Rut Friðfinnsdóttir fæddist í Reykjavík 17. september 1958. Hún lést á Landspítalanum 7. september 2022.

Hún var fimmta barn þeirra Friðfinns Júlíusar Guðjónssonar, 7. maí 1929, d. 19. ágúst 2004, og Rutar Gíslínu Gunnlaugsdóttur, f. 21. september 1928, d. 28. september 1970, af alls átta börnum þeirra saman, en fyrir hafði Rut Gíslína eignast tvö börn.

Eldri systkini Rutar voru Sævar Bjarni, f. 1951, d. 2004, Hörður Trausti, f. 1953, d. 2002, Garðar Borg, f. 1955, d. 2014, Ólafur Guðjón, f. 1957, d. 1993, þá var Rut en yngri en hún eru Björk, f. 1960, d. 2017, Viðar Már, f. 1963, og Jökull Ægir, f. 1964, d. 1999. Sammæðra systkin þeirra eru Brandur Ágúst, f. 1948, d. 2001, og Hilmar Hlíðberg, f. 1949.

Árið 1973 kynntust Rut og Tómas Kristinn Sigurðsson, f. 5. desember 1958, frá Eyjum 2 í Kjós. Síðar giftu þau sig og voru lífsförunautar í alls 49 ár eða þar til Rut kvaddi þennan heim.

Hjónunum varð þriggja barna auðið: 1) Guðrún Ólafía, f. 11. júlí 1977, sonur hennar er Alexander Orri, f. 2013. 2) Friðfinnur Júlíus, f. 13. nóvember 1979. Hann er kvæntur Elínu Ósk Ómarsdóttur og eru börn þeirra fimm: Róbert Andri, f. 1998, Viktor Kári, f. 2003, Tómas Ingi, f. 2008, Emilía Rut, f. 2011, og Hörður Bjarni, f. 2013. Þá eiga þau tvö barnabörn en Róbert Andri á Ismael Jón, f. 2015, og Ástrós Eyju, f. 2020. 3) Kristín María, f. 9. júní 1991.

Útförin fer fram frá Guðríðarkirkju í dag, 27. september 2022, klukkan 13.

Elsku besta mamma mín. Það er erfitt að trúa því að þú sért ekki lengur hér með okkur. Það er svo mikið tómarúm í lífi okkar allra, sorg og söknuður. Þú varst límið okkar, þungamiðja fjölskyldunnar.

Elsku mamma, þú varst ekki bara mamma mín heldur líka mín besta vinkona. Við gerðum allt saman. Mikið fannst mér skemmtilegt þegar við fórum saman á búðarölt. Rúmfatalagerinn var í uppáhaldi hjá okkur þó svo að við færum þar inn vitandi að við værum ekki að fara að kaupa neitt. Þú varst mér allt og þú vildir allt fyrir mig gera. Þegar ég var veik varst þú mætt til að hjúkra mér. Ef ég var að fara að halda saumaklúbb varst þú tilbúin að fara í búð með mér og hjálpa mér að taka til. Þú varst alltaf til taks, elsku mamma mín. Ég er svo þakklát fyrir að hafa átt þig að og fyrir að finna svona góða vinkonu í þér. Öll kvöldin þar sem við lágum í sófanum að horfa á þætti saman, settum á okkur maska, lituðum okkur og plokkuðum og allir þeir göngutúrar sem við fórum í í hverfinu og í kringum Reynisvatn. Þeirra á ég eftir að sakna mest. Hversdagslegu hlutanna og samverustundanna sem við fáum ekki aftur.

Á uppvaxtarárunum mínum er mér minnisstætt að vinkonur mínar vildu oft koma og vera heima hjá mér því ég átti svo góða mömmu. Þú komst og bankaðir á hurðina á herberginu mínu og bauðst okkur að borða og drekka. Þú varst alltaf mætt að hugsa um að öllum liði vel. Þetta átti líka við þegar við fengum gesti. Ég veit ekki um betri gestgjafa en þig og vonast ég til þess að ég komist með tærnar þar sem þú varst með hælana í þeim málum. Þú galdraðir fram kökur, brauð og kex með kaffinu í hvert skipti sem þið pabbi fenguð gesti eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Kanaríferðirnar okkar með pabba eru mér einnig minnisstæðar. Þú elskaðir að vera í sól og ég erfi það beint frá þér. Það er sárt að hugsa til þess að við komumst ekki saman í fjölskylduferð til Kanarí með öll barnabörnin þín eins og þig dreymdi um.

Þú varst mikill gleðigjafi, elsku mamma. Þú varst mikið hörkutól og í veikindunum hélstu alltaf gleðinni, jafnvel fram á þitt síðasta. Við vorum búnar að ná að horfa saman á sex seríur af Grey's Anatomy áður en þú fórst inn á spítalann. Einn daginn var læknirinn nýbúinn að tala við þig þegar þú segir: „Kristín, við erum búnar að horfa á svo mikið af Grey's Anatomy, af hverju ertu ekki byrjuð að skera?“ eins og ég væri orðin skurðlæknir af því að horfa á alla þessa þætti.

Ég gæti skrifað endalaust um þig, elsku mamma, um hversu góðhjörtuð, traust, hlý, skemmtileg, dugleg og ósérhlífin þú varst. Þú varst tekin allt of snemma frá okkur og ég á eftir að sakna þín um ókomna framtíð. Ég trúi því að þú sért núna í sumarlandinu með systkinum þínum, mömmu þinni, ömmu og öllum englunum okkar að hafa það gott í sólinni með hvítvínsglas. Ég trúi því líka að við munum hittast þar á ný þegar minn tími kemur og mikið verður gott að fá að knúsa þig aftur. Ég elska þig meira en orð fá lýst, elsku mamma. Love you eða eins og þú myndir segja – lúlú. Minning þín lifir í hjarta mínu að eilífu.

Þín dóttir,

Kristín María Tómasdóttir.

Það haustar og lífið breytir um lit, sumarblómin kveðja og trén skarta laufkórónu með litadýrð og lofsyngja þannig lífið sem var. Þannig er hringrás lífsins og á einni svipan var kippt í burtu frá okkur Rut Friðfinnsdóttur mágkonu minni eftir stutta en snarpa baráttu við illvígan gest. Sá gestur kom óboðinn og hafði sest að í laumi.

Rut og Tómas bróðir kynntust ung og því kom Rut snemma að Eyjum og var fljót að taka til hendinni bæði úti og inni. Hún var mömmu mikil hjálp í inniverkunum á stóru sveitaheimili og gekk óhikað í öll störf úti við. Enginn stóð henni á sporði í að tína egg eða raða í bakka, svo handfljót var hún ávallt. Rut var líka alltaf ákaflega ósérhlífin og kaffi- og matarpásur voru óþarfi.

Rut og Tómas voru bæði laghent og aðstoðuðu foreldra mína á ýmsan hátt. Rut málaði, snyrti, fegraði og vildi hafa röð og reglu á hlutunum. Tómas gerði við allar vélar sem þurfti að lagfæra eða smíðaði eða lagði lagnir eða hvað annað sem þurfti. Þannig voru þau miklar hjálparhellur fyrir foreldra mína og fyrir það þakkar pabbi í dag og ég veit að mömmu þótti mjög vænt um Rut og var henni mjög þakklát fyrir hjálpina.

Við bræður höfum starfað að ýmsum verkefnum og hefur ekki borið skugga á það samstarf. Rut dró ekki af sér í þeim verkefnum heldur. Hún var sú allra handfljótasta að pakka osti eða öðru sem þurfti. Eins var hún mjög listræn og enginn útbjó fallegri ostakörfur en hún. Rut hafði góða nærveru og gerði aldrei kröfur til annarra, fyrst og fremst til sjálfrar sín, snyrtimennska og góður frágangur var hennar aðalsmerki.

Rut missti móður sína ung og hún og systkini hennar upplifðu miklar áskoranir ung að árum sem setja mark sitt á alla sem slíkt þurfa að reyna. En Rut var alltaf dugleg og skapaði með Tómasi sína eigin gæfu og fjölskyldan, börnin og barnabörnin voru henni allt. Það var gaman að sjá hana í ríkidæmi sínu í fermingu Tómasar Inga í vor, umvafða sínum bestu.

Helg er komin stundin, heilög kveðjustund,

Herra og faðir lífsins kallar á sinn fund.

Horfin burt af jörðu, horfin eigi mér,

himinn ávallt gæti, gleymum aldrei þér.

Ljóssins englar áfram lýsi veginn þinn,

ljúfi og góði Jesú, tak í faðminn sinn.

Sárt er lífið án þín, sorg í hjarta mér,

sumarnóttin bjarta vaki yfir þér.

Það reyndi mikið á fjölskyldur okkar sú óvægna og ósvífna aðför sem stór keppinautur á markaðnum stóð að gegn fyrirtæki okkar. Álagið hefur tekið sinn toll og haft afgerandi áhrif bæði á líf og heilsu okkar sem stóðum í fremstu víglínu. En Rut og Tómas stóðu þétt saman og gátu á síðustu árum notið þess að ferðast hér innanlands með börnum og barnabörnum.

Missir fjölskyldu Tómasar er mikill og við biðjum þann sem yfir öllu vakir að umvefja þau kærleika sínum og gef þeim styrk. Við biðjum líka algóðan Guð að tryggja Rut góða heimkomu og taka hana í faðminn sinn. Við Sigrún, dætur og barnabörn, ásamt föður mínum, sendum þeim okkar einlægustu samúðarkveðjur um leið og við þökkum Rut samfylgdina og allt það góða sem hún stóð fyrir og alla hjálpfýsi og samvinnu á liðnum árum.

Ólafur Magnús Magnússon.