Louise Fletcher
Louise Fletcher
Bandaríska leikkonan Louise Fletcher, sem skapaði eina eftirminnilegustu persónu bandarískra kvikmynda, hjúkrunarkonuna Ratched í Gaukshreiðrinu (One Flew Over the Cuckoo's Nest), er látin, 88 ára að aldri.

Bandaríska leikkonan Louise Fletcher, sem skapaði eina eftirminnilegustu persónu bandarískra kvikmynda, hjúkrunarkonuna Ratched í Gaukshreiðrinu (One Flew Over the Cuckoo's Nest), er látin, 88 ára að aldri.

Fletcher var fertug en lítið þekkt þegar hún var ráðin í eitt aðalhlutverka þessarar þekktu kvikmyndar leikstjórans Milos Forman frá 1975. Hún fékk Óskarsverðlaun fyrir leik sinn, eins og aðalkarlleikarinn, Jack Nicholson, og leikstjórinn, Forman. Þá hreppti myndin Óskar sem sú besta það árið.

Bandaríska kvikmyndastofnunin hefur valið Ratched eitt versta illmenni kvikmyndasögunnar og næstgrimmustu kvenpersónuna, á eftir norninni í Galdrakarlinum frá Oz.

Fletcher lék í fjölmörgum kvikmyndum og vinsælum sjónvarpsþáttum. Meðal kvikmynda þar sem hún fór með stórt hlutverk má nefna Thieves Like Us í leikstjórn Roberts Altmans, Exorcist II: The Heretic, The Cheap Detective, Brainstorm og Flowers in the Attic.