Sjávarflóð Sjór gekk á land á Akureyri og flæddi yfir götur og inn í hús.
Sjávarflóð Sjór gekk á land á Akureyri og flæddi yfir götur og inn í hús. — Morgunblaðið/Þorgeir
Aftakaveður var um helgina á Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og á Austurlandi. Tjón upp á tugi ef ekki hundruð milljóna króna hefur orðið á eignum og innviðum víðsvegar um landið vegna þessa.

Aftakaveður var um helgina á Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og á Austurlandi.

Tjón upp á tugi ef ekki hundruð milljóna króna hefur orðið á eignum og innviðum víðsvegar um landið vegna þessa. Rafmagnsleysi hrjáði auk þess stóran hluta Norðurlands á meðan veðrið gekk yfir. Þá var einnig rafmagnslaust á Austurlandi.

Karen Ósk Lárusdóttir, verkefnastjóri hjá Landsbjörg, sagði í samtali við mbl.is í gær að í það minnsta hefðu útköll björgunarsveita verið um 200 yfir helgina og þá voru um 350 björgunarsveitarmenn að störfum á landinu öllu í gær og í fyrradag.

Austurland verst úti

Miklar skemmdir urðu á íbúðarhúsnæði og ökutækjum á Reyðarfirði. Foktjón varð víða, bílrúður og gluggar brotnuðu og þakskemmdir eru umfangsmiklar, einkum á iðnaðarhúsnæði.

Meðan á óveðrinu stóð fór Ragnar Sigurðsson, bæjarfulltrúi á Reyðarfirði, út til að taka myndir og kanna ástandið og sagði hann í samtali við mbl.is í fyrradag að svæðið væri algert hamfarasvæði.

„Það er aftakaveður hérna, einn bragginn á Stríðsminjasafninu hrundi, mikið tjón hefur orðið á Bykoskemmunni í miðbænum. Þá eru miklar skemmdir á Mjóeyrarhöfninni og slökkvistöðinni. Sama gildir um húsnæði Eimskips.“

Á Seyðisfirði hrundi Angró, sögufrægt bryggjuhús á svæði Tækniminjasafns Austurlands, í fyrradag. Helgi Haraldsson, formaður björgunarsveitarinnar Ísólfs, taldi hrun Angró vera stærsta tjónið sem veðurofsinn olli þann daginn, en að auki var mikið um brotnar bílrúður og ýmiss konar foktjón auk þess sem bátur hafði losnað frá bryggju.

Þá urðu miklar skemmdir á slökkvistöðinni á Hrauni í Fjarðabyggð er vindhviða skall á stöðinni. Sigurjón Valmundsson, slökkviliðsstjóri slökkviliðs Fjarðabyggðar, sagði í samtali við mbl.is í gær að sem betur fer slasaðist enginn.

„Það kom einhver hvellur þarna og það fóru nokkrar hurðir af annarri hliðinni og þær skutust inn í hús. Út af þrýstingnum sprakk veggurinn út hinum megin í húsinu.“

Sjávarflóð á Akureyri

Ástandið á Norðurlandi eystra var slæmt þann daginn sem óveðrið geisaði á landinu vegna mikils sjávarflóðs inn í húseignir á svæðinu.

Greint var frá því á mbl.is í fyrradag um hálfþrjúleytið að sjór hefði gengið á land á Akureyri og flæddi yfir götur og inn í hús á Eyrinni. Þar sem staðan var hvað verst var um 15 til 20 sentimetra djúpt vatn inni í húsunum sem að sögn Aðalsteins Júlíussonar, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni á Akureyri, voru aðallega atvinnuhúsnæði.

„Það eru fiskvinnslur þarna niður frá, vélsmiðjur, söluaðilar með búvélar og það er allur fjárinn þarna niður frá, þannig að það eru mikil verðmæti undir,“ sagði hann í samtali við mbl.is í fyrradag.

Þá skemmdust bílar á Möðrudalsöræfum en Friðrik Árnason, sem kom að bílunum er hann átti leið hjá, lýsti aðstæðum þar sem sláandi. Sagði hann alla bílana vera skemmda.