Guðríður Guðmundsdóttir (Didda) fæddist í Reykjavík 16. október 1930. Hún lést á Landakoti 17. september 2022.

Foreldrar hennar voru Guðmundur Halldórsson og Gróa Ólafsdóttir Thorlacius.

Bræður hennar voru Gunnar og Ólafur báðir látnir og Þorgeir.

Eiginmaður Guðríðar er Ragnvald Larsen f. 5 júní 1931. Börn þeirra eru Garðar, Gróa Erla, Anna María og Kristín Ragnhild. Barna- og barnabarnabörn eru 14 talsins.

Guðríður var fædd og uppalin í Vesturbæ Reykjavíkur.

Hún giftist Ragnvaldi 25. júní 1955. Þau bjuggu mestan sinn búskap í Kópavogi. Hún stundaði nám við Kvennaskólann og Húsmæðraskólann í Reykjavík.

Sem ung kona vann hún hjá Ó. Johnsson og Kaaber. Þegar barnauppeldi sleppti hóf hún strörf hjá Skóverslun Þórðar Péturssonar og seinna hjá Tollstjóra Reykjavíkur.

Útför Guðríðar fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 27. september 2022, klukkan 13.

Í dag verður mín yndislega Didda, tengdamamma og kær vinkona kvödd hinstu kveðju.

Fyrir tæplega 40 árum þegar ég kom með Garðari mínum inn á heimili fjölskyldu hans á Nýbýlaveginum var mér strax tekið opnum örmum af Diddu og Ragnvaldi. Heimili þeirra var oft gestkvænt og margar gleðistundir áttum við þar. Didda var mikil fjölskyldumanneskja og var ætíð boðin og búin að hjálpa til. Hún fylgdist vel með framgangi fjölskyldunnar og var annt um hag allra. Dætur okkar Garðars nutu góðs af umhyggju ömmu sinnar og voru þær hændar að henni og afa sínum enda voru þau einstaklega samhent í hlutverkum sínum.

Á árunum þegar við fjölskyldan bjuggum í Kaupmannahöfn voru Didda og Ragnvald dugleg að fljúga yfir til okkar með töskurnar fullar af fiski og fleiru íslensku góðgæti sem kom sér vel. Þá var nú hátíð í bæ og góðar minningar frá þessum tíma.

Didda var kraftmikil og virk kona, alltaf til í allt, ferðalög innan lands og utan og hvers kyns mannamót. Og gat brugðið á leik, eftirminnilegt er þegar hún brá sér í hlutverk undirleikara hjá bræðrum sínum þegar þeir sungu Kattadúettinn á ættarmóti stórfjölskyldunnar.

Ég er innilega þakklát Diddu fyrir samfylgdina, vináttuna og hjálpsemi hennar.

Sæunn Lilja.

Elsku amma. Við systurnar eigum svo margar góðar minningar um góðar stundir með þér og afa. Ferðalögin skemmtilegu sem við fórum í með ykkur afa, þar sem ferðirnar til Þingvalla og á veitingahúsið Hafið bláa standa upp úr. Og öll jólin sem við héldum með þér og afa, það voru alltaf bestu jólin. Við bökuðum líka oft saman fyrir jólin og kökurnar voru alltaf gómsætar sem við fengum hjá ykkur á Nýbýlaveginum.

Þú varst alltaf til staðar og tilbúin að hjálpa okkur og fyrir það erum við mjög þakklátar. Takk fyrir allar stundirnar sem við áttum saman elsku amma Didda.

Íris, Hrefna Guðríður og María Aldís.

Elsku amma Didda.

Hrein í máli, hlý í svörum

hugljúf orð af þínum vörum.

góðvild þína í anda örum

alltaf mátti heyra og sjá,

gott var þér að gista hjá.

(Guðrún Jóhannesdóttir)

Takk fyrir allt.

Dagbjört, Haukur,

Írena Líf og

Lovísa Metta.