Hallinn er sem fyrr mestur í Reykjavík.
Hallinn er sem fyrr mestur í Reykjavík. — Morgunblaðið/Eggert
Tekjur sex stærstu sveitarfélaga landsins hækkuðu um 13% á milli ára á fyrri helmingi ársins. Þá hækkuðu skatttekjur um 9% en útgjöld um 9,2%. Þar af hækkuðu laun og launatengd gjöld um tæp 7%.

Tekjur sex stærstu sveitarfélaga landsins hækkuðu um 13% á milli ára á fyrri helmingi ársins. Þá hækkuðu skatttekjur um 9% en útgjöld um 9,2%. Þar af hækkuðu laun og launatengd gjöld um tæp 7%.

Þetta kemur fram í samantekt Sambands íslenskra sveitarfélaga á árshlutauppgjörum sex stærstu sveitarfélaganna, sem eru Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Reykjanesbær, Akureyri og Garðabær. Í þeim búa um 260 þúsund manns eða tæplega 70% landsmanna.

Heildartekjur sveitarfélaganna námu um 144,4 milljörðum króna og hækkuðu sem fyrr segir um 13% á milli ára. Framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga hækkuðu um rúm 16% á milli ára. Laun og launatengd gjöld námu um 82,3 milljörðum króna.

Heildarrekstrarniðurstaða felur í sér 11,5 milljarða króna tap af rekstri, sem er litlu minna tap en á sama tímabili í fyrra. Garðabær er eina sveitarfélagið sem ekki var rekið með halla en bærinn seldi frá sér byggingarrétt fyrir um þrjá milljarða á tímabilinu.

Líkt og fyrri ár var hallinn hlutfallslega mestur hjá Reykjavíkurborg, um 11,9% af tekjum. Veltufé frá rekstri Reykjavíkurborgar var neikvætt um 3,4 milljarða króna, sem er sambærilegt því sem það var á sama tíma í fyrra. Af þessum sex sveitarfélögum var hallinn minnstur hjá Reykjanesbæ, um 4,7% af tekjum, en var á sama tíma í fyrra 14,4%. Í tilfellum Kópavogsbæjar, Hafnarfjarðar og Akureyrar eykst hallinn lítillega á milli ára.