Sjóeldi Ísafjarðardjúp er mjög stórt. Þar hafa fyrirtækin þó raðað sér upp þannig að erfitt er að finna ný pláss
Sjóeldi Ísafjarðardjúp er mjög stórt. Þar hafa fyrirtækin þó raðað sér upp þannig að erfitt er að finna ný pláss — Morgunblaðið/Hákon Pálsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Hafrannsóknastofnun og Matvælastofnun vekja athygli á því að áform Hábrúnar ehf. um ný eldissvæði fyrir regnbogasilung í Ísafjarðardjúpi stangist á við ákvæði reglugerðar um að fimm kílómetrar skuli vera á milli eldissvæða. Fyrir eru til staðar eða í ferli fjöldi kvíabóla annarra fyrirtækja í Djúpinu. Skipulagsstofnun segir að taka þurfi á því máli og fjölda annarra í umhverfismatsskýrslu.

Sviðsljós

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Hafrannsóknastofnun og Matvælastofnun vekja athygli á því að áform Hábrúnar ehf. um ný eldissvæði fyrir regnbogasilung í Ísafjarðardjúpi stangist á við ákvæði reglugerðar um að fimm kílómetrar skuli vera á milli eldissvæða. Fyrir eru til staðar eða í ferli fjöldi kvíabóla annarra fyrirtækja í Djúpinu. Skipulagsstofnun segir að taka þurfi á því máli og fjölda annarra í umhverfismatsskýrslu.

Hábrún hefur alið þorsk og silung í sjókvíum í Skutulsfirði í tuttugu ár og hefur nú fengið leyfi fyrir framleiðslu á 700 tonnum af regnbogasilungi og þorski. Hábrún hyggst auka eldi sitt og áætlar að hefja eldi á 11.500 tonnum af regnbogasilungi í kvíum á fjórum stöðum í Ísafjarðardjúpi, þ.e. í Hestfirði, Hnífsdal og Naustavík og Drangsvík á Snæfjallaströnd. Hefur fyrirtækið kynnt matsáætlun fyrir þessi áform. Skipulagsstofnun hefur, að fengnum umsögnum, lagt fram ábendingar í 19 liðum sem hún segir að fyrirtækið þurfi að taka tillit til við vinnslu og framsetningu umhverfismatsskýrslu.

Fjarlægðarmörk verði virt

Í umsögn Hafrannsóknastofnunar kemur fram að fjarlægð milli eldissvæða ótengdra aðila í Ísafjarðardjúpi sé allt of lítil og í raun ekki gerð grein fyrir nákvæmri fjarlægð milli svæða í matsáætlun. Fram kemur að krafan um 5 kílómetra lágmarksfjarlægð milli eldissvæða sé gerð vegna hættu á því að sjúkdómar dreifist á milli eldissvæðanna. Nefnir Hafró að laxa- og fiskilús geti borist á milli svæða sem og ISA-veiran sem getur valdið blóðþorra. Matvælastofnun bendir sömuleiðis á ákvæði um lágmarksfjarlægð á milli eldissvæða.

Í svörum Hábrúnar kemur fram að til þess að auðvelda úrlausn mála vegna fjarlægðar á milli óskyldra aðila muni Hábrún leggja fram valkosti um fjögur ný sjókvíaeldissvæði auk þess sem núverandi eldissvæði félagsins í Skutulsfirði verði stækkað. Félagið bendir jafnframt á að umsóknir Arctic Fish og Arnarlax geri ráð fyrir því að kvíar fyrirtækjanna verði innan 5 km frá eldissvæði Hábrúnar í Skutulsfirði. Matvælastofnun geti því hafnað umsóknum fyrirtækjanna um þessi svæði og myndi það tryggja Hábrún fullnægjandi athafnarými við Skutulsfjörð og næsta nágrenni.

Niðurstaða Skipulagsstofnunar er sú að Hábrún þurfi í umhverfismati að gera grein fyrir og leggja mat á samlegðaráhrif núverandi og fyrirhugaðs fiskeldis í Ísafjarðardjúpi. Hafa þurfi í huga forsendur til að víkja frá meginreglunni um 5 km fjarlægð milli eldissvæða, áhrif á botndýralíf, smitsjúkdóma, laxa- og fiskilús, villta stofna og aðrar sjávarnytjar. Leggja þurfi fram spá um líklega dreifingu smitsjúkdóma og fiski- og laxalúsar frá eldissvæðum fyrirhugaðs eldis, byggt á niðurstöðum mælinga á yfirborðsstraumum. Meta þurfi áhættu af þeim þáttum fyrir villta laxfiska í Ísafjarðardjúpi og á Vestfjörðum, svo og möguleg áhrif á eldi annarra fyrirtækja. Jafnframt þurfi að gera grein fyrir því hvernig Hábrún hyggst koma í veg fyrir að smit berist í sjó þegar eldisfiski er slátrað.

Eins og fyrr segir lagði Skipulagsstofnun fram átján ábendingar eða athugasemdir, til viðbótar þessari, sem Hábrún þarf að athuga við gerð umhverfismatsskýrslu.