Laugardalshöll Bólusetningar gegn Covid-19 og inflúensu hefjast í dag.
Laugardalshöll Bólusetningar gegn Covid-19 og inflúensu hefjast í dag. — Morgunblaðið/Eggert
Íbúum höfuðborgarsvæðisins, 60 ára og eldri, er nú boðið upp á fjórða skammtinn við Covid-19. Auk þess verður boðið upp á bólusetningu við inflúensu í nýju bólusetningarátaki. „Það er opið hús næstu tvær vikur í Laugardalshöll.

Íbúum höfuðborgarsvæðisins, 60 ára og eldri, er nú boðið upp á fjórða skammtinn við Covid-19. Auk þess verður boðið upp á bólusetningu við inflúensu í nýju bólusetningarátaki.

„Það er opið hús næstu tvær vikur í Laugardalshöll. Allir 60 ára og eldri eru velkomnir,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Fólk 60 ára og eldra sem ekki hefur fengið fjórðu bólusetningu gegn Covid-19 mun fá boð. Þeir sem búnir eru að fá fjórða skammtinn og ætla að fá inflúensusprautu fá ekki boð en þeim er velkomið að mæta.

Bólusett verður í anddyri gömlu Laugardalshallar klukkan 11 til 15 alla virka daga til föstudagsins 7. október. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hvetur alla sem geta til að mæta. Um 30 starfsmenn heilsugæslunnar vinna við bólusetninguna á hverjum tíma.

Fjórir mánuðir þurfa að hafa liðið frá því einstaklingur fékk síðast bóluefni gegn nýju kórónuveirunni þar til gefa má örvunarskammt. Nú verður notast við nýja útgáfu af bóluefni við Covid-19. Þess vegna verður ekki boðið upp á grunnbólusetningu fyrir þá sem ekki hafa verið bólusettir áður. Fólk er vinsamlegast beðið um að mæta í stuttermabol innst klæða til að auðvelda bólusetningu.

Heilbrigðisstofnanir utan höfuðborgarsvæðisins munu annast bólusetningar fyrir sína skjólstæðinga.

Þegar bólusetningarátaki 60 ára og eldri verður lokið er stefnt að því að bjóða yngri en 60 ára sem vilja örvunarskammt á heilsugæslustöðvum. Þar verður einnig boðið upp á bólusetningu við inflúensu á sama tíma fyrir þau sem það vilja, samkvæmt tilkynningu. gudni@mbl.is