Guðný Kristjánsdóttir fæddist 18. janúar 1941 í Vestmannaeyjum. Hún lést á hjúkrunarheimili Hrafnistu í Kópavogi, 19. september 2022.

Hún var elsta dóttir hjónanna Kristjáns Guðmundssonar, f. 2. desember 1911, d. 16. apríl 1979, og Fjólu Gísladóttur, f. 5. júlí 1918, d. 5. nóvember 1991. Systkini Guðnýjar eru: Guðmundur, f. 14. september 1937, d. 2. maí 1977, Jóhanna Guðrún, f. 11. maí 1943, Sigurbjörg, f. 18. apríl 1945, d. 27. nóvember 2020, Jóna, f. 6. júlí 1948, d. 31. mars 2021, Gísli, f. 7. nóvember 1949, og Anna Margrét, f. 16. júní 1952.

Guðný fluttist um 6 ára aldurinn með foreldrum sínum og systkinum að Harrastöðum, þar sem þau bjuggu þangað til að þau fluttu að Háagerði þar sem fjölskyldan bjó sér hlýlegt heimili. Hún gekk í barnaskóla Skagastrandar og þaðan lá leið hennar í Hlíðardalsskóla þar sem hún tók landspróf. Í Hlíðardalsskóla kynntist Guðný fyrri manni sínum, Baldri F. Guðjónssyni, f. 7. mars 1942. Þau eignuðust 3 börn. Þau eru: Fjóla, f. 3. september 1961, Gefn, f. 13. ágúst 1962, og Kristján Freyr, f. 1. júlí 1965. Seinni eiginmaður Guðnýjar var Guðjón Sveinsson, f. 4. desember 1946. Sonur þeirra er Guðjón Ásgeir, f. 10. júní 1971. Barnabörn Guðnýjar eru 11 og barnabarnabörnin 13.

Guðný var dugnaðarforkur og sannaðist þar viðkvæðið: Margur er knár þó hann sé smár. Hún vann aðallega við skrifstofustörf þó hún starfaði einnig við margt annað, eins og t.d við þrif, að steikja kleinur o.fl. til að ná endum saman, enda voru börnin henni allt. Þar sem hún var einstæð móðir þurfti hún að vinna stundum á 3 stöðum til að endar næðu saman. Hún tók mjög virkan þátt í starfi Félags einstæðra foreldra um tíma og var m.a. formaður þar. Hún starfaði m.a. á Hagstofunni, hjá Hagtryggingu, hjá lögmönnunum Ingvari Björnssyni og Pétri Kjerúlf í mörg ár. Þá starfaði hún hjá Húsameistara ríkisins, á skrifstofu aðventista og víðar. Guðný var einstaklega listræn og handlagin og ætla má að málverk og/eða teikningar eftir hana séu á veggjum flestra systkina hennar, barna, barnabarna og systkinabarna. Alveg sama hvað hún tók sér fyrir hendur, tókst henni að búa til listaverk úr því, hvort sem það voru hannyrðir, saumaskapur eða sköpun með leir. Allt lék í höndunum á henni. Einnig var hún góður penni. Hún samdi fjölda ljóða um systur sínar, börnin sín og sjálfa sig. Þá hafði hún einstaklega fallega rithönd og var snillingur við skrautskrift.

Útför Guðnýjar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 27. september 2022, klukkan 13.

„Margur er knár þótt hann sé smár.“

Þessi orð lýsa ömmu einstaklega vel. Amma var klár kona sem alltaf var hægt að leita til. Hún gaf sér alltaf tíma til að spjalla og sýndi einlægan áhuga á öllu því sem maður var að gera í lífinu.

Það mætti segja að amma hafi lifað fyrir systur sínar, börnin sín, barnabörn og barnabarnabörn. Það skein svo fallega úr augunum á henni þegar hún hitti barnabörnin, alveg eins og ég hef alltaf fundið þegar hún hitti mig. Amma hafði gaman af bókmenntum og var alltaf dugleg að lesa. Það áttum við meðal annars sameiginlegt. Það var gaman að ræða um hinar ýmsu bækur og heyra hvað amma hafði að segja um söguna. Það var þó enginn möguleiki að halda í við hana því hún var oftast búin að lesa bókina tvisvar ef ekki þrisvar þegar ég var rétt svo hálfnuð.

Á síðustu árum höfum við fjölskyldan nokkrum sinnum farið til að kveðja ömmu. Baráttuamma var þó ekki á því að kveðja þennan heim strax og náði sér alltaf, allavega að hluta. Síðustu veikindi settu þó strik í reikninginn og var hennar tími kominn. Það er sárt að kveðja þig, elsku amma, en ég veit að hvíldin var þér kærkomin. Ég elska þig og þakka fyrir allt sem þú kenndir okkur. Takk fyrir þinn einlæga og ástríka kærleik, elsku amma.

Sofðu unga ástin mín,

– úti regnið grætur.

Mamma geymir gullin þín,

gamla leggi og völuskrín.

Við skulum ekki vaka um dimmar nætur.

(Jóhann Sigurjónsson)

Megir þú hvíla í friði.

Erla Bogadóttir.

Elsku amma mín. Ég vildi óska þess að ég gæti hringt í þig frekar en að vera að skrifa þessi orð en það er víst enginn sími á himnum. Í staðinn fæ ég að hlýja mér við minningar um heimsins bestu ömmu sem gerði allt sem hún gat til þess að okkur öllum liði vel.

Ég man þegar ég var yngri og kom til þín á sumrin, alltaf þurftir þú allra fyrst risaknús til þess að fylla á bensínið þitt því þú varst alveg að verða bensínlaus af því þú hafðir ekki fengið Írisarknús svo lengi. Mikið gæfi ég til þess að fá að fylla á mitt bensín núna með hlýju og góðu ömmuknúsi.

Ég ætlaði alltaf að vera alveg eins og þú þegar ég yrði stór og ég vona að mér takist að vera þó ekki væri nema bara hálfur sá dugnaðarforkur sem þú varst.

Ég er svo þakklát fyrir að börnin mín fengu að kynnast þér og ég mun vera dugleg að segja þeim sögur af langömmu sem elskaði þau svo heitt og var svo stolt af þeim.

Engin orð fá því lýst hversu mikilvæg þú varst mér en ég vona að þú hafir vitað það.

Takk fyrir að hafa alltaf verið tilbúin til að vera til staðar fyrir okkur, ég veit að lífið er ekki alltaf dans á rósum en alltaf gerðir þú allt þitt til að reyna að láta mitt líf vera það.

Þín

Íris.

Ást þín

umvefur allt.

Mjúku orðin þín

hlýja heiminum.

Bros þitt

breytir stjörnu

í sól.

(Ástin – Hulda Ólafsdóttir)

Til langömmu

Eva Ásmundsdóttir.