Gróa fæddist á Akureyri 16. mars 1930. Hún lést 15. september 2022.

Foreldrar Gróu voru Sigfús Jónsson frá Vallanesi á Austur-Héraði, verslunarmaður hjá Iðunni á Akureyri, f. 2. september 1902, d. 14. maí 1950, og Brynhildur Þorláksdóttir frá Kotá, Akureyri, f. 28. júlí 1901, d. 8. apríl 1993.

Gróa var fyrst í röð fimm systkina en næst henni var Gréta, f. 1932, d. 2018, þá Bragi, f. 1935, d. 2003, Dóra Kristín, f. 1941, og Edda Sigríður, f. 1943.

Þann 10. október 1953 gengu þau í hjónaband Gróa og Sigmar Grétar Jónsson, f. 20. febrúar 1929 á Eskifirði, deildarstjóri hjá B.Í. (Brunabótafélagi Íslands, síðar VÍS). Foreldrar Grétars voru Jón Valdimarsson kennari í Reykjavík og Herdís Kristín Pétursdóttir frá Borðeyrarbæ í Hrútafirði.

Gróa og Grétar eignuðust þrjár dætur:

1) Brynhildur, f. 29. júlí 1954, maki Bragi Sigmar Sveinsson, f. 14. september 1954, Blönduósi. Börn þeirra eru: a) Grétar Örn, f. 1979, maki Eva Hrönn Jónsdóttir, f. 1982, þau eiga þrjú börn. b) Karen Íris, f. 1981, maki Ingvi Björn Bergmann, f. 1981, þau eiga þrjú börn.

2) Jónína Halla, f. 27. febrúar 1956. Börn: a) Íris Blöndal, f. 1985, maki Daði Rúnar Pétursson, f. 1985, þau eiga tvö börn. b) Ingunn Blöndal, f. 1986, maki Leó Kristberg Einarsson, f. 1984, þau eiga tvær dætur. c) Rebekka Blöndal, f. 1988, maki Gauti Stefánsson, f. 1976, þau eiga tvær dætur, fyrir á Gauti eina dóttur og einn fósturson.

3) Íris, f. 23. september 1964, d. 26. janúar 1982.

Gróa var alin upp á Akureyri og lauk prófi frá Gagnfræðaskóla Akureyrar 1947. 18 ára að aldri fór hún suður til Reykjavíkur og hóf nám við Hjúkrunarskóla Íslands, HSÍ, þaðan sem hún útskrifaðist í október 1953. Starfaði hún á Kleppsspítala á árunum 1953-1958 og sem deildarhjúkrunarkona þar frá 1958-1960.

Þá starfaði hún við Heilsugæslu Kópavogs frá árinu 1960 til ársins 1993 er hún hætti störfum en frá 1970 og til starfsloka starfaði hún þar sem hjúkrunarforstjóri og framkvæmdastjóri Heilsugæslustöðvarinnar og vann þar mikið frumkvöðla- og mótunarstarf í heilsugæslu ungs samfélags Kópavogsbæjar.

Gróa var varaformaður barnaverndarnefndar Kópavogs frá árinu 1962 til nokkurra ára.

Þá var hún og fulltrúi Rauðakrossdeildar Kópavogsbæjar frá 1970 til 1993. Hennar er minnst í bókinni Sunnuhlíð vegna starfa sinna og aðkomu að stofnun Sunnuhlíðar, hjúkrunarheimilis aldraðra í Kópavogi.

Gróa og Grétar bjuggu lengst af í Lyngbrekku í Kópavogi eða frá 1960. Upp úr síðustu aldamótum færðu Gróa og Grétar sig um set innan Kópavogsbæjar eða austar í bæinn, nánar tiltekið í Núpalind. Grétar lést 21. ágúst 2010 en Gróa bjó áfram í Núpalindinni til síðasta dags.

Útförin fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 22. september 2022, kl. 11.

Hlekkur á streymið er:

https://youtu.be/Qeddt5WOORI

Mér er í fersku minni þegar ég kom fyrst í Lyngbrekku 17 og hitti þau Gróu og Grétar í fyrsta sinn. Í þessari heimsókn var mér tekið opnum örmum með hlýhug og vinsemd og var þetta innlit hins tilvonandi tengdasonar upphaf afar ánægjulegra kynna sem hafa varað á fimmta áratug og aldrei borið skugga á.

Ekki leið langur tíma þar til ég var fluttur inn á heimili þeirra og leið mér fljótlega eins og væri einn af fjölskyldunni. Andrúmsloftið í Lyngbrekkunni var ekkert ólíkt heimilishaldinu í mínum eigin foreldrahúsum. Má segja að þar hafi ríkt hálfgerð sveitastemning þar sem allir settust saman að borðum við máltíðir, lambalærið á sunnudögum og þessar gömlu, góðu íslensku hefðir sem kynslóðirnar á undan höfðu verið svo duglegar að viðhalda voru í fullu gildi.

Ég áttaði mig fljótt á því að foreldrar Brynhildar höfðu mjög ákveðnar hugmyndir um hvernig hlutirnir ættu að vera hvað framtíðina varðaði. Þau brýndu fyrir okkur mikilvægi þess að eignast eigið húsnæði og koma þannig fótunum undir okkur. Þessi hugsunarháttur líkaði tilvonandi tengdasyni afar vel og þakka ég þeim Gróu og Grétari leiðsögnina.

Eftir að við síðan keyptum okkar fyrstu íbúð bjuggum við á Lyngbrekkunni um nokkurt skeið virka daga en fluttum okkur svo heim um helgar. Þetta var hluti af mörgum góðum leiðbeiningum þeirra um að fara vel með.

Gróa átti farsælan starfsferil og var metnaðarfull þegar starfsframi var annars vegar. Hún var hjúkrunarfræðingur að mennt og fékkst lengst af við stjórnunarstörf sem tengdust faginu. Hún var í krefjandi störfum sem ekki var mjög algengt á þeim tíma en naut mikils trausts samstarfsfólks síns enda var hún mörgum þeim kostum prýdd sem þurfti til starfsins. Hún var ákveðin og stóð fast á sínu þegar það átti við.

Við áttum mörg samtöl um þessa tíma og hreifst ég mjög af frásögnum hennar og ekki síst þeim stjórnunarstíl sem hún hafði tamið sér.

Úr fjarlægð hef ég getað fylgst með því hvað hún hélt ávallt góðu sambandi við fjöldann allan af fyrrverandi samstarfsmönnum og skólasystkinum.

Rétt fyrir fráfall Gróu höfðum við tvö farið út að borða á indverskum veitingastað í miðborg Reykjavíkur en Brynhildur hafði farið til Kaupmannahafnar fyrr um daginn. Þar lék hún á als oddi og átti ég með henni ógleymanlega kvöldstund. Ekki renndi ég grun í að þetta væri síðasta kvöldmáltíðin með Gróu, en fregnir af láti hennar bárust okkur á meðan við vorum úti.

Lífið er sjaldnast án áfalla og sá harmleikur átti sér stað að þau Gróa og Grétar misstu dóttur sína Írisi af slysförum. Sorgin sem fylgdi í kjölfarið var sár og hafði djúpstæð áhrif á þau.

Tíminn læknar ekki slíka sorg en það er hægt að lifa með henni. Nú eru þau öll saman á ný.

Ég kveð Gróu með söknuð í brjósti.

Bragi Sveinsson.