Krampar Frá vinstri Magnús Þór Magnússon, Svanberg Þór Sigurðsson, Luis Diogo og Oddur Sigmundsson.
Krampar Frá vinstri Magnús Þór Magnússon, Svanberg Þór Sigurðsson, Luis Diogo og Oddur Sigmundsson.
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Hljómsveitin Krampar sendi frá sér sína fyrstu breiðskífu 3. september síðastliðinn og ber hún titilinn Seizures. Alda Music sér um drefingu.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Hljómsveitin Krampar sendi frá sér sína fyrstu breiðskífu 3. september síðastliðinn og ber hún titilinn Seizures. Alda Music sér um drefingu.

Magnús Þór Magnússon er helsti laga- og textahöfundur sveitarinnar sem hann smalaði saman til plötugerðar í hljóðveri. Magnús leikur á gítar og syngur, Svanberg Þór Sigurðsson sér um trommuleik, Oddur Sigmundsson plokkar bassa og Luis Diogo leikur á gítar. Platan var tekin upp í hljóðveri FÍH, Stúdíó helvíti og Studio Bambus og voru upptökustjórar þeir Luis Diogo og Helgi Durhuus. Um annan hljóðfæraleik sáu Gísli Þór Ingólfsson sem lék á píanó og hljómborð og Sigursteinn Ingvar Rúnarsson sem lék einnig á hljómborð og söng auk þess bakraddir.

Seizures er sex laga plata, textar allir á ensku nema einn og meginþemað uppgjör við erfiðan tíma. Magnús greindist með æðaflækju í heila, var með krampa í líkamanum og þurfti að gangast undir 14 tíma laseraðgerð á heila í London árið 2014. Hafði það mikil áhrif á líf Magnúsar og þurfti hann að byggja sig upp eftir aðgerðina og fara tvisvar í endurhæfingu. Í dag er hann laus við flækjuna og heppnaðist aðgerðin því vel.

Lækkaði gítarinn í D

Blaðamaður sló á þráðinn til Magnúsar og spurði hann fyrst út í tónlistina sem við fyrstu hlustun virðist einfaldlega falla í flokkinn rokk. Magnús var á árum áður í hljómsveitinni Morgan Kane en segist eftir hana hafa ákveðið að lækka gítarinn niður í D og fara að spila rokk. Um tónlist Krampa segir hann hana meira „mood“, eitt lagið pönkað, tvö eða þrjú rokkuð og eitt poppað, svo dæmi séu nefnd. „Við erum bara rokkhljómsveit,“ bætir hann við til einföldunar.

Magnús hefur ekki tónlistina að aðalstarfi heldur starfar hann sem rennismiður en tónlistin er þó hans mesta ástríða og áhugamál. Og platan Seizures tók sinn tíma, um eitt og hálft ár, að sögn Magnúsar.

Var sagt að hann gæti mögulega dáið eða lamast

„Þetta var með því versta sem hefur komið fyrir mig í lífinu, mjög líklega það versta,“ segir Magnús um æðaflækjuna, aðgerðina og óvissuna í kjölfar hennar og eftirköstin. „Allar lagasmíðarnar eru út frá þessari aðgerð og öllu sem gerðist fyrir og eftir hana. Ég hef þarna þrjú ár þar sem mér er sagt að ég geti mögulega dáið eða lamast. Mér var líka sagt að ég myndi kannski lamast á hægri hlið líkamans eftir þrjú ár,“ segir Magnús. Við minnsta höfuðverk hafi kvíðinn því læst klónum í hann og tíminn liðið löturhægt. Segist Magnús hafa fundið sálarró við tónsmíðar og textaskrif og platan smám saman orðið til.

Reiði og sjálfsvorkunn

Magnús segir mikla reiði hafa kraumað í sér á þessum óvissutíma sem hafi skilað sér út í tónlistina og einnig sjálfsvorkunn. En á plötunni má líka finna fallegri lög og rólegri, segir hann.

„Síðasta lagið er fallegt, skilaboð til dætra minna. Maður vissi ekkert hvað myndi gerast á þessum þremur árum og ég man að ég samdi þann texta á þessum tíma. Þessi þrjú ár voru rosalega erfiiður tími í mínu lífi,“ segir Magnús og að hann hafi tekið þá ákvörðun að láta óttann ekki ná tökum á sér og stjórna lífi sínu.

Hann er spurður að því hvort fleiri plötur muni koma frá Krömpum og segist hann ekki geta svarað því að svo stöddu, tíminn verði að leiða það í ljós. Þeir félagar hafi skilað plötunni frá sér sáttir og mikil vinna að baki. „Það verður einhver spilamennska á næstunni,“ segir hann um framhaldið hjá Krömpum og útgáfutónleikar eru fyrirhugaðir þótt ekki sé kominn tíma- eða staðsetning.

Magnús nefnir að lokum að honum líði vel í dag. „Ég er kominn út úr þessu öllu saman, þetta heppnaðist og ég lifi bara góðu lífi,“ segir hann og að hann sé mjög stoltur af plötunni sem Krampar bjuggu til.