Sigur Katrín Ásbjörnsdóttir, sem skoraði eitt marka Stjörnunnar í gær, í baráttu við Unni Stefánsdóttur úr Þór/KA í fyrri leik liðanna í sumar.
Sigur Katrín Ásbjörnsdóttir, sem skoraði eitt marka Stjörnunnar í gær, í baráttu við Unni Stefánsdóttur úr Þór/KA í fyrri leik liðanna í sumar. — Morgunblaðið/Óttar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Besta deildin Gunnar Egill Daníelsson gunnaregill@mbl.

Besta deildin

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Stjarnan steig stórt skref í átt að því að tryggja sér annað sæti Bestu deildarinnar í knattspyrnu kvenna þegar liðið gerði góða ferð til Akureyrar í gær og vann heimakonur í Þór/KA 4:0 í Boganum í næstsíðustu umferð deildarinnar. Annað sætið gefur sæti í undankeppni Meistaradeildar Evrópu.

Stjarnan fór með sigrinum upp fyrir Breiðablik og er með einu stigi meira en Blikar fyrir lokaumferðina, sem verður leikin í heild sinni næstkomandi laugardag, 1. október. Stjarnan fær þar Keflavík í heimsókn og Breiðablik mætir Þrótti úr Reykjavík í Kópavoginum. Stjörnukonur eiga því góða möguleika á að tryggja sér Meistaradeildarsætið um næstu helgi.

Liðið er taplaust í deildinni í síðustu átta leikjum, þar sem fimm leikir hafa unnist og þremur lyktað með jafntefli. Síðasta deildartapið kom hinn 14. júní gegn andstæðingum næstu helgar, Keflavík.

Í leiknum í gær varð strax ljóst í hvað stefndi þar sem Stjörnukonur voru staðráðnar í að sækja öll stigin þrjú.

Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir kom Stjörnunni yfir snemma leiks og Heiða Ragney Viðarsdóttir og Katrín Ásbjörnsdóttir bættu svo við mörkum áður en fyrri hálfleikurinn var úti. Staðan því 3:0 í leikhléi.

Í síðari hálfleik bætti Aníta Ýr Þorvaldsdóttir við fjórða markinu og öruggur sigur því niðurstaðan.

Athygli vakti að Audrey Baldwin, markvörður HK, stóð í marki Stjörnunnar í gær en félagið fékk undanþágu frá KSÍ til þess að fá hana að láni vegna meiðsla Chanté Sandiford aðalmarkvarðar.