreiðsla á um það bil þriðjungi kostnaðar og það munaði um minna. Nokkrum árum síðar hélt ég heim og kynntist fyrirkomulaginu hérlendis. Fyrir þá sem ekki þekkja til, þá greiða SÍ styrk til þeirra sem þurfa á tannréttingu að halda með föstum tækjum. Fullur styrkur er 150 þúsund krónur fyrir föst tæki í báða góma, en 100 þúsund fyrir þá sem þurfa einungis föst tæki í annan góminn. Styrkgreiðslan er heimil fram að 21. aldursári. Árlega eru um 1.800 einstaklingar sem þurfa á slíkum styrk að halda. Aðrar reglur gilda um alvarlegri tilfelli, eins og einstaklinga með klofinn góm/skarð í vör, þá sem þurfa á kjálkaskurðaðgerðum að halda og eru með mikla og erfiða tannvöntun.

En hvað hefur gerst á þessum tveimur áratugum? Laun hafa hækkað, leiga hefur hækkað, kostnaður við vörur og aðföng hefur hækkað og nú er verðbólgan farin af stað með tilheyrandi afleiðingum. Þessar hækkanir eru mælanlegar og vísitölur segja okkur hversu miklar breytingar hafa orðið. Vísitala neysluverðs mælir breytingar á kostnaði við aðföng og þjónustu. Vísitala launa mælir breytingar á reglulegum launum á íslenskum vinnumarkaði og sýnir almenna launaþróun. Á þessum tveimur áratugum hefur kostnaður við tannréttingameðferð hækkað vegna ofangreindra atriða. En styrkurinn, hann hefur staðið í stað. Sé hann uppfærður miðað við vísitöluhækkun ætti hann að vera um 400 þúsund krónur. Það myndi muna miklu fyrir þær barnafjölskyldur sem þurfa að leggja út fyrir kostnaði við tannréttingar.

Í dag er kostnaður SÍ um 220 milljónir vegna útgreiðslu á styrk til tannréttinga. Það væri vissulega mikil hækkun útgjalda SÍ til barnafjölskyldna að hækka styrkinn í 400 þúsund. En dæminu ætti að sjálfsögðu að snúa við. Þar sem styrkurinn hefur setið eftir á meðan kostnaður við allan rekstur hefur hækkað má líta þannig á að SÍ hafi sparað sér mikil útgjöld síðastliðin 20 ár. Kostnað, sem barnafjölskyldur hafa þurft að bera. Nú er lag fyrir heilbrigðisráðherra að sýna hugrekki og leiðrétta þetta og bæta þar með hag barnafjölskyldna. Til að forðast að slíkt gerist aftur er nauðsynlegt að tengja styrkinn við hækkun verðlags í landinu. Þetta ætti ekki að þurfa að vera flókið.

Höfundur er formaður Tannréttingafélags Íslands.