Byggingarvinna Unnið við að byggja hús í Garðabæ. Kópavogskirkja, helsta tákn Kópavogs, sést í baksýn.
Byggingarvinna Unnið við að byggja hús í Garðabæ. Kópavogskirkja, helsta tákn Kópavogs, sést í baksýn. — Morgunblaðið/Hari
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Flest eða öll stéttarfélög iðnaðarmanna fara fram á 32 tíma vinnuviku í dagvinnu. Formaður VM segir að einfalda þurfi vinnuvikuna. Sér hann það fyrir sér að þegar krafan um 32 daga vinnuviku náist fram muni víða verða fjögurra daga vinnuvika en útfærslan geti þó farið eftir aðstæðum.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Flest eða öll stéttarfélög iðnaðarmanna fara fram á 32 tíma vinnuviku í dagvinnu. Formaður VM segir að einfalda þurfi vinnuvikuna. Sér hann það fyrir sér að þegar krafan um 32 daga vinnuviku náist fram muni víða verða fjögurra daga vinnuvika en útfærslan geti þó farið eftir aðstæðum.

VM, félag vélstjóra og málmtæknimanna, lagði kröfugerð sína um önnur atriði en launaliði fyrir viðsemjendur í Samtökum atvinnulífsins í síðustu viku. Stéttarfélög iðnaðarmanna eru í samfloti við gerð kjarasamninga.

Meðal helstu atriða í kröfugerðinni er krafan um að vinnuvikan verði 32 virkar vinnustundir. Það sama á við um önnur félög iðnaðarmanna, eftir því sem best er vitað.

Sömu kröfur í Evrópu

Guðmundur Helgi Þórarinsson, formaður VM, segir að menn geri sér grein fyrir því að svona kröfur náist stundum í áföngum. Minnir hann á að það hafi tekið 7 eða 8 ár að afnema dagvinnu á laugardögum og það hafi náðst fram í nokkrum áföngum.

Vinnuvika félaga í VM er nú komin niður í 36 stundir, samkvæmt gildandi kjarasamningum. Spurður um rök fyrir frekari styttingu segir Guðmundur að kröfur af þessu tagi séu uppi um alla Evrópu og félagsmenn horfi einnig til þess.

Segir Guðmundur að síðasta vinnutímastytting hafi verið útfærð með ýmsum hætti. Margir vinni áfram 8 stunda vinnudag en taki frí annan hvern föstudag, eða hætti á hádegi einn dag í viku. Fleiri útfærslur séu í gangi.

Hann segir að nú séu uppi kröfur um að vinnuvikan verði skipulögð betur í þessu ljósi. Þegar gengið verði lengra í vinnutímastyttingu muni það hafa kostnað í för með sér. Taka þurfi upp vaktir í verslunar- og þjónustufyrirtækjum sem opin eru alla daga vikunnar. Tekist hafi að leysa þau mál á næturvöktum spítalanna.

Skipuleggja vikuna betur

Guðmundur sér fyrir sér að þegar 32 stunda markið náist reyni menn að skipuleggja vinnuvikuna betur. Einfaldast sé að taka frí einn virkan dag, þannig að unnið verði 8 tíma í fjóra daga. Þetta verði þó að fara eftir aðstæðum í atvinnugreinum eða á vinnustöðum.

Guðmundur segir einnig að einfalda þurfi yfirvinnu, vegna ákvæða um mismunandi álag sem samið var um í síðustu samningum. VM fer fram á að yfirvinnuálag verði 1,15% fyrir alla yfirvinnu sem þýði að föst prósenta á dagvinnu verði 84%.

Þá eru gerðar kröfur um að aðfangadagur og gamlársdagur verði frídagar launamanna, ekki aðeins frá hádegi eins og nú er. Þá fara VM og önnur iðnaðarmannafélög fram á að frídagar sem lenda á helgi færist yfir á næsta virka dag. Þetta segir Guðmundur að sé gert í sumum löndum. Tímabært sé orðið að setja það í kröfugerð hér á landi.