[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hulda Elma Eysteinsdóttir fæddist 27. september 1982 í Reykjavík en er alin upp í Neskaupstað þar sem hún var umvafin stórfjölskyldunni.

Hulda Elma Eysteinsdóttir fæddist 27. september 1982 í Reykjavík en er alin upp í Neskaupstað þar sem hún var umvafin stórfjölskyldunni.

„Ég fór mikið í sveitina til föðurömmu minnar en ég vildi ekki dvelja of lengi í einu frá lífinu heima í Neskaupstað. En ég á margar góðar minningar úr sveitinni og ég elskaði að vera úti í náttúrunni þar, þar sem við frændsystkinin vorum með gullabú og endalaust af skemmtilegum stöðum til að leika á. Gullabú var staður þar sem við söfnuðum skemmtilegum og fallegum hlutum eins og t.d. fallegum steinum, blómum og gömlum dýrabeinum.“

Elma gekk í Nesskóla og svo stundaði hún nám við Verkmenntaskóla Austurlands. Hún lauk síðar tölvu- og bókhaldsnámi frá Tölvuskólanum Þekkingu. „Ég starfaði aldrei því tengt þar sem ég hef sjaldan getað setið kyrr lengi í einu. Árið 2010 lauk ég einkaþjálfaranámi frá ÍAK og hefur það nám nýst mér vel. Árið 2018 fór ég í jóganám sem var sennilega með betri ákvörðunum sem ég hef tekið í lífinu.“ Á þessu ári lauk Elma markþjálfanámi frá Evolvía.

„Ég eignaðist þrjú börn á rétt rúmum þremur árum, tók þriggja ára pásu og þá kom „örverpið“. Ég var þá komin með fjögur börn, 28 ára gömul og kallinn mikið á sjó svo ég var því meira og minna heimavinnandi á meðan þau voru lítil. Eftir að þau eltust fór ég að bæta við mig meiri og meiri þjálfun, styrktarþjálfun, mömmuleikfimi, blakþjálfun og einkaþjálfun.“

Þjálfun hefur verið helsta starf Elmu þar til hún fór í pólitíkina núna í vor og situr hún í bæjarstjórn Akureyrarbæjar. „Ég er samt ennþá að þjálfa 60+-hópana á Bjargi sem eru forréttindi að fá að þjálfa, ég tímdi ekki að hætta með þau. Annars lagði ég alla þjálfun til hliðar í vor. Mér þykir nýja verkefnið mjög spennandi. Það er ekki komin mikil reynsla á þetta hjá mér. Eitt er víst að það er nóg af hlutum að setja sig inn í, sem er bara gaman.“ Elma er formaður velferðarráðs og situr í fræðslu- og lýðheilsuráði.

Þegar Elma var í fyrsta bekk í framhaldsskóla fékk hún Hvatningarverðlaun Forseta Íslands fyrir árangur sinn í íþróttum. „Íþróttir og þá sérstaklega blak hafa alltaf átt hug minn og hjarta.“ Hún hefur orðið þrefaldur meistari með þremur félagsliðum, Þrótti Neskaupstað, Þrótti Reykjavík og KA, og í heildina hefur hún unnið 17 meistaraflokkstitla. Hún byrjaði A-landsliðsferil 17 ára gömul og fór í sitt síðasta verkefni árið 2019. „Minn landsliðsferill spannaði því 20 ár en með löngum pásum inn á milli. Ég ætlaði mér að taka fram blakskóna í vetur til að ná tímabili með dóttur minni sem er að spila með KA en ég fann fljótt að líkaminn var ekki alveg til í það sama og hausinn og ákvað því að halda mig við hlaupin sem ég hef algjörlega kolfallið fyrir samhliða því að spila öldungablak með Krákunum.“

Elma hefur stundað utanvegahlaup síðustu 2-3 árin, hún hefur hlaupið Laugaveginn, Súlur Vertical, Hengil og Austur Ultra, allt svokölluð últrahlaup. Þau hjónin fara mikið á fjallaskíði og gönguskíði. „Góðar fjallaskíðaferðir eru í miklu uppáhaldi hjá okkur en sú ferð sem stendur upp úr er ferð upp á Hvannadalshnjúk sem við fórum með vinafólki okkar árið 2020. Krakkarnir eru öll á fullu í íþróttum, fótbolta, handbolta og blaki, og ég elska að fylgja þeim eftir í þeirra verkefnum.“

Fjölskylda

Eiginmaður Elmu er Sigurður Grétar Guðmundsson, f. 21.8. 1981, skipstjóri. Þau eru búsett í þorpinu á Akureyri. Foreldrar Sigurðar eru hjónin Guðmundur Friðrik Sigurðsson, f. 8.2. 1953, sjómaður, og Auður Hansen, f. 15.9. 1954, bókari. Þau eru búsett á Akureyri.

Börn Elmu og Sigurðar eru: Amelía Ýr, f. 27.4. 2004; Sonja Björg, f. 26.1. 2006, þær eru báðar í Menntaskólanum á Akureyri; Guðmundur Steinn, f. 25.6. 2007, og Styrmir Lár, f. 24.10. 2010, báðir í Glerárskóla.

Bræður Elmu eru Atli Rúnar Eysteinsson, f. 3.2. 1985, stýrimaður, búsettur í Kópavogi, og Jón Gunnar Eysteinsson, f. 3.7. 1986, byggingarfræðingur, búsettur í Reykjavík.

Foreldrar Elmu eru Petrún Björg Jónsdóttir, f. 9.5. 1962, íþróttakennari, búsett í Reykjavík í dag og er gift Sólrúnu Birnu Færseth, f. 19.11. 1958, og Eysteinn Gunnarsson, f. 23.3. 1960, sjómaður, búsettur í Neskaupstað.