Í Vísnahorni á föstudag var sagt frá hinni nýju ljóðabók séra Hjálmars Jónssonar „Stundum verða stökur til“. Þar var vitlaust farið með eina vísu sem nauðsynlegt er að leiðrétta.

Í Vísnahorni á föstudag var sagt frá hinni nýju ljóðabók séra Hjálmars Jónssonar „Stundum verða stökur til“. Þar var vitlaust farið með eina vísu sem nauðsynlegt er að leiðrétta. Þetta er réttur texti:

„Eftir að Halldór Blöndal varð ráðherra fyrsta sinnið breyttist fasið og framgangan í þinginu:

Ábúðarmikill inni hér

athugar gögn og blöð.

Halldór í þungum þönkum

er þriðja daginn í röð.

Og Halldór svaraði:

Ýmsum finnst það ærugalli,

ekki er trúarþörfin rík:

Hlaupinn burt frá kjóli og kalli

klerkur lenti í pólitík.

Svo að áfram sé flett upp í bók Hjálmars:

Einhverju sinni fór landbúnaðarnefnd Alþingis austur á land. Á leiðinni í Sænautasel var degi tekið að halla og tími fyrir smástopp á kyrrlátum stað. Hjálmar orti:

Til byggða loks bifreiðin sneri,

að baki var jöklanna freri.

Sænautasel

Það sést orðið vel

Og í lestinni glamrar í gleri.

Á fyrstu árum prófkjaranna voru kynjakvótar settir inn sem breyttu stundum þeirri röð sem niðurstöður prófkjaranna mörkuðu. Hjálmar orti:

Nú er offramboð mætra manna

sem mörg nýleg dæmi sanna.

Fyrst er prófkjör og röðun,

síðan pólitísk böðun,

og svo grátur og gnístran tanna.

Eitt sinn gerði Hjálmar vorvísu út frá vísu sem var svolítið tvíræð, jafnvel ótvíræð, og var eftir Bjarna frá Gröf:

Dansa sprundin dátt í nótt,

dilla lund með sanni.

Langar stundir líða fljótt,

lifnar undir manni.

Hjálmar breytti henni í hástemmda hringhendu um vorið:

Vorið skrifar vorljóð kátt,

vekur hrif með sanni.

Allt sem lifir laufgast brátt,

lifnar yfir manni.

Hjálmar hefur orð á því að gæði vísna minna fari eftir því hve mikið ég halli höfðinu þegar ég sem og flyt vísur mínar:

Andinn svífur eins og fugl

upp til hæstu fjalla.

Þó eru ljóðin þvílíkt rugl

við 30° halla.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is