Undir Selfjalli Starfsmenn hugbúnaðarfyrirtækisins Tempo, Ragnheiður, Ólöf, Sigurður, Arnar og Dominique, voru í gær í árlegri frætínsluferð.
Undir Selfjalli Starfsmenn hugbúnaðarfyrirtækisins Tempo, Ragnheiður, Ólöf, Sigurður, Arnar og Dominique, voru í gær í árlegri frætínsluferð. — Ljósmynd/Kristinn H. Þorsteinsson
Landsátak Skógræktarinnar og Landgræðslunnar í söfnun og sáningu á birkifræi hefst í dag. Skógræktarfélag Eyfirðinga ríður á vaðið og býður fólki að koma í Garðsárreit í dag, klukkan 17, og tína þar fræ af birki.

Landsátak Skógræktarinnar og Landgræðslunnar í söfnun og sáningu á birkifræi hefst í dag. Skógræktarfélag Eyfirðinga ríður á vaðið og býður fólki að koma í Garðsárreit í dag, klukkan 17, og tína þar fræ af birki. Jafnframt verður boðið upp á verklega fræðslu í söfnun fræs og sáningu.

Er þetta þriðja árið sem landsátak í söfnun og sáningu birkifræs fer fram. Kristinn H. Þorsteinsson verkefnisstjóri segir að í ár verði áhersla lögð á að hvetja fólk á Norður-, Austur- og Suðausturlandi til að safna birkifræi. Þar er mest af fræi í ár. Minna er af fræi á birkitrjám á Suður- og Vesturlandi en eitthvað þó og er fólk á því svæði einnig hvatt til fræsöfnunar. Tekið er á móti fræi í öllum verslunum Bónuss og Olís og á starfsstöðvum Landgræðslunnar og Skógræktarinnar.

Á síðasta ári var áhersla lögð á að sá birkifræi í Selfjalli í landi Kópavogs. Kristinn segir að því verði haldið áfram en einnig verði sáð í Hekluskógaverkefninu og á Hólasandi og sveitarfélög séu að koma sterkar inn með lönd þar sem fólki er boðið að sá. „Stefnan er að við náum að auka skógarþekju birkiskóga upp í 5% fyrir árið 2030 en hlutfallið er 1,5% í dag. Það markmið næst aldrei nema með sameiginlegu átaki,“ segir Kristinn. helgi@mbl.is