Mark Ísak B. Jóhannesson skoraði sigurmarkið gegn Venesúela.
Mark Ísak B. Jóhannesson skoraði sigurmarkið gegn Venesúela. — Morgunblaðið/Eggert
Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Íslenska karlalandsliðið í fótbolta gæti í kvöld tryggt sér annað sætið í sínum riðli í B-deild Þjóðadeildar UEFA þegar það mætir Albaníu í Tirana í lokaleik keppninnar.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta gæti í kvöld tryggt sér annað sætið í sínum riðli í B-deild Þjóðadeildar UEFA þegar það mætir Albaníu í Tirana í lokaleik keppninnar.

Ísland hefur gert jafntefli í öllum þremur leikjum sínum í riðlinum en Albanir eru með eitt stig eftir eitt jafntefli og tvo ósigra. Ísrael vann riðilinn eftir 2:1-sigur gegn Albaníu á föstudaginn. Rússar urðu neðstir og féllu niður í C-deild eftir að þeim var vikið úr keppni vegna innrásarinnar í Úkraínu.

Sigur eða jafntefli í kvöld gæti reynst íslenska liðinu dýrmætt þótt efsta sætið og A-deildin séu úr sögunni. Góð úrslit gætu komið Íslandi í annan styrkleikaflokk áður en dregið er í riðla fyrir undankeppni EM 2024 í næsta mánuði, og eins gæti annað sætið í riðlinum gefið möguleika á umspili fyrir EM 2024, komist liðið ekki áfram úr undankeppninni á næsta ári.

Tíu þjóðir verða í 2. styrkleikaflokki. Þegar liggur fyrir að Austurríki, Bosnía, England, Frakkland, Ísrael og Wales verða þar en átta þjóðir, Albanía, Finnland, Ísland, Svartfjallaland, Noregur, Skotland, Serbía og Úkraína, eiga möguleika á hinum fjórum sætunum.

Arnar Þór Viðarsson verður í kvöld með sama leikmannahóp og gegn Venesúela á fimmtudaginn en Ísland vann þá 1:0-sigur í vináttuleik þjóðanna með marki frá Ísaki Bergmann Jóhannessyni úr vítaspyrnu. Eini vafinn er með Arnór Sigurðsson sem fór meiddur af velli snemma leiks þegar hann fékk högg á sköflunginn.

Fyrri leikur Íslands og Albaníu á Laugardalsvelli endaði 1:1. Áður vann Ísland fjórar og Albanía þrjár af fyrstu sjö viðureignum þjóðanna.